Búseta 1.000 eldri borgara í uppnámi

Búseta 1.000 eldri borgara í uppnámi

 SKOÐUN
07:00 24. ÁGÚST 2015

Haraldur Finnsson
Haraldur Finnsson
HARALDUR FINNSSON SKRIFAR

Búmenn er húsnæðissamvinnufélag fyrir 50 ára og eldri. Það á 540 íbúðir í 13 sveitarfélögum. Á höfuð­borg­ar­svæð­inu eru þessar íbúðir eftir­sóttar enda mjög hentugar fyrir eldra fólk. Í íbúðum þeirra búa nú nær 1.000 manns við óvissu eftir að félagið fór í greiðslustöðvun í vor. Gjaldþrot félagsins hefði ófyrir­sjáanlegar af­leið­ingar, bæði fyrir íbúana og Íbúða­lánasjóð, sem myndi tapa mikl­um fjármunum. Meðal­aldur íbúanna er 70-75 ár, flestir því eftir­launafólk sem hefur þurft að taka á sig miklar kjara­skerðingar á liðnum árum.

Ef ekki á illa að fara verða stjórn­völd, bæði ríkis og sveitar­fél­aga, að koma að lausn málsins. Stjórn­­­­­völd bera ábyrgð á því hvernig er komið, m.a. með því að íbúar hús­næðis­sam­vinnufélaga sátu ekki við sama borð og aðrir íbúðareigendur varð­andi leið­rétt­ingu á hús­næðis­lánum og reyndar af fleiri ástæðum. Í regl­um Íbúða­lána­sjóðs segir að meta skuli þörf fyrir húsnæði. Þrátt fyrir það var lánað til bygginga á svæðum þar sem þörfin var ekki fyrir hendi, líklega fyrir þrýsting frá sveitar­félög­unum.

Tugir tómra íbúða
Ábyrgðin er því ekki eingöngu stjórn­enda félagsins þó vissulega hafi ýmislegt farið úrskeiðis hjá þeim. Vandi félagsins felst einkum í endurgreiðslu á búseturétti í íbúð­­um sem ekki hefur tekist að selja aftur. Félagið situr uppi með nokkra tugi tómra íbúða í nokkrum sveitarfélögum, eink­um á Suðurnesjum og í Hvera­gerði. Vand­­inn er bundinn við ákveð­in svæði, annars staðar eru íbúð­irn­ar eftir­sóttar. En allir íbúar Búmanna­íbúða eru samábyrgir. Þegar al­menn­ir sjóðir félagsins dugðu ekki til að greiða út búseturétti greip stjórn­­in til þess óyndisúrræðis að nýta Viðhaldssjóð félagsins sem all­ir íbúar hafa greitt í til að sinna eðli­legu viðhaldi, án þess að spyrja eða láta íbúa vita.

Hvergi kemur fram í lögunum að sú notkun sjóðsins sé heimil. Þarna var fé í eigu félagsmanna notað á mjög vafasaman hátt. Stjórn félagsins hefur tregðast við að upplýsa og hafa samráð við félags­menn. Hefur frestað að halda aðal­fund fram í september þó sam­þykkt­ir segi að hann skuli halda í júní. Þrátt fyrir að lög og sam­­þykktir segi til um að þá skuli ráðu­neyti grípa inn í þá gerist ekkert.

Núverandi staða íbúanna er mis­jöfn eftir byggingarflokkum en greiðsl­ur af lánum hafa hækkað jafnt og þétt og auk þess þarf að greiða fasteignagjöld, tryggingar, rekst­­ur húsfélagsins og svo áfram í við­haldssjóð sem er nánast tómur eft­ir að hafa verið (mis)notaður í að greiða út búseturéttargjöld. Sér­­staklega bitnar þetta illa á ein­hleypum og þeim sem missa maka og þurfa að greiða af íbúð sinni einir. Þegar mánaðargjöld af íbúð hjá Búmönnum eru komin í 150-200 þúsund á mánuði þá er ljóst að staðan er alvarleg fyrir einstakling á lág­markslífeyri.

