Óþolinmæði gætir meðal eldri borgara

Óþolinmæði gætir meðal eldri borgara

Haukur Ingibergsson

Haukur Ingibergsson

„Landssamband eldri borgara er orðið óþolinmótt gagnvart því að næstu skref á framfarabrautinni verði tekin,“ segir Haukur Ingibergsson formaður sambandsins. Nefnd um breytingar á almannatryggingakerfinu, svo kölluð Pétursnefnd, skilaði tillögum sínum til félagsmálaráðherra fyrir nokkrum vikum. Síðan hefur verið unnið að gerð frumvarps um breytingar á almannatryggingakerfinu í ráðuneytinu og var hugmyndin að leggja það fram á næsta haustþingi. Eins og allir vita hafa orðið kúvendingar í stjórnmálum hér á landi og margir óttast að ekkert verði úr fyrirhuguðum breytingum. „Á óvissutímum í stjórnmálum getur allt gerst,“ segir Haukur. Hann segir að óskastaðan sé sú að frumvarpið verði á þeim lista sem sitjandi ríkisstjórn afgreiði áður en boðað verður til kosninga. Annar kostur í stöðunni sé að ný ríkisstjórn haldi áfram með málið og afgreiði það á haustþingi. Þriðji kosturinn sé að ákveðin atriði í tillögum Pétursnefndarinnar varðandi eldri borgara verði afgreidd í haust svo sem tillögur um lífeyrismál  sem fela í sér einföldun á lífeyrirskerfinu. „Það er kominn tími til að eitthvað hreyfist í málefnum eldri borgara. Það hafa verið starfandi nefndir í tvo áratugi, hver fram af annarri en lítið hefur þokast í okkar málefnum. Verði tillögur Pétursnefndarinnar að veruleika verður það mesta heildarbreyting á almannatryggingarkerfinu í tuttugu ár,“ segir Haukur.

Nokkrar af þeim tillögum sem nefnd um endurskoðun á almannatryggingarkerfinu lagði til:

  • Einföldun bótakerfisins
    Bætur almannatryggingakerfisins verði einfaldaðar m.a. með því að taka upp einn lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Markmiðið er að einfalda bótakerfið og festa í sessi þá lágmarksupphæð sem framfærsluuppbót tryggir þeim tekjulægstu í núverandi kerfi. Nefndin leggur til að hækkanir á fjárhæðum bóta almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna. Útreikningar sýna að tillögurnar munu færa allflestum lífeyrisþegum mikla réttarbót.
  • Hækkun lífeyrisaldurs
    Lífeyrisaldur hækki í skrefum, frá 67 ára aldri til 70 ára. Miðað er við að tveir mánuðir bætist við lífeyristökualdurinn árlega á næstu tólf árum. Eftir það bætist við einn mánuður á ári í næstu tólf ár, þar til 70 ára viðmiðinu hefur verið náð eftir 24 ár frá gildistöku breytinganna.
  • Sveigjanleg starfslok og starfslokaaldur
    Heimilt verði að fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs. Einnig verði heimilt að flýta töku lífeyris en hún geti þó ekki hafist fyrr en við 65 ára aldur. Miðað er við að frestun lífeyris veiti rétt til varanlega hærri lífeyris frá almannatryggingum en ef lífeyristöku er flýtt lækki lífeyririnn.

Sjálfboðavinna eldra fólks sést ekki í hagtölum

Sjálfboðavinna eldra fólks sést ekki í hagtölum

Gurðun ásamt dóttur sinni Gunnhildi Kristjánsdóttur.

Gurðun ásamt dóttur sinni Gunnhildi Kristjánsdóttur.

„Það er reiknað með því að maður sé á bakvakt alla tíð við að hjálpa börnunum og sinna um aldraða foreldra. Þess vegna finnst mér svo fyndið þegar það er talað um að fólk eigi að geta unnið lengur og þá einhverja sjálfboðavinnu,“ segir Guðrún Ágústsdóttir formaður Öldungaráðs Reykjavíkurborgar.  „Við erum í mjög mikilli sjálfboðavinnu nú þegar. Við hjálpum til við að láta hjól atvinnulífsins snúast með því gera börnunum okkar kleift að sinna vinnunni sinni betur en þau gætu ella. Við erum mörg að keyra og sækja barnabörnin í skóla og tómstundir og gætum þeirra þegar þau veikjast. Flestir reyna að létta undir með börnunum sínum eins og þeir geta. Ef þetta væri inni í hagtölum hins íslenska hagkerfis þá myndi sjást hvað það munar mikið um þetta,“ segir Guðrún.  Hún segir að henni finnist skipta máli að fólk sem komið er á ellilífeyrisaldur geti fengið launaða vinnu. Mörgum komi á óvart hversu lágur lífeyririnn er. „Fólk ætti að vera búið að gá að því en kannski vill það ekki horfast í augu við það að lífeyririnn er miklu lægri en það bjóst við. Karlar eru að vísu mun betur settir en konur. Þeir eru með hærri laun og hafa ekki rofið starfsferil sinn eins og konur þurfa gjarnan að gera. Barneignir stytta þann tíma sem konur eru að afla sér lífeyris gegnum lífeyrissjóðina,“ segir hún.

