Vorferð Korpúlfa 2017 til Hornafjarðar og Stöðvarfjarðar

Við leggjum af stað frá Borgum kl. 9:00. Þegar við komum út á Suðurlandsveg lendum við á Leitahrauni sem varð til í stórgosi fyrir um 5200 árum úr gíg á Bláfjallasvæðinu sem kallast Leitin. Leitahraun er samnefni hrauna sem ganga undir öðrum nöfnum eins og Hólmsárhraun og Elliðaárhraun austan Reykjavíkur. Hraunið  rann einnig í austurveg allt til Ölfusárósa. Þegar glóandi hraunið rann út í Elliðavatn og yfir það, sem var þá töluvert stærra en það er núna, urðu miklar sprengingar og gufugos. Í þessum hamförum mynduðust Rauðhólar. Hólarnir eru svokallaðir gervigígar sem myndast við gufugos og eru því ekki raunverulegir eldgígar. Upphaflega voru þeir 80 talsins, en hefur fækkað síðustu áratugi sökum efnistöku. Mestur hluti efnisins var nýttur í Reykjavíkurflugvöll á tímum heimstyrjaldarinnar síðari. Rauðhólar hafa verið friðlýstir frá árinu 1961 og fólkvangur frá árinu 1974

               

 Síðan varð allt með kyrrum kjörum næstu 4200 árin þar til jarðeldur kom upp árið 1000 í miðju hrauninu milli Lambafells og Bláfjalla úr tveimur eldstöðvum sem kallast Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Þegar við komum að Litlu Kaffistofunni sjáum við mjög úfið hraun með þykkum grámosa, svonefndan Svínahraunsbruna.                   

Þetta mun vera Kristnitökuhraunið sem kom við sögu þegar kristni var lögtekin á Þingvöllum árið 1000. Þá kom maður hlaupandi og sagði að jarðeldur væri upp kominn í Ölfusi og myndi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.

Þá tóku heiðnir menn tilorðs:

Eigi er undur í að goðin reiðist tölum slíkum.”

 Þá mælti Snorri goði: 

 „Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á ?

Hellisheiði er heiði sunnan Henglafjalla, sem markast af Hurðarás frá Núpafjalli, Hengladalaá í austri, en Litla- og Stóra-Skarðsmýrarfjalli í norðri. Í vestur nær hún að Reykjafelli og Lakahnúkum og í suður frá Hverahlíð að Hlíðarhorni og um Hurðarásvötn að Hurðarási. Kambar taka við þar sem hallar niður í Ölfus að austanverðu. Heiðin er víðast eldbrunnin og hraunin eru að mestu vaxin mosa og lyngi. Yngsta hraunið er talið hafa runnið frá 6 km langri sprungu árið 1000.

 

 Kambabrún. Í bakgrunni blasa við Reykjafjall, Hveragerði og Ingólfsfjall.

Þegar við komum að Kambabrún blasir við sjálft Suðurlandsundirlendið, mesta láglendissvæði Íslands. Megnið af þessu svæði var undir sjávarmáli við lok síðasta ísaldar skeiðs. Víða sjást þess ummerki í formi sjávarhamra og malarkamba

 

Á Suðurlandi er að finna stærsta hraun á Íslandi, Þjórsárhraun hið mikla. Það er stærsta hraun sem vitað er um að komið hafi upp í einu gosi á jörðinni frá lokum síðasta Ísaldarskeiðs. Hraunið myndaðist í gosi í Vatnaöldum á Veiðivatnasvæðinu fyrir 8700 árum. Þjórsá og Hvítá/Ölfusá streyma niður með jöðrum hraunsins að austan og vestan. Þjórsárhraunið myndar ströndina frá Þjórsárósi og vestur fyrir Ölfusárós. Sjór virðist hafa staðið 15 m lægra er hraunið rann en hann gerir nú. Við hækkandi sjávarborð hefur sjórinn flætt inn yfir hraunjaðarinn sem nú er neðansjávar mörg hundruð metra úti fyrir ströndinni. Hraunið er víðast hulið þykku jarðvegslagi, en sést þó á nokkrum stöðum, t.d. í Stokkseyrarfjöru og við Urriðafoss.

 

Akvegur var fyrst gerður um heiðina um aldamótin 1900 og lá vegurinn þá niður af heiðinni austanmegin niður Kambana í ótal beygjum og hlykkjum. Vegurinn var lagaður til á fjórða áratugnum og hélst í því vegstæði þar til ákveðið var að fara í að gera fullkominn malbikaðan veg yfir heiðina, sem lagður var á árunum 1970-1972. Vegurinn var þá byggður upp með klifurreinum í brekkum sem þóttu nýstárlegar á Íslandi á þeim árum. Á árunum 2013-2015 var vegurinn um heiðina breikkaður í 2+1 veg og aukaakrein bætt við veginn í Kömbunum á leið niður.

 

Hveragerði er kaupstaður í vestanverðri Árnessýslu, staðsett undir Kömbum, rétt austan Hellisheiðar. Þéttbýlismyndun byrjaði með stofnun Mjólkurbús Ölfusinga sem hóf starfsemi 1930, en Hveragerðishreppur var stofnaður út úr Ölfushreppi árið 1946 og fékk kaupstaðarréttindi árið 1987. Íbúar voru 2495 1. janúar 2016. Atvinnuvegir eru ylrækt, verslun og þjónusta. Hverasvæði er í miðjum bænum og í jarðskjálftanum 2008 opnaðist nýtt hverasvæði fyrir ofan bæinn. Kögunarhóll”

 

 

Kögunarhóll er stök hólstrýta úr móbergi undir Ingólfsfjalli, stundum nefndur Knarrarhóll. Þjóðsaga hermir að Kögunarhóll sé haugur sem Ingólfur Arnarson hafi orpið yfir skip það er hann sigldi á hingað til lands. Nafnið Kögunarhóll mun merkja útsýnishóll. Hvítu krossarnir eru til minningar um þá sem látist hafa í umferðarslysum á leiðinni milli Reykjavíkur og Selfoss.