Boðuð frumvörp um húsnæðismál duga ekki í þessu máli. Leysa verður málið strax. Annars lenda 1.000 íbúar, flestir á eftirlaunaaldri, í ógöng­­um með búsetu sína. Hvernig ætla sveitarfélögin, þar sem þessar íbúðir eru, að bregðast við?
Á enn einu sinni að herða að eftir­launafólki og ganga á rétt þess?

Björgvin Guðmundsson

Gróf mannréttindabrot á öldruðum og öryrkjum!

 

SKOÐUN í VÍSIR

07:00 20. ÁGÚST 2015

Björgvin Guðmundsson, viðskiptafræðingur.
Björgvin Guðmundsson, viðskiptafræðingur.
BJÖRGVIN GUÐMUNDSSON SKRIFAR

Enn einu sinni er verið að brjóta mannréttindi á öldruðum og öryrkjum. Árin 2009 og 2010 var lífeyrir frystur. Láglaunafólk fékk á því tímabili 16% kauphækkun en aldraðir og öryrkjar fengu ekki eina krónu. 1. maí sl. fékk láglaunafólk 30 þúsund króna kauphækkun á mánuði en aldraðir og öryrkjar ekki eina krónu. Og lífeyrisþegum var hreinlega tilkynnt, að þeir fengju enga hækkun í 8 mánuði! Þetta er mismunun og gróft mannréttindabrot.

Lífeyrisþegum er neitað um hliðstæðar kjarabætur og launþegar eru að fá. Nær allir launþegar landsins eru að fá verulegar kjarabætur en lífeyrisþegar eru sniðgengnir. Ríkisstjórnin neitar eftirlaunamönnum um sömu hækkun. Ég tel þetta brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og brot á 76. greininni en samkvæmt henni er réttur aldraðra og öryrkja til þess að taka eðlilegan þátt í samfélaginu varinn.

Sama framkoma við aldraða og áður
Þetta er sama framkoma við aldraða og öryrkja og átti sér stað í tíð fyrri ríkisstjórnar, þegar laun embættismanna, dómara og alþingismanna voru færð til baka og síðan leiðrétt á ný. Lífeyrir eldri borgara og öryrkja var einnig skertur, færður til baka. Við leiðréttingu launa hátekjumannanna var leiðréttingin ekki látin duga heldur fengu hátekjumennirnir kauphækkunina greidda til baka, aftur í tímann! En aldraðir og öryrkjar voru hlunnfarnir. Þeir fengu enga leiðréttingu á sama tíma. Samt höfðu þeir mátt sæta kjaraskerðingu eins og hátekjumenn. Við leiðréttingu á launum voru þeir skildir eftir. Það voru brotin mannréttindi á þeim að mínu mati.

Þegar kjör aldraðra og öryrkja voru skert 2009 voru einnig framin mannréttindabrot. Í mannréttindasáttmálum, sem Ísland er aðili að, segir, að ef færa eigi kjör aldraðra og öryrkja til baka vegna efnahagserfiðleika, eigi fyrst að kanna hvort unnt sé að fara aðra leið. Það var ekki gert 2009. Þess vegna var þá um mannréttindabrot að ræða.

Lífeyrir aldraðra og öryrkja ítrekað frystur
Stjórnvöld hafa hvað eftir annað leikið þann leik að taka 69. grein laga um almannatryggingar úr sambandi en þar segir, að við breytingu á lífeyri aldraðra og öryrkja eigi að taka mið af launaþróun en lífeyrir aldrei að hækka minna en vísitala neysluverðs. Frá þessu hefur ítrekað verið vikið og lífeyrir aldraðra og öryrkja frystur langtímum saman á sama tíma og láglaunafólk hefur verið að fá kjarabætur. Það er lögbrot og sennilega mannréttindabrot.

