Gott ef aldraðir stofnuðu stjórnmálaflokk

Gott ef aldraðir stofnuðu stjórnmálaflokk

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

formaður Landssambands eldri borgara

Fólk sem er komið yfir 55 ára aldur er ekki fyrirferðarmikið í stjórnum Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar og Fjarðabyggðar eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Af 35 kjörnum fulltrúum eru einungis 3 innan þessara sveitarstjórna sem eru orðnir 55 ára eða eldri, eða 8.5%. Fólk á þessum aldri er um 24% af heildarfjölda landsmanna. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara segir að það væri gott ef aldraðir gætu stofnað stjórnmálaflokk til að berjast fyrir sínum hagsmunum. Hún hafi hins vegar enga trú á að af því verði og muni ekki beita sér fyrir því. „Margir sem eru farnir að eldast eru fastir í þeim stjórnmálaflokkum sem þeir hafi fylgt allt lífið“, segir hún. Stofnun stjórnmálasamtaka eldri borgara hafi verið reynd fyrir nokkrum árum og menn hafi verið komnir af stað með hana. Þá hafi annar hópur  aldraðra tekið sig til og viljað stofnan annan flokk. Hvoru tveggja hafi runnið út í sandinn

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri segir að umræða um að stofna flokk eldra fólks hafi nokkrum sinnum komið upp. Ekki hafi virst grundvöllur fyrir slíku og ekki sé að sjá að svo sé frekar nú. „Það virðist sem eitthvað róttækt þyrfti að gerast sem snertir hagsmunamál eldra fólks, svo sem eins og mjög miklar og alvarlegar bótaskerðingar eða slíkt, til að af því verði“, segir hann.

„Það er langbest að stjórnvöld á hverjum tíma séu spegilmynd af samfélaginu“, segir Jóna Valgerður. „Það þarf að vera jafnræði bæði hvað varðar kyn og aldur“. Hún segist vona að með öldungaráðum í sveitarfélögunum verði hægt að hafa áhrif á málefni aldraðra í sveitarstjórnum. Hún segir að í litlum sveitarfélögum á landsbyggðinni sé beinlínis erfitt að fá menn til að gefa kost á sér í sveitarstjórnir. Þar þurfi menn að leggja á sig mikla vinnu en fái lágar greiðslur fyrir.

Minni þátttaka eldra fólks á vinnumarkaði

Minni þátttaka eldra fólks á vinnumarkaði

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherrra ætlar að leggja fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði á vorþingi.  Verði frumvarpið samþykkt mega fyrirtæki og stofnanir ekki mismuna fólki  á grundvelli aldurs, kyns, fötlunar, skertrar starfsgetu, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífs­skoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta.

67 prósent eldra fólks á vinnumarkaði

Skýrsla nefndar, sem ráðherrann skipaði,  um mótun tillögu að vinnumarkaðsstefnu og skipulagi vinnumarkaðsmála á Íslandi  kom út í júní. Í skýrslunni er að finna tölur um atvinnuþátttöku fólks á aldrinum 55 til 74 ára. Þar kemur fram að atvinnuþátttaka þessa hóps var um 67 prósent á síðasta ári, samanborið við um 80 prósent í öðrum aldurshópum. Í skýrslunni segir: „Ljóst er að aldurssamsetning þeirra sem búa hér á landi er að breytast og hlutfall þeirra sem eldri eru eykst smám saman. Þá gefur bætt heilsufar, auknar ævilíkur og vilji til virkrar þátttöku í atvinnulífinu möguleika á aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks. Í því sambandi þarf að tryggja gott starfsumhverfi til lengri tíma litið, bæði í því skyni að stuðla að betri líðan og heilsu starfsmanna sem og að auka vilja og möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína. Er þar undirstrikað mikilvægi þess að innlendur vinnumarkaður geti sem lengst notið þekkingar og færni þeirra. Er í því sambandi meðal annars átt við möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri eða seinni stigum starfsævinnar. Aðstæður einstaklinga eru misjafnar og því mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar.“