 

 

Selfoss           

Selfoss er kaupstaður við Ölfusárbrú, stærsti þéttbýlisstaður á Suðurlandi. Selfoss er landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar og var ein af mestu laxveiðijörðum landsins. Árið 1890 var byggð hengibrú yfir Ölfusá fyrir forgöngu Tryggva Gunnarssonar. Var hún mesta mannvirki sem Íslendingar höfðu ráðist í. Tryggvi reisti þá skála fyrir brúarsmiðina sem síðar var við hann kenndur, Tryggvaskáli. Hengibrúin brast 1944 og var þá ný brú byggð 1945. Árið 1900 voru íbúar á Selfossi 40, en 1. janúar 2016 voru þeir orðnir 6934 

Á kirkjustaðnum Laugardælum í grennd við Selfoss var skákmeistarinn Bobby Fischer (1943 – 2008) lagstur til hinstu hvílu.

Þjórsá er lengsta á Íslands, alls 230 km löng. Hún er jökulá að uppruna sem á meginupptök sín í Hofsjökli og rennur í suður til sjávar vestan Þykkvabæjar. Í hana falla fjölmargar dragár og lindár. Þjórsá er sýslumörk Rangárvallasýslu og Árnessýslu og er sóttvarnarlína hvað varðar búfjárveikivarnir.

 

Hella. Í bakgrunninum má greina Búrfell, Heklu, Vatnafjöll og  Tindfjallajökul.

Hella er kauptún á Eystri bakka Ytri-Rangár við Rangárbrú. Þar var áður bærinn Gaddstaðir. Hella er höfuðstaður og þjónustukjarni Rangárþings ytra sem varð til árið 2002 við sameiningu Rangárvallahrepps, Djúpárhrepps, Holtasveitar og Landsveitar. Íbúar  í sveitarfélaginu voru 1526 1. janúar 2016, þar af 814 á Hellu. Á Gaddstaðaflötum suður af þorpinu er kappreiðavöllur, vettvangur stórmóta hestamanna.

Í Rangárþingi eystra búa um 1750 manns og nær sveitarfélagið frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað en jafnframt er ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein og þar er að finna einstakar náttúruperlur, fallegar gönguleiðir og þekkta sögustaði. Áfangastaði eins og Seljalandsfoss, Skógafoss, Þórsmörk og Eyjafjallajökul má finna í sveitarfélaginu.     

Hvolsvöllur. Í bakgrunni má greina Heklu, Vatnsdalsfjall, Þríhyrning og Tindfjallajökul.

 

Hvolsvöllur er þéttbýlis- og þjónustukjarni sveitarfélagsins og þar búa um 900 manns. Helstu atvinnuvegir eru þjónusta fyrir landbúnað, almenn þjónusta fyrir íbúa, ferðaþjónusta og einnig má nefna að á Hvolsvelli rekur Sláturfélag Suðurlands stærstu kjötvinnslu landsins. Hvolsvöllur hefur það sérkenni að vera eina þéttbýlið á Íslandi sem ekki hefur verið byggt upp við sjó eða árfarveg heldur er þéttbýlið algjörlega byggt upp sem miðstöð fyrir þjónustu. Hvolsvöllur er aðeins 100 km. frá Reykjavík og því tilvalin staðsetning til að ferðast út frá um Suðurlandið og Suð-Austurland. Eftir góðar dagsferðir er hægt að finna góða gisti- og afþreyingamöguleika á Hvolsvelli og í öllu sveitarfélaginu. Aðeins 20 km. frá Hvolsvelli er svo Landeyjahöfn þaðan sem Herjólfur siglir til Vestmannaeyja stóran hluta úr árinu.                                   

Á Hvolsvelli finnur þú til dæmis Sögusetrið sem að mestum hluta er tileinkað Brennu-Njálssögu og er það við hæfi þar sem sögusvið þessarar þekktu Íslendingasögu er að mestu leyti í Rangárþingi eystra. Í Sögusetrinu getur þú skoðað sýningu um Njálu, Gallerý Orm, Kaupfélagssafn og nýjasta hluta setursins sem er Refilstofan. Í Refilstofunni er verið að sauma Brennu-Njálssögu í 90 m. langan refil og geta allir sem viljað tekið þátt í verkefninu.                             

Á Hvolsvelli er hægt að finna gróið svæði í miðbænum, þar sem hægt er að hvíla lúin bein, leyfa börnunum að skoða leiktækin og jafnvel fara í nestisferð. Þar má líka finna sýningu á sumrin þar sem áhugaljósmyndarar í sveitarfélaginu sýna verk sín. 

Mýrdalsjökull er fjórði stærsti jökull Íslands og þekur hann um 590 km² svæði. Undir jöklinum hvílir eldfjallið Katla en hún hefur gosið reglulega frá landnámi og brætt mikinn ís af jöklinum, svo að flóð geysist niður á láglendið. Hæsti tindur Mýrdalsjökuls er 1.480 m.y.s. Úr Mýrdalsjökli falla tvær stórar jökulár, Jökulsá á Sólheimasandi í vestri og Múlakvísl í austri. Sólheimajökull skríður niður úr Mýrdalsjökli suðvestanverðum. Árið 1952 fórst á Mýrdalsjökli Neptúnvél frá bandaríska hernum og með henni níu menn.               