Auk þess hefur hvað eftir annað verið klipið af launauppbótum til lífeyrisþega. Nærtækasta dæmið í því efni er það, að lífeyrir aldraðra og öryrkja var hækkaður um 3% í janúar 2015, en kaupmáttur jókst um 5,8% árið 2014. Þarna var því verið að klípa af réttmætum og eðlilegum uppbótum til lífeyrisþega. Að mínu mati er þarna verið að brjóta mannréttindi á lífeyrisþegum. En einnig er verið að brjóta lög.

Alþjóðlegir mannréttinda- sáttmálar brotnir
Ísland er aðili að mörgum alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Mikilvægastur þeirra er mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt henni eiga allir rétt á félagslegu öryggi.

Og allir eiga rétt á lífskjörum, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra og fjölskyldna þeirra svo og rétt á félagslegri þjónustu, rétt til öryggis vegna veikinda, elli eða annars, sem skorti veldur. Það er ekki verið að framfylgja þessum ákvæðum á sama tíma og hópur aldraðra og öryrkja hefur ekki fyrir mat í lok hvers mánaðar. Og sá sami hópur hefur ekki efni á því að leita læknis eða leysa út lyfin sín. Það er til skammar, að slík fátækt skuli eiga sér stað á Íslandi. Þessi fátækt er blettur á íslensku þjóðinni og þann blett verður að afmá.

Mettuð fita ekki eins hættuleg og áður var talið

ruv-1
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Niðurstöður stórrar nýrrar rannsóknar sýna ekki tengsl milli neyslu mettaðrar fitu og skaðlegra áhrifa á heilsu. Áður hefur verið talið að mikil neysla á mettaðri fitu auki hættuna á hjartasjúkdómum, hjartaáföllum og áunninni sykursýki.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í British Medical Journal. Þetta kemur fram á vef The Independent.

Vísindamenn við McMaster háskólann í Ontario í Kanada rannsökuðu tengsl milli mikillar neyslu á mjólkurvörum, kjöti og eggjum, sem innihalda mikla mettaða fitu, og aukinnar hættu á hjartasjúkdómum, hjartaáföllum og áunninni sykursýki. Þeir fundu ekki tengsl þarna á milli.

Niðurstöðurnar rannsóknarinnar sýndu á hinn bóginn fram á tengsl neyslu transfitu, úr hertri fitu og olíum, við kransæðasjúkdóma.

Þó ekki sannað að engin tengsl séu á milli neyslu mettaðrar fitu og hjartasjúkdóma
Þrátt fyrir niðurstöður rannsóknarinnar mæla vísindamennirnir ekki með því að fólk neyti meiri matar með mikla mettaða fitu. Þótt engin bein tengsl hafi fundist milli sjúkdóma og mettaðrar fitu fundust heldur engar vísbendingar um að þetta sé sérstaklega gott fyrir heilsu fólks.

Hreinsiefni fyrir kísil

Hreinsiefni fyrir kísil

 

Ódýr og góð hreinsefni eru jafnan nærtak á flestum heimilum, auk þess eru þau umhverfisvæn.

Þar er átt við:

Borðedik: Oft kallað glært edik er lífrænt þ.e. þynnt ediksýra. Borðedik klýfur fitu og nær fram gljáa og eyðir vondri lykt.  

Rúðuúði: Blandið vatni og ediki,1 hl. edik ámóti 10 af vatni í blómaúðabrúsa og úðið á gler og spegla. Þurrkið vel og strjúkið yfir með gömlum krumpuðum dagblöðum. Prentsvertan eykur gljáa.

Salernishreinsir: Ediki er hellt í skálina og látið liggja yfir nótt. Burstað vel og sturtað niður. Ef þvottur lætur lit er gott að leggja hann í bleyti í vatn með ediki , 4 msk af ediki í 5 l vatni. Látið liggja í ca ½ klst. Skolað og þvegið á venjubundin máta. Eins má setja dálítið af ediki í þvottavélina í stað þvottaefnis til að flík haldi betur lit sínum.  

Lykteyðir

Vond lykt í íbúðinni. Setjið borðedik í skál og látið standa á eða nálægt ofni.

Ef vond lykt er af skurðarbrettum er gott að skrúbba þau upp úr ediki og skola vel.