Frumvarpið lengi í smíðum

Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði hefur verið nokkuð lengi i smíðum í félagsmálaráðuneytinu.  Það átti að leggja frumvarpið fram á síðasta þingi en ekki tókst að ljúka vinnu við það þá. Eygló sagði  í fyrravor  að hún stefndi að því að leggja frumvarpið fram á haustþingi en samkvæmt þingmálamálaskrá ríkisstjórnarinnar verður það ekki lagt fram fyrr en á vorþinginu. Ráðherrann hefur sagt að hann telji að það séu vísbendingar um að fólki hér á land sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs. „Það er ástæðan fyrir því að ég hef lagt áherslu á að það verði innleitt hér í lög bann við mismunun á meðal annars á grundvelli aldurs,“ sagði Eygló á ráðstefnu sem haldin var um sveigjanleg starfslok í nóvember í fyrra.

Eldra fólk dýrmætt á vinnumarkaði

Eldra fólk dýrmætt á vinnumakaði

Sigrún Stefánsdóttir tók fyrir ári við starfi forseta hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri en hún er nú 67 ára. Áður hafði hún sagt upp starfi sínu sem dagskrárstjóri sjónvarps og útvarps í Ríkisútvarpinu. Sigrún á að baki langan starfsferil í fjölmiðlum, sem fréttamaður og dagskrárstjóri. Þegar hún stóð á fimmtugu réði hún sig rektor Norræna blaðamannaháskólans í Árósum og síðan sem deildarstjóra hjá Norrænu ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn. Þegar hún var orðin sextug réðst hún sem dagskrárstjóri hjá RÚV. Það kemur ekki heim og saman við reynslu margra kvenna sem eru komnar yfir miðjan aldur, um að það sé auðvelt fyrir eldri konur að fá starf aftur, ef þær missa vinnuna á annað borð eða vilja skipta um starf.

Uppgjöf og þú verður fórnarlamb

„Ég held að margir upplifi það þannig, að þeir muni ekki fá vinnu aftur ef þeir eru komnir á ákveðin aldur, en ég held að margir gengisfelli sjálfa sig líka.  Ég varð vör við þetta þar sem ég hef unnið, bæði hér og í Kaupmannahöfn.  Ég man eftir finnskri konu, sem var orðin rúmlega fimmtug og sló því föstu að hún myndi aldrei fá vinnu framar.  Um leið og þú gefst upp ertu orðin fórnarlamb“, segir Sigrún.

Eldra fólk dýrmætt á vinnumarkaði

Það er mikilvægt fyrir fólk að trúa að það sé eftirsóttur vinnukraftur“, segir hún og bendir á að margir haldi því fram að fólk, sem er komið á efri ár, sé besti vinnukrafturinn ef heilsan er góð. Þá eru börnin farin að heiman og fjárhagurinn orðinn betri.  „Það er enginn dýrmætari á vinnumarkaðinum en þeir sem eru orðnir fimmtugir og eldri“, segir hún.  Sigrún talar um gildi þess að fólk í háskólaumhverfinu  fái að stunda rannsóknir þegar kennslustarfi ljúki. Það sé ekki skynsamlegt að henda fólki út 67 ára.

Sumir þrá að hætta að vinna

Sigrún segir að sumir þrái það að hætta að vinna og finnist þriðja æviskeiðið dásamlegt. Það er gott og gilt en það á ekki að setja þeim stólinn fyrir dyrnar sem vilji vinna lengur.  Heilsa fólks sé önnur en var fyrir nokkrum átatugum.  „Horfum á okkur og ömmur okkar“, segir hún.  „Við búum við svo miklu betra atlæti og gætum verið 20 árum yngri en ömmur okkar þegar þær voru á sama aldri. Við erum líka betur á okkur komnar en mæður okkar voru þegar þær voru á okkar aldri. Þegar mamma varð sextug snerust hlutverkin við og við fórum að „vernda“ hana, til dæmis ef farið var til útlanda. Ég fer enn til útlanda á eigin vegum og held utanum allt mitt og stundum vel það. Ég er ekki komin í pössun“, segir hún og hlær.