                           Mýrdalsjökul

  

Vísindamenn telja meiri líkur en vanalega á að gjósi í Kötlu. Það eru þrjár leiðir sem hlaup úr Kötlu geta farið. Langlíklegast er að hlaupið fari niður Mýrdalssand. Það getur líka farið niður Jökulsá á Sólheimalandi og jafnvel niður Markarfljót, en það gerðist fyrir 1200 árum. Viðbragðstíminn að þjóðvegi 1 er mislangur eftir því hvaða leið hlaupið fer.                                                           

Á Mýrdalssandi má búast við að hann sé 2½ klukkustund.

Á Sólheimasandi má búast við að hann sé innan við 1 klukkustund. Á Markarfljóti má búast við að hann sé 4 til 5 klukkustundir.

                                                       

 

 

 

 

 

Seljalandsfoss séður að framan og aftan

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Seljalandsfoss er 62 m hár í Seljadalsá í Rangárþingi eystra. Það er tiltölulega auðvelt er að ganga allan hringinn í kringum hann, en gæta skal þó þess að það er oftast sleipt að fara á bak við hann.  Framan af janúarmánuði 1967 lá nokkur snjór á láglendi undir Eyjafjöllum og í Fljótshlíð og því meiri sem ofar kom frá fjallsrótum. Þykkur klaki var í jörðu, en svellalög á mýrum og einnig á Markarfljótsaurum, þar sem fljótið rann aðkreppt milli skara. Þá gerði asahláku sem náði hámarki 15. janúar. Þann sólarhring nam úrkoman 101 mm í Skógum og lofthiti komst upp í 9°. Vatnavextir urðu með fádæmum og spjöll á vegum og brúm, mest við Jökulsá á Sólheimasandi. Þá brotnaði skarð í brún Seljalandsfoss og breytti fossinum til lýta að flestra dómi. Um hann sagði Jónas Hallgrímsson í Hulduljóðum: „Hann breiðir fram af bergi hvítan skrúða“. En núna rennur hann í mjórri bunu.  

 Eyjafjallajökull er sjötti stærsti jökull Íslands. Undir jöklinum er eldkeila sem hefur gosið fjórum sinnum síðan land byggðist, fyrst árið 920, þá 1612, 1821 og 2010. Öll þessi gos hafa verið frekar lítil. Þegar gaus árið 1821 stóð gosið til ársins 1823. Gos hófst svo á Fimmvörðuhálsi þann 20. mars 2010 austan við Eyjafjallajökul. Þann 14. apríl 2010 hófst gos undir jökulhettunni. Eyjafjallajökull er einn af hæstu tindum Íslands, um 1.666 m hár. Úr jöklinum renna 2 skriðjöklar sem heita Steinsholtsjökull og Gígjökull en þeir skríða báðir til norðurs í átt að Þórsmörk. Hafa þeir á síðustu árum hörfað mikið og er Gígjökull nánast að hverfa.

Eyjafjöll og Eyjafjallajökull

Skógar.  Austustu bæir undir Eyjafjöllum eru Eystri- og Ytri-Skógar. Þar hóf héraðsskóli Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga starfsemi árið 1949. Þar er sundhöll og skólinn er nýttur sem sumarhótel. Sama ár var opnað byggðasafn að Skógum. Frumkvöðull þess og safnvörður er Þórður Tómasson (f. 1921). Hann hefur byggt safnið upp frá grunni og hefur meðal annars fært út kvíarnar með söfnun gamalla húsa sem hafa verið endurreist á lóð safnsins. Kirkjan er nýsmíði, en munir hennar eru gamlir. Þórður hefur ekki látið duga að bjarga gömlum gripum frá glötun, heldur skrifað margar bækur um þjóðleg fræði. Hann varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1996. Safninu hefur vaxið fiskur um hrygg fyrir elju Þórðar og árið 1998 var skrifað undir samning um byggingu samgöngusafns að Skógum sem var opnað 2002. Enginn ætti að láta hjá líða að skoða Skógasafn. Vegalengdin frá Reykjavík er 154 km, frá Hvolsvelli 48 km og til Víkur 33 km.

Samgöngusafnið að Skógum

 

Þann 20. júlí 2002 var opnað nýtt sýningarhús í Skógasafni. Hér birtist þróun samgangna og tækni á Íslandi á 19. og 20. öld. Hlutverk Samgöngusafnsins í Skógum verður söfnun, varðveisla og sýning muna og minja um þróun samgangna í landinu. Um er að ræða safn samgöngutækja og sýningu er lýsir samgöngum á hverjum tíma og þróun þeirra. Þarna getur að líta gömul reiðtygi, fyrstu vélarnar í bílum og mótorbátum, gamla bíla, vegagerðartæki, verkfæri og ferðabúnað frá ýmsum tímum, gömul mótorhjól og margt fleira. Einnig er saga póstþjónustu, rafvæðingar og fjarskipta rakin á sýningunni. Í júní 2008 opnaði Slysavarnafélagið Landsbjörg í samvinnu við Skógasafn nýja sýningu í


Samgöngusafninu sem gerir áttatíu ára sögu björgunarsveitanna í landinu skil með tækjum, textum, myndum og ýmsum búnaði í um 170 m² rými.