Æskudýrkun á Íslandi

Guðrún segir að ef eldra fólk mætti og gæti unnið án þess lífeyrir þess væri skertur eins mikið og nú er gert væru án efa margir til í að afla sér tekna til að komast betur af. „Ég sé til dæmis sjálfa mig alveg í þeirri stöðu að geta verið í afleysingum í gestamóttöku á hóteli.  Ég er með mikla reynslu af því að taka á móti fólki, hef verið flugfreyja, tala einhver tungumál og hef unnið í sendiráði í tíu ár.  Ég býst hins vegar við því að mér reyndist erfitt að fá slíka vinnu þó ég kæmi og byði fram starfskrafta mína. Af því að atvinnurekendur vilja yngra fólk. Það er heilmikil æskudýrkun á Íslandi. Ungt fólk er frábært en það má ekki bitna á hinum sem eru eldri. Við fáum stundum á tilfinninguna að við séum eins og afskráður ónýtur bíll. Ég vann einhvern tímann í bíladeildinni hjá Sjóvá þá var þetta hugtak notað um ónýta bíla. Afskráður ónýtur. Það þarf að breyta viðhorfi atvinnurekenda til þeirra sem eldri eru. Fólk er fullfrískt andlega og líkamlega langt fram eftir ævinni.“

Hersveit ungra eldri borgara

Nú er verið að tala um að hækka lífeyristökualdurinn og það er ekkert á móti því að skoða það segir hún. En svo má líka skoða hvort fólk má ekki, ef það vill, halda vinnunni sinni lengur eða fara í annað starf innan

Æskuvinkonurnar Birna Bjarnadóttir, Jóhanna Hauksdóttir og Guðrún.

Æskuvinkonurnar Birna Bjarnadóttir, Jóhanna Hauksdóttir og Guðrún.

sama fyrirtækis. „Fólk þarf kannski ekki að vera í sama starfi alla tíð. Fólk getur færst á milli starfa en það þarf tryggja að það sé gert á þann veg að það sé ekki niðurlægjandi fyrir fólk. Það er verið að tala um að það þurfi að flytja inn erlent starfsfólk til að mynda í ferðaþjónustu. Ég sé fyrir mér hersveit eldri borgara sem getur gengið í mjög mörg af þeim störfum sem þarf að vinna í ferðaþjónustunni og því ekki að nýta krafta þessa fólks,“ segir hún og bætir við að atvinnurekendur ættu að átta sig á að þarna sé falinn fjársjóð að finna. Þeir ættu að fara í þann gullgröft og sjá hvort eldra fólk sé ekki gjaldgengt. „Það eru fordómar gagnvart eldra fólki. Það er talið að það kunni ekki tungumál, kunni ekki á tölvur og svo framvegis. Flestir hafa hins vegar áttað sig á, að við getum svarað í síma og jafnvel hringt sjálf,“ segir Guðrún og hlær.

Eldra fólk ekki náttúrvá

Guðrún segir viðhorf til eldra fólks séu um margt undarleg. „Það er sérkennilegt þegar maður heyrir forystumenn sveitar- og bæjarfélaga tjá sig um að það sé vá fyrir dyrum því öldruðum sé að fjölga svo mikið í þeirra byggðarlagi. Ég man eftir því að hafa hlustað á háttsettan embættismann í einu af nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur segja þetta nýverið. Maður fékk á tilfinninguna að hann væri að lýsa náttúruvá, eldgosi, bráðnun jökla eða eitthvað slíkt. Það er hættulegt að búa til einn hóp úr fólki 67 ára og eldra. Margir virðast halda að þetta sé einsleitur hópur sem hafi sömu langanir og þrár og þurfi svipaða umhyggju. Allir sem hugsa vita að þannig er þetta ekki. Við erum jafn misjöfn og við erum mörg sama á hvaða aldri við erum.“

Að segja þjóðinni frá

Guðrún ræktar garðinn sinn í orðsins fyllstu merkingu.

Guðrún ræktar garðinn sinn í orðsins fyllstu merkingu.

„Við þurfum að segja þjóðinni frá því að það þurfi ekki að hafa svona rosalegar áhyggjur af því að eldra fólk sé svo íþyngjandi. Miðað við aðrar þjóðir OECD, og við berum okkur gjarnan saman við þær, er þrennt sem sker sig úr á Íslandi:  Meðalaldur þjóðarinnar er mun lægri en meðal annara þjóða. Aldursamsetningin hér er mun eðlilegri en til dæmis á hinum Norðurlöndunum. Í öðru lagi höfum við bæði áhuga og vinnum lengur en fólk gerir meðal annarra þjóða. Í þriðja lagi þá hefur verið skylda að borga í lífeyrissjóði frá því í upphafi níunda áratugarins. Þeir sem nú eru að komast á lífeyri hafa því greitt í lífeyrissjóði í áratugi. Þeir sem eru yngri, eru því ekki að borga okkur lífeyri – við höfum í flestum tilvikum safnað fyrir honum sjálf. Fyrir  skylduaðild að lífeyrissjóðum fór meirihluti aldraðra á lífeyri frá tryggingastofnun við 67-70 aldur. Við erum best sett af ríkjum OECD að því er varðar lífeyrissjóði.