Þarna liggja tækifæri fyrir eldra fólk

En það er misjafnt hvernig menn vilja hafa hlutina þegar þeir eldast. „Ef ég væri ekki að vinna, myndi ég búa mér til einhvers konar vinnu“, segir Sigrún.  Hún segist hafa hlustað á viðtal við frumkvöðla og segir að þarna liggi svo mikil tækifæri fyrir eldra fólk.  Það hafi reynslu og menntun og þarna liggi kannski tækifærin fyrir þá sem vinumarkaðurinn vill ekki. Sigrún segist hafa rætt við konu sem finnist dásamlegt að vera hætt að vinna og geta gert það sem hana langar til. Sjálf hafi hún prófað það í eitt ár að vera ekki í fastri vinnu og ekki þótt það dásamlegt. „Ég er svo mikil félagsvera, hef gaman af fólki og nenni ekki að vera pensionisti“ segir hún.

Fær ekkert nema maður sæki um

Ég geng út úr föstu starfi 65 ára“ segir Sigrún „ og gaf mér það að ég væri ekki hætt á  vinnumarkaðinum“.  Hún segist hafa farið að sækja um störf og hafi verið númer 2-3 á lokasprettinum í umsóknarferli um annað starf, þegar hún fékk starfið sem hún er núna í.„Maður fær ekkert ef maður sækir ekki um“, segir hún.

Annars missir maður kjarkinn

Sigrún segir það vafasamt að vera á sama  vinnustað í 40 ár.  Unga fólkið geri það ekki, það skipti reglulega um störf.  Sjálf segist Sigrún hafa skipt um störf á átta ára fresti.  „Annars missir maður kjarkinn“, segir hún.  Það er alltaf átak að ganga inná nýjan vinnustað“.  Hún segir líka að fjölbreytt reynsla sé dýrmæt.  „Ég er að upplifa það hér að ég kann ýmislegt sem aðrir kunna ekki, ég hef annan bakgrunn, önnur sambönd,  annars konar reynslu og hef ekki verið í háskólaumhverfinu allt mitt líf. Sigrún segir einnig að það sé mikilvægt að fylgjast vel með. Það sé líka spurning hvernig menn klæði sig og að þeir séu almennt í takt við tímann.

Góð heilsa er undirstaðan

En góð heilsa er undirstaða alls annars, segir hún.  Maður ráði ýmsu sjálfur í þeim efnum, að minnsta kosti því hvernig maður fer með sig. „Ég tel að grunnurinn að því að ég er við góða heilsu sé að ég hreyfi mig mikið.  Fólk er að vorkenna mér vegna þess að ég geng í vinnuna með bakpokann minn, 45 mínútna gang til og frá vinnu. Og þetta er ekki bara tími sem ég geng í vinnuna, ég get hugsað á leiðinni, skipulagt daginn og undirbúið fyrirlestra.  Ég nýti þennan tíma vel og þarf ekki í Worldclass.

Vill setja á laggirnar vísindaskóla

Ég finn aldrei fyrir því að ég sé með þeim elstu á vinnustaðnum. Þetta er kannski þessi dásamlega sjálfsblekking en ég verð heldur ekki vör við að aðrir umgangist mig eins og ég sé elst. Ég er svo forvitin, sem ég held að sé gott.  Það var ekki tilviljun að ég valdi mér blaðamennsku að lífsstarfi.  Mér finnst nauðsynlegt að fylgjast vel með og vera skapandi. Ég fékk nýlega hugmynd að vísindaskóla fyrir unga Akureyringa og er nú að þróa þá hugmynd áfram.  Það er bara svo skemmtilegt og ævintýrin eru á hverju horni !!