 

                                       Skaftáreldahraun eða Eldhraun

 Skaftáreldahraun eða Eldhraun er hraunflóð með hraunflæmi 565 km² sem rann úr Lakagígum 1783 ti 1784. Það er talið hið mesta sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi síðan sögur hófust. Eldgos þetta var kallað Skaftáreldar eða Síðueldar. Eyddust þá 22 bæir. Allmikil gjóska kom upp af hraunflóðinu og barst askan um mikinn hluta landsins og allt til meginlands Evrópu og meira að segja alla leið austur til Asíu. Meira en 9000 manns létust eða um 20% þjóðarinnar. Mikið hefur verið ritað um þetta hraun, bæði af íslenskum og erlendum vísindamönnum.

Jón Steingrímsson fæddist árið 1728 og dó árið 1791. Hann var prestur og hinn 20. júlí söng síra Jón Steingrímsson eldklerkur sína sögulegu eldmessu, en þá hafði gosið staðið i 43 daga samfleytt. Hraunflóðið fram úr Skaftárgljúfri nálgaðist þá Systrastapa.Vafalítið hefur bænaþungi síra Jóns og kirkjugesta vegið þungt, en einnig hefur vatnskæling lónanna sem flæddu inná hraunið hugsanlega átt sinn þátt í að hrauntotan,  Eldmessutangi, stöðvaðist. Þegar 200 ár voru frá eldunum reistu skaftfellingar minningarkapellu síra Jóns á Kirkjubæjarklaustri.

Hraunið rann eftir farvegi Skaftár í austur og stöðvaðist við Eldmessutanga í tveggja kílómetra fjarlægð frá Kirkjubæjarklaustri 20. júlí 1783. Þann dag söng síra Jón Steingrímsson að Kirkjubæjarklaustri eldmessuna sem sagt er að stöðvað hafi eldstrauminn.  Hamfarirnar komu Jóni ekki á óvart. Í ævisögu sinni sagði hann guð hafa bent sér og öðrum á bæði í vöku og svefni að þeir skyldu búa sig undir yfirhangandi og ókomið straff.

Kirkjubæjarklaustur eða Klaustur er sveitaþorp í Skaftárhreppi. Þar voru 136 íbúar 1. janúar 2016. Á Kirkubæjarklaustri var áður nunnuklaustur og síðan stórbýli. 

Kirkjubæjarklaustur hét upphaflega Kirkjubær á Síðu. Bærinn var landnámsjörð og bjó þar Ketill fíflski, sonur Jórunnar mannvitsbrekku, dóttur Ketils flatnefs. Hann var kristinn, en í Landnámu segir að áður hafi þar búið papar og heiðnir menn hafi ekki mátt búa á Kirkjubæ. Ekki er þess getið að Ketill hafi reist sér kirkju, en þó kann svo að vera og hefur það þá líklega verið fyrsta kirkja á Íslandi. Þorlákur helgi dvaldist sex vetur á þessum stað á árunum 1162 – 1168.

Nunnuklaustur af Benediktsreglu var stofnað í Kirkjubæ 1186 og var þar til siðaskipta 1542. Á Sturlungaöld var Ögmundur Helgason staðarhaldari í Kirkjubæ en var gerður héraðsrækur eftir að hann lét taka Sæmund og Guðmund Ormssyni af lífi skammt frá Kirkjubæ 1252.

 Kirkja var á Kirkjubæjarklaustri til 1859 en þá var hún flutt að Prestsbakka. Þekktastur presta þar á síðari öldum er séra Jón Steingrímsson eldklerkur, sem margir trúðu að hefði stöðvað hraunrennslið í farvegi Skaftár við Systrastapa með eldmessu sinni 20. júlí 1783. Hann er grafinn í kirkjugarðinum á Klaustri. Minningarkapella um hann var reist á Kirkjubæjarklaustri og vígð 17. júní 1974

 Kirkjubæjarklaustur er í fögru umhverfi við Skaftá og eru þar margir þekktir ferðamannastaðir á borð við Systrastapa, Systrafoss, Stjórnarfoss og Kirkjugólfið. Þar hafa verið gerðar mannaðar veðurathuganir síðan 1926. Grunnskóli er á Klaustri og þar er læknir, dýralæknir og héraðsbókasafn. Þar er gistihús, sundlaug, veitingasala og allmikil ferðamannaþjónusta.

Kirkjubæjarklaustur

Núpsstaður er austasti bærinn í Skaftárhreppi og stendur vestan við Lómagnúp. Á Núpsstað standa einkar merkileg gömul bæjarhús sem talin eru dæmigerð fyrir bæi á Íslandi á síðustu öldum. Þeirra merkast er bænhúsið sem er ein af örfáum torfkirkjum sem enn eru til á landinu. Talið er að bænhúsið sé að stofninum til úr kirkju sem var byggð um 1650 en kirkja var aflögð á Núpsstað 1765. Árið 1930 var bænhúsið friðlýst fyrst húsa á landinu og 1961 var það endurvígt.

Fegurð umhverfisins við Núpsstað er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt til Vatnajökuls. Núpsstaður liggur alveg við þjóðgarðinn í Skaftafelli og hafa eldgos, jöklar og vötn mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir.