Maður ræður hversu hratt maður eldist

,,Ég hvet alla til að nota hvert tækifæri sem gefst til að læra nýjustu tækni. Þjálfa sig á i-pad og i-phone svo dæmi séu tekin og læra meira á tölvur. Það verður sífellt ríkari krafa, að fólk kunni á þessi tæki til að geta tekið þátt í samfélaginu. Borgin hefur boðið upp á námskeið, eins Félag eldri borgara og ýmsir fleiri og ég hvet fólk til að notfæra sér það,“ segir hún og bendir á að margir eiga barnabörn sem kunna þetta og séu reiðubúin og hafi gaman af að hjálpa afa og ömmu að læra nýjustu tækni. Guðrún segir að annað sem skipti verulegu máli fyrir fólk þegar það eldist sé að huga að hreyfingu. „Við þurfum að hreyfa okkur reglulega og borða vel. Að mínu mati getum við haft alveg gífurleg áhrif á heilsu okkar þegar við erum að eldast. Maður ræður ansi miklu um það sjálfur hversu hratt maður eldist. Annað sem þarf líka að huga að, er að þjálfa heilabúið. Það þarf markvissa þjálfun alveg eins og skrokkurinn. Og eitt til sem er algert lykilatriði, það er að rækta vináttuna. Að eiga góða vini sem maður getur leitað til í blíðu og stríðu er gulls ígildi. Þeir sem voru einir og einmana þegar þeir voru ungir verða enn meira einmana þegar þeir eldast nema þeir geri eitthvað róttækt í því. Það er svo margt sem hægt er að gera, það er hægt að ganga í ferðafélög eða taka þátt í starfi félagsmiðstöðva fyrir eldri borgara. Það eru sautján félagsmiðstöðvar í borginni og þar fer fram lífleg starfsemi.“

Þeir sem búa við fátækt

Það er einn hópur sem er Guðrúnu sérlega hugleikinn og það eru þeir sem búa við fátækt á efri árum. „Fátækt einangar fólk. Fátækar konur eru fleiri en fátækir karlar. Það þarf að finna leiðir til að efnalítið fólk geti

Gurún er formaður Öldungráðs Reykjavíkur. Hér er hún með hluta stjórnarmanna, Hrafni Magnúsyni, Kjartani Magnússyni og Bryndísi Hagan.

Gurún er formaður Öldungráðs Reykjavíkur. Hér er hún með hluta stjórnarmanna, Hrafni Magnúsyni, Kjartani Magnússyni og Bryndísi Hagan.

tekið þátt í samfélaginu, geti komist í leikhús á tónleika, söfn og sýningar. Vandi kvennanna felst í því, eins og ég sagði áðan, að þær hafa oft verið styttra á vinnumarkaði en karlarnir og með lægri laun. Við þurfum því að huga að þeim og líka að innflytjendum sem eiga lítinn sem engan rétt. Við verðum alltaf að byrja á því að hugsa um þau okkar  sem eru verst sett og færa okkur svo upp tekjustigann,“ segir hún.  Það þarf að muna eftir nýju Íslendingunum og tryggja að þeir séu ekki settir til hliðar í samfélaginu af því að þeir komu hingað til að vinna á fullorðinsárum. Því má svo bæta við að Öldungaráð Reykjavíkur ætlar að gangast fyrir opnum fundi um fátækt í borginni 13. apríl næst komandi í Tjarnarsal Ráðhússins.  Þar munu fræðimenn fjalla um fátækt frá ýmsum sjónarhornum og hvað býr að baki henni.  Auk þess flytja fulltrúar þeirra flokka sem eiga sæti í borgarstjórn ávörp þar sem þeir fjalla um hvernig megi koma í veg fyrir fátækt. „Niðurstöður fundarins verða svo leiðarljós í okkar vinnu í öldungaráðinu í framtíðinni,“ segir Guðrún að lokum.

Boltinn er hjá velferðarráðuneytinu.

Boltinn er hjá velferðarráðuneytinu

 

SKOÐUN

07:00 08. MARS 2016

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.
Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.
PÉTUR MAGNÚSSON SKRIFAR

Í Fréttablaðinu 25. febrúar sl. birtist grein eftir formann kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni þar sem fram kemur að þegar eldri borgari fari á hjúkrunarheimili taki Tryggingastofnun ríkisins lífeyri hans til greiðslu kostnaðar við dvölina á hjúkrunarheimilinu. Sé það líkast eignaupptöku. Jafnframt segir í greininni að stjórnvöld íhugi að breyta fyrirkomulaginu en hjúkrunarheimilin leggist gegn því. Þetta er alrangt. Undirrituðum er ekki kunnugt um hjúkrunarheimili sem er fylgjandi núverandi fyrirkomulagi enda hafa þau verið sett í hlutverk innheimtufulltrúa fyrir ríkisvaldið, hlutverk sem þau hafa aldrei beðið um að fá að taka að sér.