Hérna fyrir neðan eru myndir frá starfsferli Sigrúnar í sjónvarpinu og gönguferðum á Ströndum og á Grænlandi.  Neðst t.v. er mynd af henni með sambýlismanninum Yngvari Björshol  og með sonunum tveimur, Þorleifi Stefáni og Héðni Björnssonum.

 

 

Eftirlaunin hækkuðu um 26 prósent

Eftirlaunin hækkuðu um 26 prósent

„Öryrkjar og eldri borgarar kölluðu á bætt kjör fyrir áramótin þegar við vorum að ljúka vinnslu fjárlagafrumvarpsins og nú birtast okkur tvær fréttir sem geta ekki talist til þess fallnar að gera þennan hóp sérstaklega sáttan,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vg á Alþingi, undir liðnum störf þingsins. Annars vegar gerði Bjarkey að umtalsefni frétt þess efnis að Glitnir HoldCo skipti á milli þriggja manna 170 milljónum á ársgrundvelli í laun.

„Þetta er hreint ótrúlegt og það er ekki að ósekju að fólk velti fyrir sér hvort við séum á sömu leið og fyrir hrun. Síðan kemur frétt um að fyrrverandi dómarar fái 26% hækkun á eftirlaun sín eða eftirlifandi makar þeirra. Þetta gera 44 milljónir á ársgrundvelli fyrir 29 manns,“ sagði Bjarkey. Hún sagði að rökstuðningurinn fyrir hækkun launa dómara nú síðast hafa meðal annars verið aukið vinnuálag. Bjarkey gerði hins vegar athugasemdir við að dómarar á eftirlaunum fái sömu hækkun og starfandi dómarar svo og eftirlifandi makar.  Bjarkey spurði því: „En af hverju á hækkunin að fara til þessa sérstaka hóps eftirlaunaþega meðan allir aðrir sem fá eftirlaun sitja eftir, sem og öryrkjar? Ríkið virðist alltaf eiga fjármuni fyrir sérstaka hópa sem hafa það betra en þeir sem minnst hafa.“

Vilja þjóðarsátt um kjör eldri borgara og öryrkja

Formaður fjárlaganefndar vill aðstoða þá verst stöddu

Guðni Einarsson gudni@mbl.is

„Við getum ekki horft upp á það að einhverjir eigi vart til hnífs og skeið- ar árið 2016,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Hún kvaðst hafa tekið málefni eldri borgara og öryrkja upp á þingflokksfundi Framsóknarflokksins á mánudaginn var. „Nú verðum við á einhvern hátt að finna leiðir til að koma þessum skilgreinda 9.500 manna hópi sem verst stendur til að- stoðar,“ sagði Vigdís. Hún sagðist hafa verið að hugsa um þessi mál síð- an í fjárlagagerðinni og telur hún að nokkrar leiðir geti komið til greina. Áskorun til landsfeðra Fjölmennur fundur Íslendinga sem staddir voru á Kanaríeyjum fyrr í mánuðinum samþykkti áskorun til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um að þeir beittu sér fyrir því „að þjóðarsátt verði komið á í málefnum eldri borgara og öryrkja á árinu 2016“. Eins mun hafa komið fram á fundinum að eldra fólki þætti ekkert jafn mikilvægt og að höggvið yrði á hnúta skerðinga á bótum og réttindum. Vigdís var á fundinum þegar áskorunin var borin upp og sam- þykkt með lófataki. Viku áður hafði hún haldið ræðu á vikulegum fundi Íslendinga á Sportbarnum á Gran Canaria. Þar voru rúmlega 100 manns. Finna þarf leiðir til lausnar „Þarna er starfandi Framsóknarfélag í „syðstakjördæmi“. Úr því að ég var þarna stödd var ég beðin að tala á reglubundnum laugardagsfundi,“ sagði Vigdís. „Landsmálin voru rædd og kjör eldri borgara og öryrkja. Ég fór yfir tölur sem fjárlaganefnd fékk rétt fyrir jólin.“ Vigdís sagði að samkvæmt þeim væri staðan erfið hjá um 4.500 eldri borgurum og um 5.000 öryrkjum. „Ég sagði að það þyrfti að koma þessum hópi á einhvern hátt til hjálpar. Það er verkefni stjórnmálanna nú fram á vor að finna út úr því hvaða leið er best í samvinnu við fjármálaráð- herra.“ Vigdís kvaðst einnig hafa farið yfir 9,7% hækkun almannatrygginga á fjárlögum 2016. „Tæplega 10% hækkun á einu ári er mjög góður árangur að mínu mati. Enda byggist hún á 69. grein almannatryggingalaga sem er í raun kjaradómur þessara hópa. Þar er uppskrift að því hvernig hækkanir til þessara hópa eru fundnar út.“