Kaffivélar má þvo með því að láta edik í stað vatns í vélina og láta hana ganga. Endurtekið tvisvar með vatni til að eyða edikslyktinni.

Ef vond lykt er úr ískápnum er gott ráð að þvo hann upp úr ediksvatni og skola vel á eftir.

Þegar eldaður er lyktsterkur matur eins og t.d. skata er gott að vinda viskustykki uppúr ediki og leggja yfir pottlokið og vel út fyrir brúnir þess. Gæta samt vel að það snerti ekki eldavélahelluna.

Kattahlandslykt hverfur ef úðað er á blettinn ediksblönduðu vatn (1 hl. Á móti 5).

Þrif á flísum og sturtuklefum. Það er nauðsynlegt að þrífa baðherbergi og eldhús reglulega.

Góð aðferð við þrif á fúgum milli flísa er að nota blöndu af ediki, lyftidufti eða matarsóda og sítrónusafa. Borið á og látið standa jafnvel í nokkra klukkutíma, skolað vel og þurrkað.

Sítróna er náttúrulegt bleikiefni

Sítróna eyðir fitu og gefur ferska og góða lykt. Hún er líka áhrifarík við að þrífa kísil sem vill setjast í kringum blöndunartæki á baði og í eldhúsi. Einfaldast er að skera sítrónu í tvennt og nudda eða bera á óhreinindin, láta bíða um stund, skrúbba með bursta og skola vel með köldu vatni og þurrka.

Sama er að segja um sturtuklefa, en þeir vilja verða gráir og mattir af kísilnum úr hitaveituvatni. Nudda vel með sítrónu eða þvo með ediksblöndu. Láta liggja á og skola vel á eftir. Fyrirbyggjandi ráð er að gera sér að reglu að skola klefann eftir notkun með köldu vatni og helst þurrka líka.

Nýja ávaxtabletti í fötum er gott að nudda með sítrónuhelmingi og skola vel og þvo á eftir.

Sítróna er góð til að þrífa t.d. ísskáp og örbylgjuofn. Best er að setja skál með vatni og skera sítrónu í sneiðar út í og setja í örbylgjuofninn, stilla á hæstu stillingu í 2 mínútur. Þá hafa óhreinindin losnað og ekki annað eftir en að strjúka ofninn að innan, með rökum klút og þurrka síðan.

Flísar á baði og í eldhúsi verða skínandi hreinar ef þær eru nuddaðar með sundurskorinni sítrónu, látið liggja á svolitla stund og skolað vel á eftir og þurrka.

Edik og sítróna eru gagnleg á áfallin kopar. Þá er best að úða hlutin með ediksblönduðu vatni og salti.

Skera má sítrónu í 2 hluta og hafa gróft salt við höndina og nudda hlutinn með því. Láta bíða um stund og pússa síðan.

Ólykt úr sorpkvörn hverfur ef ef sítrónubörkur er látin ganga í gegnum kvörnina.

Sítrónudropar (bökunardropar) duga vel til að hreinsa límrestar af gleri.

Matarsódi og lyftiduft

Lögur á silfurhluti, sem auðvelt er að margfalda:

1 tsk. matarsódi

1 tsk lyftiduft

2 ½ dl soðið vatn (ekki nota hitaveituvatn).

Allt sett í plastílát, hrært vel í. Hlutirnir settir út í, látnir standa um stund. Skolað úr köldu vatni og fægt með mjúkum klút.

Matarsódi eyðir vondri lykt t.d. úr skápum, þá er best að setja 2-3 tsk í lítið ílát og láta standa í skápnum í nokkra daga.

Til að þvo eldhúsbekki og veggflísar er gott að strá matarsóda á rakan svamp og þurrkar yfir, nær mjög vel fitu. Þurrka yfir með hreinu vatni.

Blóðblettir geta verið erfiðir, en matarsódi hrærður með vatni í þykkan graut gerir gagn. Þá er „grauturinn“ borin á blettinn og látin þorna. Burstað af og þvegið.

1 6 7 8