Austurmark jarðarinnar Núpsstaðar er á Skeiðarársandi og nær jörðin allt norður að Vatnajökli. Austan við bæinn gnæfir Lómagnúpur sem m.a. er þekktur úr Brennu-Njáls sögu. Þarna standa uppi íbúðarhús, fjós og önnur útihús. Fyrsta kirkjan á Núpsstað er talin hafa verið byggð fyrir siðaskipti á Íslandi, eða fyrir 1200. Kirkjan var tileinkuð dýrlingnum Sankti Nikulási en það voru fáir sem tilheyrðu söfnuðinum á þessum tíma. Árið 1765 var hins vegar hætt að nota kirkjuna fyrir söfnuðinn og hún í staðinn notuð sem einka kapella. Eftir 1783 var byggingin hins vegar notuð sem skemma. Árið 1930 tók Þjóðminjasafnið húsið í sína vörslu og á árunum 1958-1960 var það tekið í gegn og gert upp. Þess má til gamans geta að bærinn hefur verið í eigu sömu fjölskyldu, mann fram af manni, síðan 1730. Bæjarstæðið er einstaklega vel varðveitt menningarlandslag og er einstök heimild um hvernig búskapi var háttað og hvernig svæðið var nýtt fyrr á dögum. Nú hefur Þjóðminjasafninu verið falin varðveisla bæjarhúsanna á staðnum. Allt land Núpsstaðar er á náttúruminjaskrá.

 

Lómagnúpur er 688 m hátt standberg sem gnæfir yfir suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi. Vestan við hann stendur bærinn Núpsstaður. Stórbrotið umhverfi Núpsstaðar og Lómagnúps er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt til Vatnajökuls. Eldgos, jöklar og vötn hafa mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir.

Seint á 18. öld hljóp bergfylla úr Lómagnúpi vestanverðum og má sjá augljós merki um það við þjóðveginn. Nefnist hún Hlaup og verður því stórgrýttari sem nær dregur fjallinu. Í dagbók Sveins Pálssonar stendur við árið 1793: „Þetta gerðist fyrri hluta dags í júlímánuði með svo skjótri svipan að stúlka ein sem var að bera mjólk af stöðli heim að Núpsstað, heyrði brest, líkan reiðarþrumu, og leit þegar til Gnúpsins, en gat þá í fyrstu ekki greint neitt fyrir reyk. En ekki hafði hún fyrr sett mjólkurföturnar niður, til þess að athuga þetta nánar, en allt var um garð gengið og framhlaupið lá út á sandinum, þar sem það er nú, allt að mílufjórðung frá fjallinu, í smáhaugum með djúpum gjótum á milli eða trektlögðum svelgjum, sem að líkindum hafa skapast við þrýsting samþjappaðs lofts.”   Þessu framhlaupi fylgdi talsvert vatnsflóð og hefur það sennilega sprengt úr fjallinu fyllu þá er fram hljóp. Nýlegri merki sjást í austurhlíðum Lómagnúps en árið 1998 varð þar berghlaup. Líkt og með önnur standberg meðfram suðurströnd Íslands þá náði sjór upp að Lómagnúpi á ísöld. Lómagnúpur er einstaklega tignarlegur og fagur á að líta.

                                            Lómagnúpur

Til gamans má segja frá því að Lómagnúps er getið í Njálssögu í nokkuð sérstöku hlutverki, þar sem hann kemur fyrir í draumi Flosa Þórðarsonar á Svínafelli, en Flosi var upphafsmaður þess að kveikt var í bæ Njáls Bergþórssonar og fjölskyldu hans. Flosa dreymir að hann sé staddur á bæ við Lómagnúp, hann gengur út og lítur til Gnúpsins. Í draumnum opnast fjallið og jötunn klæddur geitarskinni með járnstaf í hönd stígur út úr fjallinu. Hann þylur upp nöfn mannanna 25 sem standa að brennu Njáls, hann ber svo stafnum í jörðina og gengur aftur inn í fjallið. Allir mennirnir sem jötuninn nefnir eru drepnir síðar í sögunni í hefndarskyni fyrir að hafa staðið að því að brenna Njál inni.

Jötuninn í Lómagnúpi prýðir skjaldarmerki Íslands. Hann er einn fjögurra landvætta Íslands og ver suðurströndina fyrir illum öflum.

 

Vötnin byltast að Brunasandi,

bólgnar þar kvikan gljúp;

landið ber sér á breiðum herðum

bjartan og svalan hjúp;

jötunninn stendur með járnstaf í hendi

jafnan við Lómagnúp,

kallar hann mig, og kallar hann þig (…)

kuldaleg rödd og djúp.

 

 

Skeiðarársandur er stærsta sandflæmi Íslands og er hann talinn ná yfir 1000 ferkílómetra svæði eða um eitt prósent landsins. Sandurinn hefur alla tíð verið mikill farartálmi og sveitirnar austan sandsins einangraðar af hans völdum.

    Skeiðarársandur

 

Akvegur yfir Skeiðarársand var vígður árið 1974 og var það seinasti hluti hringvegarins sem opnaður var fyrir umferð. 

                                           

 

 

 

 

 

Við opnun hringvegar á Skeiðarársandi 14. júlí 1974

 

Ferðamönnum sem aka yfir sandinn finnst hann ef til vill grámóskulegur og lítið þar að sjá, en  á bak við harðneskjulrgt útlitið leynist mögnuð saga. Þar hafa átt sér jökulhlaup, skyndiflóð sem brjótast fram úr jökli. Vatn getur safnast fyrir á ýmsa vegu í, á eða undir jöklum. Þegar nógu mikið vatn hefur safnast fyrir þrengir það sér undir ísstífluna og í gegnum opnar rásir á jöklinum þar sem það ryðst fram með miklum látum niður í jökulár. Jökulhlaup geta staðið yfir í nokkrar klukkustundir upp í nokkrar vikur. Íslenska heitið jökulhlaup er alþjóðlegt orð jarðvísindamanna yfir flóð af þessu tagi.