 

Hækkun bóta » Í 69. grein laga um almannatryggingar (100/2007) segir: » „Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Vigdís greiddi atkvæði gegn kjarabótum aldraðra og öryrkja.Kveðst nú vera að skipta um skoðun!

Vigdís greiddi atkvæði gegn kjarabótum aldraðra og öryrkja.Kveðst nú vera að skipta um skoðun!

 

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar var í viðtali við Bylgjuna um málefni aldraðra.Þetta var kostulegt viðtal. Eftir að fjárlaganefnd og meirihluti alþingis er nýbúinn að fella allar tillögur um afturvirkar kjarabætur til aldraðra og öryrkja eins og aðrir hafa fengið og felldar hafa verið allar tillögur um, að lífeyrisþegar fengju sambærilegar hækkanir og verkafólk segir Vigdís að hún vilji bæta kjör þeirra lífeyrisþega,sem verst hafa kjörin!Ég tek ekkert mark á þessu.Þetta er marklaust orðagjálfur.Vigdís hafði tækifæri til þess að veita þeim verst stöddu meðal aldraðra og öryrkja kjarabætur við afgreiðslu fjárlaga í desember. Hún greiddi atkvæði gegn slíkum tillögum þá.Afsökun hennar um,að hún hafi ekki vitað hve margir lífeyrisþegar væru illa staddir er marklaus.Hún væri ekki að vinna vinnuna sína,ef hún kynnti sér ekki málin áður en þau kæmu til afgreiðslu.

Síðan dásamaði hún 9,7% hækkun lífeyris,sem lífeyrisþegar fengu 8 mánuðum seinna en verkafólk fékk hækkun og 10 mánuðum seinna en ráðherrar fengu 100 þús króna hækkun hver.Hún hefði dásamað þessa hækkun jafnmikið þó hún hefði verið 5%!Sannleikurinn er sá,að það er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra,sem ákveður hækkun lífeyrisþega og sker hana niður langt niður fyrir launahækkanir annarra (14,5%-30% hjá öðrum).Framsókn og þar með Vigdís dansar með. Framsóknarflokkurinn er ekki lengur neinn félagshyggjuflokkur.Ef svo væri hefði flokkurinn ekki brugðist öldruðum og öryrkjum gersamlega.

Björgvin Guðmundsson

Lífeyrir aldraðra og öryrkja á að vera skattfrjáls!

Ríkið skammtar lífeyrisþegum algera hungurlús í lífeyri.En tekur síðan hluta af lífeyrinum til baka í sköttum! Hvaða vit er í því? Auðvitað á lífeyrir aldraðra og öryrkja að vera skattfrjáls.Lífeyrir aldraðra einhleypinga er 207 þúsund krónur á mánuði eftir að ríkið er búið að taka 40 þúsund krónur af lífeyrinum.Ríkið skammtar með annarri hendinni en tekur til baka með hinni?