Greiðslufyrirkomulag á hjúkrunarheimilum er ákvarðað af stjórnvöldum einum og hjúkrunarheimilin hafa ekkert um málið að segja. Tryggingastofnun reiknar greiðsluþátttöku hvers og eins út frá skattframtali viðkomandi, fjárhagslegum eigum og fleiri atriðum sem hjúkrunarheimilin hafa enga vitneskju um. Að loknum útreikningi fá hjúkrunarheimilin greidda upphæð sem ekki svarar til raunkostnaðar og hefur ekki gert um árabil. Frádregin er svo sú upphæð sem viðkomandi einstaklingur á að greiða til heimilisins. Því þurfa hjúkrunarheimilin að innheimta hjá heimilisfólki það sem upp á vantar og það er staða sem við erum mjög mótfallin.

Jaðrar við mannréttindabrot
Að mínu mati mati jaðrar núverandi kerfi við mannréttindabrot. Líkt og Landssamband eldri borgara hefur ályktað um, höfum við á Hrafnistuheimilunum hvatt stjórnvöld til að breyta fyrirkomulaginu til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Sem framlag til þeirrar nauðsynlegu undirbúningsvinnu sem þarf að eiga sér stað sendi Hrafnista erindi til velferðarráðuneytisins á síðasta ári þar sem ráðuneytið var hvatt til dáða í þessum efnum. Hrafnista bauð ráðuneytinu jafnframt fulltrúa í vinnuhóp til þess að vinna að málinu og að nýtt kerfi yrði prufukeyrt á einu til tveimur Hrafnistuheimilum í tilraunarskyni.

Í stuttu máli felst hugmynd um nýtt fyrirkomulag í því að hver íbúi hjúkrunarheimilis haldi fjárhagslegu sjálfstæði, ólíkt því sem er í dag. Viðkomandi greiddi þá fyrir fæði, húsnæði, þvott og þrif, allt eftir því hvaða þjónustu viðkomandi kysi að notfæra sér. Þá myndi viðkomandi jafnframt greiða húsaleigu í samræmi við fermetrafjölda og gæði húsnæðisins. Önnur þjónusta væri valfrjáls. Kostnaður vegna umönnunar, þjónustu læknis- og hjúkrunar yrði greiddur af stjórnvöldum. Fulltrúi velferðarráðuneytisins kynnti þessa hugmynd á félagsfundi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu fyrir nokkrum árum. Þar var henni vel tekið og hvatt til þess að hugmyndinni yrði hrint í framkvæmd. Boltinn er því hjá velferðarráðuneytinu sem vonandi kemst í þetta mikilvæga mál sem allra fyrst.

Þess má geta hér í lokin að á síðasta ári var gerð könnun meðal 600 íbúa á Hrafnistuheimilunum sem sýndi að 42% þátttakenda greiddu ekkert fyrir búsetu á Hrafnistu. Um 21% greiddi innan við 49 þúsund krónur á mánuði. Samtals greiða því rúmlega 60% íbúa á Hrafnistu lítið eða ekkert fyrir dvölina. Rétt er að taka fram að þessar upphæðir eru ekki viðbót við framlag ríkisins til starfseminnar heldur skerðir ríkið framlag sitt sem þessu nemur.

Lifið heil!

Lifið heil!

Olafur-Sam13

Ólafur Helgi Samúelsson
lyf- og öldrunarlæknir flæðisviði Landspítala

Í þessu tölublaði Læknablaðsins er birt ágæt rannsókn Kristófers A. Magnússonar og félaga á afdrifum sjúklinga, 60 ára og eldri, sem gengust undir skurðaðgerð eftir mjaðmarbrot á Landspítala árið 2011. Athugaðar voru afturskyggnt eftirfarandi breytur: Biðtími eftir aðgerð, tegund brota og aðgerðar og afdrif sjúklinga. Athygli vekur hversu hátt dánarhlutfall í hópnum var ári eftir aðgerð, eða 27%. Þetta er áttfalt hærra en meðaltal dánartíðni einstaklinga yfir 60 ára aldri á Íslandi og í efri mörkum miðað við erlendar rannsóknir. Marktækt færri gátu búið á eigin heimili eftir brot en fyrir. Aldur sjúklinga, biðtími eftir aðgerð, áhættustigun samkvæmt ASA-flokkun og það hvort sjúklingur var á hjúkrunarheimili fyrir brot, reyndust spáþættir fyrir dauða eftir 12 mánuði. Athyglisvert er að aðeins 37% gátu útskrifast heim í beinu framhaldi af spítalalegunni og er það lægra hlutfall en í tilvitnuðum erlendum rannsóknum.1 Niðurstöður rannsóknarinnar ríma annars vel við erlendar rannsóknir og undirstrika það hversu viðkvæman hóp hér er um að ræða. Í rannsókninni var ekki gerð frekari greining á ástæðum dauða eða færniskerðingar en það gæti verið verðugt rannsóknarefni á þessum hópi sjúklinga, sem telur að jafnaði um 200-300 manns árlega á Landspítala.