Jökulhlaup geta og hafa valdið miklum skemmdum á mannvirkjum, samanber Skeiðarárhlaupið 1996 sem skemmdi brýr á Skeiðarársandi og rauf þjóðveginn. Skeiðarárhlaupið skolaði burt sandöldum, jarðvegi og gróðri og þakti með framburði stór svæði sem sum höfðu áður verið gróin. Hluti framburðarins er leir sem fýkur hátt í loft upp við minnsta tilefni, berst langa vegu og sést víða. Brúin yfir Gígjukvísl hvarf með öllu og um 200 m af Skeiðarárbrú.

Skeiðarárjökull eru innan þjórðgarðsins í Skaftafelli þar sem náttúran þróast samkvæmt eigin lögmálum. Ekkert í náttúrunni er stöðugt og óbreytanlegt.

Frá degi til dags eru þær breytingar oftast það litlar að við sjáum þær varla og við höfum svo

mikil áhrif á okkar nánasta umhverfi að þróun náttúrunnar verður vart sýnileg. Í hamförum eins og þeim sem hér urðu finnum við vanmátt okkar, náttúran hefur sitt fram hvað sem við gerum, og þó.

 

Skeiðarárbrú er einbreið stálbitabrú á steyptum stöplum sem spannar Skeiðará á Skeiðarársandi. Framkvæmdir hófust í september 1972 og brúin var vígð 14. júlí 1974. Með henni var lokið gerð hringvegar um Ísland sem markvisst hafði verið stefnt að frá 1967. Brúin þótti verkfræðilegt afrek á sínum tíma, enda reist á djúpum sandi yfir síbreytilegan árfarveg sem reglulega verður fyrir jökulhlaupum. Brúin er þar að auki lengsta brú Íslands, 880 metra löng, þó upphaflega hafi hún verið 904 m, en brúin styttist þegar skemmdir hlutar hennar voru endurbyggðir eftir hlaupið 1996. Á brúnni eru 5 útskot til mætinga. Hún sannaði gildi sitt í jökulhlaupinu sem varð í kjölfar eldgoss í Grímsvötnum 1996 þótt hluti hennar skemmdist; austasti hlutinn fór alveg og landfestingin vestan megin hrundi einnig. Brúin yfir Gígjukvísl, vestar á sandinum, eyðilagðist þá algjörlega.                                                                                                                  

Einn góðan veðurdag í júlí 2009 rofnaðu svo haft, sem varnað hafði Skeiðará að renna meðfram jöklinum til vesturs, og tók hún upp á því að renna yfir í Sandgígjukvísl

Á Skeiðarársandi

 

Það er dálítið sérstakt að heill skriðjökull, sandauðn og lengsta brú landsins skuli vera kennd við jökulfljót sem ekki er lengur til, en eins og flestum er kunnugt, þá tóku vötnin undan Skeiðarárjökli upp á því fyrir nokkrum árum að falla einungis til vesturs frá jöklinum. Að sama skapi hefur Gígjukvísl, sem er vestarlega á sandinum, tvíeflst enda tekur hún við því vatni sem áður rann til sjávar sem Skeiðará. Þetta eru merkilegar breytingar á tímum hörfandi jökla sem ekki verður séð fyrir endann á. Þarna var ég mættur í vettvangsskoðun um helgina og reyndar ekki í fyrsta skipti.

Hið mikla mannvirki Skeiðarárbrú sést hér í allri sinni dýrð og þar bruna bílarnir yfir Skeiðarárlausan Skeiðarársandinn. Að sögn jöklafræðinga er breytingin varanleg þannig að jökulvatn muni jafnvel ekki renna þarna undir í stórhlaupum. Það litla vatn sem enn rennur undir brúna er upprunnið úr Morsársdal og því mætti kalla þessa brú: Morsárbrúin mikla. Myndin er tekin sunnudaginn 14. júlí og sjá má klósiga í lofti boða nýtt úrkomusvæði. Farvegur fyrrum Skeiðarár er vitanlega ekkert nema sandur og grjót vegna þess hve stutt er liðið síðan vötn runnu þarna um. Við nánari skoðun mátti þó finna á þessum slóðum hin fínlegustu smáblóm og fyrstu drög að mosagróðri. Það á þó væntanlega eftir að breytast á komandi árum eins og næsta mynd er til marks um.

 

Hér má sjá sjálfa Morsá nokkru nær Skaftafelli og er horft til Öræfajökuls. Eins og sést er “blessuð” lúpínan búin að stinga sér niður vestan við árbakkann en þéttari breiður eru handan árinnar. Nú þegar Skeiðaráin er horfin er ekkert sem hindrar árangursríkt landnám lúpínunnar áfram í vestur eftir sandinum. En hvort sem lúpínan komi við sögu eða ekki ætti svæðið að gróa upp með tíð og tíma enda stutt í gróskumikla birkiskóga í grenndinni.

Hér á miðjum “Skeiðarársandi” er öðruvísi um að litast. Þarna hefur væntanlega ekki flætt yfir áratugum saman og myndarlegar birkihríslur komnar vel á veg ásamt fínlegri gróðri. Lúpínan hefur hinsvegar ekki enn náð á svæðið þannig að hún er greinilega ekki forsenda fyrir uppgræðslu sandsins. Mynd er tekin í vettvangskönnun fyrir ári síðan.

 

Að lokum er hér horft til Svínafelljökuls af sandinum og þar blasir við önnur afleiðing minnkandi jökla í nágrenni við óstöðugar hlíðar en talsvert berghlaup eða skriða hefur fallið þarna á skriðjökulinn einhvern tíma í vetur. Svipaður atburður og heldur stærri varð einmitt á Morsárjökli vorið 2007. Hrútfjallstindar eru þarna til vinstri á myndinni og Hafrafellið þar fyrir neðan. Sjálfur Hvannadalshnjúkur var hulinn skýjum. Náttúruöflin halda greinilega áfram að móta landið ásamt því að gróðurfar breytist. Nóg er alla vega um vera í Öræfasveitinni.