Eldri borgarar hafa barist fyrir því undanfarin ár,að skattleysismörkin væru hækkuð myndarlega.Það hefur verið ályktað um það á aðalfundum Félags eldri borgara í Reykjavík ítrekað og áskoranir sendar stjórnvöldum.Skattleysismörkin eru fyrir árið 2016 krónur 145.659.Það er alltof lágt.Það þarf að hækka þau i rúmlega 200 þúsund krónur.Hækkun skattleysismarkanna væri góð kjarabót bæði fyrir lífeyrisþega og lágtekjufólk.

Björgvin Guðmundsson

LEIÐTOGARNIR SVIKU LíFEYRISÞEGA

LEIÐTOGARNIR SVIKU LíFEYRISÞEGA
Hvaða leyfi hafa stjórnarherrarnir,Sigmundur Davíð og Bjarni til þess að halda kjörum lífeyrisþega niðri?Fengu þeir eitthvað umboð til þess í síðustu kosningum að hlunnfara aldraða og öryrkja á sama tíma og allir aðrir í þjóðfêlaginu fá miklar kjarabætur.Var það ekki þveröfugt? Sögðust þeir ekki ætla að stórbæta kjör lífeyrisþega? Ég man ekki betur. Þessir leiðtogar eru því að svíkja aldraða og öryrkja.

Það er alvarlegt mál þegar stjórnmálamenn svíkja kjósendur.Og það er enn alvarlegra þegar þessir kjósendur eru eldri borgarar. Bjarni Benediktsson skrifaði eldri borgurum bréf fyrir síðustu alþingiskosningar og lofaði, að hann mundi afnema allar tekjutengingar í kerfi almannatrygginga. Hvað þýddi það? Jú,það þýddi það, að hann ætlaði að hætta að skerða tryggingabætur TR vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Það hefði verið mikil kjarabót,ef hann hefði staðið við það.En það hvarfaði ekki að honum að efna þetta kosningaloforð. Bjarni sveik loforðið!
Bjarni lofaði einnig í umræddu bréfi til eldri borgara að hætta að skerða tryggingabætur hjá TR vegna fjármagnstekna af innistæðum
í bönkum. Það er einnig mikið hagsmunamál eldri borgara. Ef eldri borgari minnkar við sig íbúð sína,kaupir aðra ódýrari og leggur mismuninn í banka er honum refsað grimmilega fyrir það. Tryggingastofnun hrifsar þá drjúgan hluta af lífeyri hans hjá TR .Bjarni lofaði því í kosningunum að afnema þessa skerðingu en hann sveik það loforð líka.(Síðan hefur ríkisstjórnin aftur lofað því í stjórnarsáttmálanum að draga úr skerðingu tryggingabóta vegna fjármagnstekna en þeir þeir Bjarni og Sigmundur Davíð hafavikið það.) Bjarni Benediktsson lofaði einnig að afnema alla skerðingu tryggingabóta vegna atvinnutekna.Hann ætlaði ekki aðeins að rýmka frítekjumarkið. Nei hann lofaði að gefa ótakmarkaða heimild fyrir atvinnutekjum án þess að þær skertu tryggingabætur. En hann sveik þetta kosningaloforð líka!

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013 var eftirfarandi samþykkt: Ellilífeyrir verði leiðréttur strax til samanburðar við þær hækkanir,sem orðið hafa á lægstu launum frá 2009.Þarna er engin tæpitunga töluð. Því er lofað að ellilífeyrir verði leiðréttur vegna launahækkana, ekki seinna heldur strax. En núna 2 1/2 ári seinna er ekkert farið að gera í að efna þetta loforð.Og það er ekkert óljóst við hvað á að miða í leiðréttingunni.Það á að miða við hækkun lægstu launa.
Bjarni Benediktsson var formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar þetta var samþykkt 2013 og hann er formaður flokksins ennþá. Hann ber því fulla ábyrgð á þessu loforði og efndum þess.M.ö.o. Bjarni lofaði að hækka lífeyri aldraðra til samræmis við þær hækkanir,sem orðið hefðu á lægstu launum 2009-2013. En hann hefur ekki aðeins svikið það heldur einnig bætt um betur og haldið kjörum aldraðra og öryrkja niðri á sl. ári, þegar allar aðrar stéttir hafa fengið miklar launahækkanir.
Bjarni lét sem fjármálaráðherra framhaldsskólakennara fá 44% launahækkun!,Hann lét lækna fá 40 % kauphækkun og þannig mætti áfram telja.Ríkið ruddi brautina fyrir gífurlegum launahækkunum. En þegar kom að öldruðum og öryrkjum sagði Bjarni nei.En þó voru það einmitt lífeyrisþegar,sem Bjarni og raunar Sigmundur einnig lofuðu að bæta kjörin mest hjá i þingkosningunum 2013.