Aldraðir eru engan veginn einsleitur hópur með tilliti til heilsufars en fjölgun hinna elstu veldur því óhjákvæmilega að fleiri einstaklingar glíma við fjölvanda og hrumleika. Mjaðmarbrot er heilsufarsáfall sem nær eingöngu tilheyrir eldri aldurshópunum og frekar konum en körlum. Áætlað er að árlega mjaðmarbrotni um 20 af hverjum 10.000 körlum og um 60 af hverjum 10.000 konum eldri en 55 ára. Meðalaldur þessara sjúklinga er yfir 80 ár og flestir brotna við lágorkuáverka.

Stór hluti eldri mjaðmarbrotssjúklinga eru hrumir með marga samverkandi sjúkdóma og margir verða fyrir varanlegri færniskerðingu í kjölfar brots. Mjaðmarbrot eru iðulega meiriháttar áfall, bæði fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Meðal alvarlegra afleiðinga má telja dauðsföll, óráð, þunglyndi, verki, hræðslu við að detta, félagslega einangrun, margþætta færniskerðingu og auknar líkur á því að þurfa að flytjast á stofnun. Horfur, bæði til skemmri og lengri tíma, eru slæmar. Dánartíðni 12 mánuðum eftir brot í þessum hópi er 18-30% samkvæmt rannsóknum. Reikna má með að um 40% sjúklinga nái ekki fyrri hreyfifærni og um fimmtungur er kominn á stofnun ári eftir brot.2,3

Skurðaðgerð sem fyrst eftir brot er algjör forsenda þess að möguleiki sé á bata en styðja má það rökum að mjaðmarbrot sé ekki síður öldrunarsjúkdómur en viðfangsefni bæklunarlækna. Heildræn öldrunarlæknisfræðileg nálgun og teymisvinna er valkostur við hefðbundna sjúkrahúsmeðferð þessara sjúklinga fyrir og eftir aðgerð og víða eru reknar deildir í samstarfi bæklunarlækna og öldrunarlækna með þetta í huga. Á Norðurlöndunum eru starfræktar slíkar „orthogeriatriskar“ deildir þar sem sýnt hefur verið fram á betri árangur en við hefðbundna starfsemi allt að ári eftir aðgerð, meðal annars varðandi hreyfigetu, vitræna getu og lífsgæði. Kostnaðargreining bendir einnig til lægri heildarkostnaðar en við hefðbundna nálgun.4 Erfiðlega hefur gengið að sýna fram á lægri dánartíðni sem enn undirstrikar hversu viðkvæmur þessi hópur er og margir sjúklinga nærri lokum lífs.

Forvarnir til að draga úr nýgengi mjaðmarbrota eru lýðheilsuverkefni og mikil-vægt er að stuðla að góðri beinheilsu alla ævi með hollu mataræði, hreyfingu, nægu D-vítamíni, reykleysi og, sérstaklega á efri árum, byltuvörnum og viðeigandi beinþéttnimeðferð. Reglubundin hreyfing, næring, heilsufarseftirlit og regluleg endurskoðun lyfjalista með ástand og horfur einstaklingsins í huga eru mikilvægir þættir byltuvarna hjá öldruðum.

Núlifandi kynslóðir mannkyns njóta þeirrar blessunar að líkur á að ná háum aldri eru meiri en nokkru sinni í sögunni. Íslendingar búa við einhverjar lengstu lífslíkur sem þekkjast í heiminum. Við erum enn ung miðað við nágrannaþjóðir okkar og 65 ára og eldri eru tæplega 13% þjóðarinnar um þessar mundir. Þessi hlutföll breytast þó hratt. Samkvæmt spám Hagstofu Íslands gætu 65 ára og eldri Íslendingar orðið nær 100.000 talsins og tæpur fjórðungur þjóðarinnar árið 2050.

Tækifæri til að nýta betur mannauð, reynslu og sköpunarkraft eldri kynslóða blasa við og mikilvægt er að samfélög búi sig undir þessar breytingar. Það er einnig áskorun að aðlaga heilbrigðisþjónustu að þörfum fjölveikra og hrumra einstaklinga þannig að sómi sé að og afdrif sjúklinga með mjaðmarbrot geta verið einn mælikvarði á hvernig til tekst. Fyrir áhugasama um stefnumótun samfélaga til framtíðar mætti benda á nýútkomna skýrslu Alþjóða- heilbrigðisstofnunarinnar WHO: Ageing and Health (who.int/ageing/publications/world-report-2015/en/ ). Lifið heil!

Heimildir

1. Magnússon KA. Meðferð og afdrif sjúklinga með mjaðmarbrot. Læknablaðið 2016; 102: 119-24.
[CrossRef]
2. Bentler SE, Liu L, Obrizan M, Cook EA, Wright KB, Geweke JF, et al. The aftermath of hip fracture: discharge placement, functional status change, and mortality. Am J Epidemiol 2009; 170: 1290-9.
[CrossRef]

[PubMed]

[PMC]

3. Nikitovic M, Wodchis WP, Krahn MD, Cadarette SM. Direct health-care costs attributed to hip fractures among seniors: a matched cohort study. Osteoporos Int 2013; 24: 659-69.
[CrossRef] PMid:22736067 PMCid:PMC3557373
4. Prestmo A, Hagen G, Sletvold O, Helbostad JL, Thingstad P, Taraldsen K, et al.,Comprehensive geriatric care for patients with hip fracture: a prospective, randomised controlled trial. Lancet 2015; 385: 1623-33.
[CrossRef]

Mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs.

Mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs

þorsteinn Sæmundsson

Þorsteinn Sæmundsson

„Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli,“ segir Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokks í grein í Fréttablaðinu í dag.  Hann segir mikilvægt að auka möguleika þeirra sem eldri eru til að viðahalda og efla vinnufærni sína svo vinnumarkaðurinn geti notið þekkingar og færni sem þessi aldurshópur býr yfir.

„Þar má meðal annars nefna möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri starfsævinnar eða seinni stigum hennar. Einnig er mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar,“ segir Þorsteinn.  Hann segir jafnframt að til standi að félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði í vor.

„Í frumvarpinu felst að fyrirtæki og stofnanir megi ekki mismuna fólki, meðal annars á grundvelli aldurs. Samþykkt slíks frumvarps er mikilvægt skref í að styðja enn betur við eldra fólk á vinnumarkaði og mun ég glaður greiða atkvæði mitt með því,“ segir Þorsteinn ennfremur.  Grein Þorsteins er hægt að lesa í heild hér.

Eldra fólki á vinnumarkaði fjölgar.

Eldra fólki á vinnumarkaði fjölgar

 

SKOÐUN

07:00 08. MARS 2016

Þorseinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorseinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
ÞORSTEINN SÆMUNDSSON SKRIFAR

Það er ánægjulegt að sjá að sífellt hærra hlutfall eldra fólks starfar á íslenskum vinnumarkaði. Mikilvægt er að hæfileika þeirra sem eldri eru njóti við þegar yngri kynslóðir eru að koma nýjar inn á vinnumarkaðinn. Í Félagsvísum 2015, sem gefnir eru út af velferðarráðuneytinu, kemur fram að atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 55-74 ára var 67,2% árið 2014 en tíu árum áður var hlutfallið 63,3%.

Bætt starfsumhverfi
Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar, sem og annars staðar á Vesturlöndum, er að breytast og hlutfall þeirra sem eldri eru eykst smám saman. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar er til að mynda gert ráð fyrir því að hlutfall Íslendinga 60 ára og eldri verði komið yfir 30% árið 2060. Á sama tíma erum við heilsuhraustari og ævilíkur að lengjast, sem leiðir af sér aukinn vilja og getu til virkrar þátttöku í atvinnulífinu hjá þeim sem eldri eru. Hér á Íslandi er stærstur hluti vinnumarkaðarins blessunarlega meðvitaður um mikilvægi þess að tryggja starfsfólki sínu starfsumhverfi sem stuðlar að betri líðan og heilsu. Gott og vandað starfsumhverfi skilar sér í betri anda á vinnustaðnum og ánægðara starfsfólki, sem skilar sér í auknum afköstum.

Jöfn meðferð á vinnumarkaði
Það er ljóst að við erum á réttri leið. Mikilvægt er að auka möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína svo að vinnumarkaðurinn geti notið þeirrar miklu þekkingar og færni sem þessi aldurshópur býr yfir, sem lengst. Þar má meðal annars nefna möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri starfsævinnar eða seinni stigum hennar. Einnig er mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar. Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.

Til stendur að félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði nú í vor. Í frumvarpinu felst að fyrirtæki og stofnanir megi ekki mismuna fólki, meðal annars á grundvelli aldurs. Samþykkt slíks frumvarps er mikilvægt skref í að styðja enn betur við eldra fólk á vinnumarkaði og mun ég glaður greiða atkvæði mitt með því.
KVÓT: Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.

Réttarbót fyrir lífeyrisþega

Réttarbót fyrir lífeyrisþega

Verði tillögur starfshópsins að veruleika gæti hagur eldra fólks vænkast.

Verði tillögur starfshópsins að veruleika gæti hagur eldra fólks vænkast.

Starfshópur um endurskoðun almannatryggingakerfisins skilaði nýlega af sér skýrslu. Helstu tillögur starfshópsins eru þessar:

Einföldun bótakerfisins
Bætur almannatryggingakerfisins verði einfaldaðar m.a. með því að taka upp einn lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Markmiðið er að einfalda bótakerfið og festa í sessi þá lágmarksupphæð sem framfærsluuppbót tryggir þeim tekjulægstu í núverandi kerfi. Nefndin leggur til að hækkanir á fjárhæðum bóta almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna. Útreikningar sýna að tillögurnar munu færa allflestum lífeyrisþegum mikla réttarbót.

Hækkun lífeyrisaldurs
Lífeyrisaldur hækki í skrefum, frá 67 ára aldri til 70 ára aldurs. Miðað er við að tveir mánuðir bætist við lífeyristökualdurinn árlega á næstu tólf árum. Eftir það bætist við einn mánuður á ári í næstu tólf ár, þar til 70 ára viðmiðinu hefur verið náð eftir 24 ár frá gildistöku breytinganna.