 Lengsta brú landsins, Skeiðarárbrú, verður frá og með næsta ári ekki lengur hluti af hringveginum. Eftir umbrot og jökulhlaup síðustu ára stendur nú á þurru. Því er í samgönguáætlun gert ráð fyrir að brú verði í staðinn reist yfir Morsá.

Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, segir að nýja brúin verði byggð ofan við Skeiðarárbrúna og hún verði umtalsvert styttri eða 68 metra löng auk þess sem þriggja kílómetra langur vegur verði lagður yfir farveg Skeiðarár. 

Sveinn segir að framkvæmdir við nýja brú hefjist síðla árs og ljúki næsta sumar. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að 430 milljónum króna verði varið í framkvæmdirnar. „Það er gert ráð fyrir 100 milljónum af breikkun einbreiðra brúa á þessu ári og á næsta ári 230 milljóna auk 100 milljóna af breikkun einbreiðra brúa,“ segir Sveinn og vísar þar til sjóðs sem ætlaður er til að fjármagna breikkun einbreiðra brúa landsins. 

 

 

 Steypuvinna við Morsá miðvikudaginn 4. maí 2016. Brúavinnuflokkur Vegagerðarinnar frá Vík. Ljósmynd: Sveinn Þórðarson.

Nú standa yfir framkvæmdir vegna nýs Hringvegar um farveg Skeiðarár á um 3 km kafla ofan núverandi vegar. Gerð brúar yfir Morsá verður lokið í sumar og nýr vegur verður lagður á

næsta ári. Þar með verður lengsta brú landsins, Skeiðarárbrú, ekki lengur í notkun.

Nýr vegur verður 2 km langur og um 0,5 km kaflar beggja megin þar sem nýr vegur tengist núverandi vegi. Byggður verður 8 m breiður vegur með 7,8 m breiðu bundnu slitlagi en brúin er 68 m löng með 9 m breiðri akbraut. Nýr Hringvegur (1) um Morsá liggur um land Skaftafells í sveitarfélaginu Hornafirði.

Með nýbyggingu vegar um Morsá leggst af núverandi brú um Skeiðarárfarveg, sem er 880 m löng, einbreið með útskotum. Gólf brúarinnar er úr timbri, klætt stálmottum. Brúin var byggð á árunum 1973-1974 og er timburgólfið orðið mjög lélegt og hefði þurft að skipta um það allt með miklum tilkostnaði ef ný brú hefði ekki verið byggð á Morsá. Eftir að Skeiðará hætti að renna eftir farvegi sínum og rennur í Gígjukvísl er ekki lengur þörf fyrir svo langa brú, þar sem það er eingöngu Morsá sem rennur í Skeiðarárfarveginum. Með hlýnandi verðurfari hefur skriðjökullinn hörfað svo mikið að hlaupvatn mun líklega ekki komast aftur í gamla farveginn.

Með vaxandi þungaflutningum og mikilli umferð ferðamanna um svæðið hefur Skeiðarárbrú verið farartálmi og talsvert um slys á og við brúna. Með nýrri tvíbreiðri brú og breiðari vegi mun umferðaröryggi aukast til mikilla muna og umferð verður greiðari um svæðið.

Vegagerðin áætlar að brúargerð ljúki sumarið 2016, en vegurinn verði byggður fyrri hluta árs 2017 þannig að hægt verði að taka allt mannvirkið í notkun sumarið 2017. Morsá er veitt vestur fyrir brúarsvæðið á meðan verið er að byggja brúna, sbr.

Heildarefnisþörf í verkið er áætluð um 106.000 m³. Fyllingarefni er um 80.000 m³, burðar- og styrktarlag er um 22 000 m³, steinefni í bundið slitlag er um 1000 m³ og grjótvörn

um 3000 m³. Framkvæmdin er í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins Hornafjarðar þar sem gert er ráð fyrir byggingu tvíbreiðrar brúar um Skeiðarárfarveg við hlið núverandi brúar.

 

Smíði nýrrar brúar yfir Morsá á Skeiðarársandi lýkur væntanlega fyrir lok mánaðarins, að sögn Ingunnar Loftsdóttur, verkefnastjóra vinnuflokka Vegagerðarinnar. Stefnt er að því að taka brúna í notkun fyrri hluta næsta sumars. Hún mun leysa af hólmi Skeiðarárbrú, lengstu brú landsins.

„Við erum búin að steypa, spenna og grauta. Nú er bara lokafrágangur eftir, að slá undan og koma fyrir vegriði“, sagði Ingunn um brúarsmíðina. Brúin var steypt 15. – 16. október 2016 og var steypunni ekið frá Vík í Mýrdal. Nýja brúin er 68 metra löng, 10 metra breið og með 9 metra breiðri akbraut. Í hana fóru rúmlega 800 rúmmetrar af steypu og 80 tonn af kambstáli (steypustyrktarstáli). Vinnuflokkur Vegagerðarinnar frá Vík smíðaði brúna. Frá síðustu áramótum voru sjö menn að störfum ásamt ráðskonu. Fyrir seinustu helgi unnu fimm starfsmenn við lokafrágang brúarinnar.