Verkafòlk fékk 14,5% hækkun lágmarkslauna 1.mai 2015 og ráðherrarnir sjálfir (þingmenn og embættismenn) fengu mikla launahækkun frá 1.mars 2015. (Yfir 100 þúsund kr á mánuði).En þeir Bjarni og Sigmundur Davíð ákváðu,að aldraðir og öryrkjar skyldu ekki fá neina hækkun í 8 mánuði eftir almennar launahækkanir vorsins 2015.Þeir skyldu fyrst fá hækkun 2016 og þá miklu minni hækkun en launþegar eða 9,7% hækkun í stað 14,5%.Með þessari ákvörðun var verið að stórskerða kjör lífeyrisþega og í rauninni að framkvæma nýja kjaragliðnun.Þannig sviku þeir leiðtogarnir aldraða og öryrkja.

Björgvin Guðmundsson
Formaður kjaranefndar
Félags eldri borgara í Rvk
Og nágrennni

Uppnám vegna matarleysis um helgar

Uppnám vegna matarleysis um helgar

 

INNLENT

07:00 14. JANÚAR 2016

Jón Gunnar segir hádegismatinn vera mikilvægan þátt í rútínu íbúanna og rjúfa félagslega einangrun.
Jón Gunnar segir hádegismatinn vera mikilvægan þátt í rútínu íbúanna og rjúfa félagslega einangrun.FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Borgin rekur mötuneyti í Eirborgum þar sem öryggisíbúðir eru fyrir aldraða. Þar er framreiddur heitur matur í hádeginu en nú um áramótin varð sú breyting á að maturinn er ekki lengur í boði um helgar og á helgidögum.

Jón Gunnar Ásgeirsson, sem býr í Eirborgum, segir hádegismatinn mikilvægan þátt í rútínu fólks. Hann segir íbúana æfa vegna breytinganna. „Við fáum engan mat 110 daga á ári. Það eru margir sem geta ekki eldað sér mat eða farið í búð, hvað þá í þessu færi. Dóttir mín hefur stundum komið og eldað fyrir mig en það eru ekki allir svo heppnir að eiga góða að. Félagslegi þátturinn er þó mikilvægastur.“

Jón bendir á að heldur ætti að hækka verðið á máltíðinni sem er nú 660 krónur. „Ég held að flestir væru tilbúnir að borga hundrað krónum meira og halda þjónustunni um helgar inni. Við reyndum að segja stjórnendum það en það er enginn vilji til að hlusta. Þetta er bara stjórnunarofbeldi.“

Ragnheiður Gunnarsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri í Eirborgum, segir íbúa geta fengið matarbakka senda til sín um helgar og því muni enginn svelta. „En félagsleg einangrun aldraðra er stórt vandamál og fólki líður vel í notalegum matsalnum með framúrskarandi starfsfólki. Borgin telur sig þurfa að spara en gerir sér kannski ekki grein fyrir hversu dýrmæt þessi þjónusta er.“

Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir kostnað við helgarþjónustu í Eirborgum vera sex milljónir króna á ári. Eirborgir ásamt einni annarri félagsmiðstöð voru með mat um helgar á síðasta ári en nú er aðeins opið á Vitatorgi um helgar, þar sem matarbakkar eru útbúnir.
Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs, segir erfitt að svara spurningunni um hvort helgarmáltíðir á félagsmiðstöðvum borgarinnar verði endurskoðaðar í ljósi uppnáms íbúanna. „Við höfum ekki fengið útreiknaðan kostnað við það og eins og flestir vita eru fjármunir af skornum skammti,“ segir hún. Ráðið hefur þó ekki lokað málinu, skoðaður verður möguleikinn á sjálfboðaliðum í matarþjónustunni og eftir söfnun gagna um félagsstarf og matarþjónustu verður málið tekið upp að nýju.