Sveigjanleg starfslok og starfslokaaldur
Heimilt verði að fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs. Einnig verði heimilt að flýta töku lífeyris en hún geti þó ekki hafist fyrr en við 65 ára aldur. Miðað er við að frestun lífeyris veiti rétt til varanlega hærri lífeyris frá almannatryggingum en ef lífeyristöku er flýtt lækki lífeyririnn.

Afnám víxlverkana í samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða
Lífeyrissjóðir hætti að skerða greiðslur til öryrkja vegna tekna þeirra frá almannatryggingum, samhliða innleiðingu starfsgetumats og sameiningu þriggja bótaflokka. Forsenda þessa er að framlag ríkisins til að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða verði endurskoðað.

Starfsgetumat og endurhæfing
Tekið verði upp starfsgetumat í stað núgildandi læknisfræðilegs mats á örorku. Matskerfið miðist við tvö þrep, þ.e. verulega skerta starfsgetu í fyrsta þrepi (26 – 50%) og lítil sem engin starfsgeta í öðru þrepi (0 – 25%). Samhliða verði teknar upp hlutabætur úr almannatryggingum.

Bókun Landssambands eldri borgara

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

Með skýrslunni fylgir eftirfarandi bókun frá Landssambandi eldri borgara sem Jóna Valgerður Kristjánsdóttir fulltrúi í starfshópnum  og Haukur Ingibergsson formaður LEB stóðu að. „Landssamband eldri borgara tekur heilshugar undir það markmið endurskoðunarinnar að fækka bótaflokkum, einfalda kerfi almannatrygginga og gera það skiljanlegra  fyrir notendur.  Með þessum tillögum er verið að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbót í einn flokk ellilífeyris. Með því er framfærsluuppbótin sem er félagslegur stuðningur færð í flokk ellilífeyris. Þarna hafa verið afar mismunandi skerðingarákvæði m.a. 100% skerðing á framfærsluuppbót gagnvart öllum öðrum tekjum. Lagt er til að skerðing á hinum nýja ellilífeyri verði 45%  vegna annarra tekna og engin  frítekjumörk.

Vildu lægri skerðingarprósentu

Landsamband eldri borgara hefði viljað sjá lægri skerðingarprósentu en 45% og lagði fram tillögu um það. Í henni er  vitnað til þess að í nágrannlöndum okkar er skerðing vegna annarra tekna ýmist engin samanber atvinnutekjur lífeyrisþega  hjá Norðmönnum, eða 30% eftir frítekjumarki atvinnutekna, eins og hjá Dönum. Við leggjum til að með batnandi efnahag landsins verði unnið að því að lækka skerðingarákvæði á lífeyrisgreiðslum í áföngum á næstu árum. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir að hækka lífeyristökualdur í 70 ár á 24 árum og það höfum við samþykkt.  Jafnframt að starfsaldur og lífeyristaka verði sveigjanlegri, m.a. að hægt verði að taka 50% lífeyri og stunda 50% vinnu.  Þá taki hinn geymdi lífeyrir hækkun mánaðarlega samkvæmt tryggingafræðilegu mati, allt að 80 ára aldri lífeyrisþegans. Einnig hefur því verið beint til samtaka opinberra starfsmanna og stjórnvalda að hækka starfsaldur opinberra starfsmanna  í 75 ár.

Starfsgetumat í stað örorkumats

Haukur Ingibergsson

Haukur Ingibergsson

LEB lýsir sig fylgjandi því að tekið sé upp starfsgetumat í stað örorkumats.  Útfærsla á því verði unnin í nánu samráði við ÖBÍ og taki gildi í áföngum. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að það geti tekið um 15 ár að innleiða það að fullu. Í þeim útreikningum sem starfshópurinn hefur fengið bæði frá fulltrúa Tryggingarstofnunar og  Talnakönnunar munu þær breytingar að sameina bótaflokka og hafa 45% skerðingarhlutfall fyrir allar tekjur aðrar, leiða til hækkunar fyrir lífeyrisþega, nema þá sem hafa atvinnutekjur. Því leggjum við til að áfram verði í gildi frítekjumark hvað varðar þær tekjur. Með þessum breytingum sem lagðar eru til er verið að skapa hvata til meiri þátttöku lífeyrisþega á vinnumarkaði, bæði öryrkja og eldri borgara ef heilsa og geta leyfir og sá hvati verður þá að vera fyrir hendi hvað varðar atvinnutekjur. Þá leggjum við til að endurskoðunarákvæði verði  um þær breytingar sem gerðar verða á lögum um almannatryggingar í framhaldi af  skýrslu starfshópsins. Sú endurskoðun færi fram eftir 3-5 ár.“

 

Hér er hægt að lesa skýrsluna í heild

Litabækur til að þjálfa fínhreyfingar

litabok

Litabækur til að þjálfa fínhreyfingar

Litabækur hafa verið vinsælar síðustu misserin og eru til margra hluta nytsamlegar. Lifðu núna var bent á að það væri upplagt að lita, til að þjálfa fínhreyfingar sem eru farnar að stirðna. Rósa Hauksdóttir sem veitir forstöðu Iðjuþjálfuninni á Landakoti var spurð álits á þessu. Hún sagði að það væri almennt þannig, að það sem væri ekki notað, því færi aftur. Það að nota hugann og hendurnar héldi lengur við færni fólks, miðað við það að menn settust niður með hendur í skauti.

Ákveðin þjálfun að spila bingó

Hún sagði að það væru til alls kyns þrautir til að þjálfa hugann, en litabækur væru ekki notaðar í iðjuþjálfuninni á Landakoti. Það kæmi þó fyrir að menn kæmu þangað með eigin litabækur til að æfa sig í að lita. Hún sagði að það væru til myndir af stjórnstöðvum heilans og þar kæmi fram hversu stórar stöðvarnar væru, sem stjórnuðu ákveðnum þáttum líkamsstarfseminnar. Stöðin sem stjórnarði fínhreyfingum handanna, næmi og munni væru miklu stærri en margar aðrar.

Líka róandi að lita

Rósa sagði að það væru ekki eingöngu fínhreyfingarnar sem menn þjálfuðu með því að lita. „ Það þarf að velja litina, spá í mynstrin og litasamsetningarnar. Þetta eru svo margir litlir fletir að það þarf að skipuleggja vel hvernig á að gera þetta. Það er líka sagt að það sé svo róandi að lita. Menn einbeita sér að því að lita vel og eru þá ekki að hugsa um fjármálin, börnin eða barnabörnin á meðan“. Þannig segir Rósa að það sé ákveðin heilaþjálfun í því fólgin að lita.

Eignaupptaka” hjá eldri borgurum á hjúkrunarheimilum!

Eignaupptaka” hjá eldri borgurum á hjúkrunarheimilum!

 

Þegar eldri  borgari fer á hjúkrunarheimili gerir Tryggingastofnun ríkisins lífeyri hans “upptækan” til greiðslu kostnaðar við dvölina á hjúkrunarheimilinu.Þetta er líkast eignaupptöku.Þeir,sem hafa meira en rúmar 74 þúsund í tekjur, mega sæta því,að það sem umfram er sé af þeim tekið fyrir dvalarkostnaði þar til náð er markinu tæpar 355 þúsund krónur.Þar stöðvast “eignaupptakan”.Síðan er eldri borgurunum skammtaðir vasapeningar,53 þúsund krónur að hámarki  en þessi greiðsla er tekjutengd.

Eldri borgararnir,sem fara á hjúkrunarheimili, eru ekki spurðir að því hvort þeir samþykki að lífeyrir þeirra sé tekinn af þeim í framangreindum tilgangi. Nei,þeim er einfaldlega tilkynnt þetta.Á hinum Norðurlöndunum er annar háttur hafður á. Þar fá eldri borgararnir lífeyrinn í sínar hendur en síðan greiða þeir sjálfir eða aðstandendur kostnaðinn við dvölina á hjúkrunarheimilinu.

Það er mat lögfræðinga,að það sé mannréttindabrot að rífa lífeyrinn af eldri borgurum á þennan hátt.

Við ættum að hafa sama hátt á þessu og á hinum Norðurlöndunum.Við þurfum að breyta þessu strax það er niðurlægjandi fyrir eldri borgara að þurfa að sæta því fyrirkomulagi,sem nú er viðhaft.

Björgvin Guðmundsson

Biðlistar hjá borginni lengjast enn.

Biðlistar hjá borginni lengjast enn.

Reykjavíkurborg í fjárhagsvanda sínum með A-hluta borgarsjóðs virðist eiga í verulegum vandræðum við að veita lögbundna stuðningsþjónustu til þeirra sem sérstaklega þurfa á henni að halda. Um mjög mikilvæga þjónustu er að ræða en markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir félagslega einangrun og bæta samskiptahæfni og hefur þjónustan mikið forvarnargildi.
Í lok síðastliðins sumars voru 498 á biðlista eftir stuðningsþjónustu í Reykjavík og var ástæðan skortur á fjármagni og einnig reyndist erfitt að ráða í stöðurnar. Í lok síðasta árs voru 603 á þessum sama biðlista eftir stuðningsþjónustu Hér er um að ræða þjónustuþætti eins og ráðgjöf, tilsjón,  stuðningsfjölskyldur og liðveislu svo fátt eitt sé nefnt.
Í minnisblaði velferðarsviðs frá því í sumar segir: „Það er samdóma álit þeirra sem starfa við stuðningsþjónustu að þeir sem ekki fá þjónustu í samræmi við þarfir geti frekar þróað með sér auknar þjónustuþarfir eða vandamál síðar.“ Að sögn heimildarmanns Veggsins er ljóst að erfið fjárhagsstaða borgarinnar er farin að hafa umtalsverð áhrif á þjónustu borgarinnar til þeirra sem minna mega sín. 
1 2 3 4 5 8