Hjartastopp ekki alltaf fyrirvaralaus

Hjartastopp ekki alltaf fyrirvaralaus

shutterstock_96242975 (2)Hjartastopp eru ekki alltaf fyrirvaralaus og skyndileg eins og margir halda og útlit er fyrir að meira en helmingur sem fá hjartastopp hafi fengið viðvörunarmerki allt að mánuði áður.

Í rannsókn sem framkvæmd var á körlum á miðjum aldri í Portland Oregon, kom í ljós að meira en helmingur hafði hugsanlega fengið viðvörunarmerki allt að mánuði áður en hjörtu þeirra hættu skyndilega að slá.

Hjartastopp á sér stað þegar hjartað hættir að slá vegna bilunar í rafkerfi þess. Fólk getur stundum lifað af hjartastopp ef þeir fá fyrstu hjálp (hjartahnoð) strax og hjartastuðtæki er notað fljótt eftir áfall til að koma hjartanu í eðlilegan takt.

Um 360.000 hjartastopp utan sjúkrahúsa eru skráð á hverju ári í Bandaríkjunum, samkvæmt tölum frá Amerísku hjartasamtökunum. Aðeins 9,5 prósent af fólki sem fær hjartastopp utan sjúkrahúsa lifa hjartastoppið af.

Hér á Íslandi er talið að milli 100 og 200 hjartastopp verði árlega utan sjúkrahúss og ef þessar tölur eru yfirfærðar á okkur veruleika er líklegt að einhverjir tugir manna og kvenna láti hér lífið á hverju ári af þessum völdum.

„Þegar sjúkraflutningamenn koma á staðinn er það oft of seint“, sagði Eloí Marijon, MD, aðalhöfundur rannsóknarinnar við Cedars – Sinai Heart Institute í Los Angeles.

Rannsóknin er hluti af 11 ára rannsókn í Oregon á óvæntum dauðsföllum, þar sem rannsakaðir voru 1 milljón karla í miðhluta Portland. Vísindamennirnir söfnuðu upplýsingum um einkenni og heilsufarssögu karla á aldrinum 35-65 ára sem höfðu fengið hjartastopp utan sjúkrahúss á árunum 2002-2012.

Meðal 567 karla sem höfðu fengið hjartastopp utan sjúkrahúss höfðu 53 prósent fengið einkenni fyrir hjartastoppið. Af þeim sem höfðu fengið einkenni höfðu 56 prósent fengið brjóstverk, 13 prósent höfðu fengið mæði og 4 prósent hafði fengið svima, yfirlið eða hjartsláttarónot.

Næstum 80 prósent einkennanna komu milli fjögurra vikna og einnar klukkustundar áður en hjartastoppið átti sér stað.

Flestir karlanna höfðu kransæðasjúkdóm en aðeins um helmingur þeirra hafði verið greindur með sjúkdóminn áður en þeir fengu hjartastoppið.

Vísindamenn vinna nú að því að framkvæma sambærilega rannsókn á konum.

„Lærdómurinn sem má draga af þessu er að ef þú hefur þessar tegundir af einkennum skaltu ekki hunsa þau“, sagði Sumeet Chugh, sérfræðingur og framkvæmdastjóri fyrir erfðafræðihluta hjartadeildar á Cedars-Sinai hjartastofnunninni. „Farið á bráðamóttöku strax og ekki láta hjá líða“

Þýtt of stílfært af vef Amerísku hjartsamtakanna.

1 2 3 4 5 6 8