Stefnt er að því að bjóða út gerð vegtenginga að brúnni fyrir næstu áramót, að sögn Sveins Sveinssonar, svæðisstjóra Vegagerðarinnar á Reyðarfirði. Hann segir að ef tíðin í vetur tefji ekki framkvæmdir verði vonandi hægt að koma nýju brúnni í gagnið fyrri hluta næsta sumars. Hringvegurinn verður færður á um þriggja kílómetra kafla ofan núverandi vegar á Skeiðarársandi. Þar af verður um tveggja kílómetra nýr vegur og hálfs kílómetra langir kaflar beggja vegna, þar sem nýi vegurinn tengist núverandi vegi. Nýi vegurinn verður 8 metra breiður og með 7,8 metra bundndnu slitlagi.

Með tilkomu vegarins um Morsá leggst af núverandi brú um Skeiðarárfarveg, lengsta brú landsins. Hún er 880 metra löng og einbreið með útskotum og var smíðuð á árunum 1973 –  1974. Gólf brúarinnar er úr timbri og klætt stálmottum. Ítarleg skoðun á brúnni fyrir tveimur árum leiddi í ljós að brúargólfið var orðið mjög lélegt. Það kostar nokkur hundruð milljónir að skipta út öllu brúargólfinu. Ákveðið var að smíða heldur nýja brú yfir Morsá.

Í pósti frá Vegagerðinni kemur fram að Skeiðarárbrú sé orðin farartálmi með vaxandi þungaflutningum og mikilli ferðamanna um svæðið. Talsvert hafi verið um slys á brúnni og við brúna. Með nýrri tvíbreiðri brú og breiðari vegi muni umferðaröryggi aukast til mikilla muna og umferð verða greiðari um svæðið

Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvað verður um Skeiðarárbrúna. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði að sú hugmynd hefði komið upp utan Vegagerðarinnar að breyta litlum hluta brúarinnar í útsýnispall. Eins verður hægt að nota efnið úr brúnni í varahluti og til að smíða bráðabirgðabrýr.

Panorama of Jökulsárlón glacial lake in Iceland

 

Jökulsárlón er lón við rætur Breiðamerkurjökuls. Jökulsá á Breiðamerkursandi rennur úr því. Samkvæmt nýlegum mælingum er Jökulsárlón dýpsta vatn á Íslandi. Þar með er vatnið orðið dýpra en Öskjuvatn sem áður var dýpsta vatn Íslands. Öskjuvatn er 220 metrar á dýpt, en að sögn Einars Björns Einarssonar, sem rekur bátaþjónustu fyrir ferðamenn á svæðinu, mældist dýpið í Jökulsárlóni 248 metrar niður á botn.  Jökulsárlón er ungt lón og hefur myndast eftir að Breiðamerkurjökull tók að hopa eftir 1933. Áður rann áin beint undan jökli og til sjávar. Breiðamerkursandur var fyrr á öldum töluvert breiðari en hann er nú; bæði hefur sjór brotið af honum og einnig náði jökullinn skemmra fram á sandinn. Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru um sandinn 1756 töldu þeir um eina danska mílu (7,5 km) milli jökuls og sjávar. Á næstu áratugum skreið jökullinn mjög fram og þegar Sveinn Pálsson fór um sandinn 1794 taldi hann aðeins um 2 km milli jökuls og sjávar. Þegar jökullinn skreið fram hefur hann líklega grafið sig djúpt ofan í gljúp jarðlög og þegar hann fór að hopa aftur á 4. áratug 20. aldar myndaðist lón þar sem hann hafði grafið sig niður

 

Höfn í Hornafirði er þéttbýlisstaður við Hornafjörð á Suðausturlandi og er aðal þéttbýliskjarni Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þar bjuggu 2171 þann 1. janúar 2016, þar af 1659 á Höfn.

Búseta hófst á Höfn árið 1897 þegar kaupmaðurinn Ottó Tulinius fluttist þangað, ásamt fjölskyldu sinni, frá Papósi. Smám saman myndaðist þar þéttbýli í kringum verslun og útgerð og varð bærinn að sérstökum hreppi, Hafnarhreppi, í ársbyrjun 1946, en hafði fram að því heyrt undir Nesjahrepp. Höfn fékk kaupstaðarréttindi í árslok 1988. Hinn 12. júlí 1994 sameinuðust Höfn og Nesjahreppur á ný, ásamt Mýrahreppi, undir nafninu Hornafjarðarbær.   Þann 6. júní 1998 sameinuðust svo Hornafjarðarbær, Bæjarhreppur, Borgarhafnarhreppur og Hofshreppur undir nafninu Sveitarfélagið Hornafjörður.  Flestir farfuglar koma fyrst að landi á Hornafjarðarsvæðinu og á Höfn hefur verið sett á stofn fuglaathugunarstöð

Höfn í Hornafirði. Í bakgrunni má greina Fláajökul og Hoffellsjökul.

 Hótel Höfn

 

Sveitarfélagið Hornafjörður nær frá Skeiðarársandi í vestri í miðjar Hvalnes skriður í austri. Bærinn Höfn er staðsettur í Hornafirði og þangað sækja hinir ríflega tvöþúsund íbúar sveitarfélagsins alla helstu þjónustu. Á svæðinu er blómlegt mannlíf og náttúran afar falleg.

 

 

Stöðvarfjörður hefur sérstöðu meðal austfirskra byggða. Upp frá stuttum firði gengur nær óbyggður dalur girtur háfjöllum, en mannlíf að mestu einskorðað við fiskiþorp sem byggst hefur upp sólarmegin fjarðar. Gegnt þorpinu eru einhver formfegurstu fjöll á landinu með einkennistinda í Súlum og fyrir dalstafni mætast fjallgarðarnir sunnan og austan fjarðar í Jökultindi, hæstum fjalla.. Austurhlíðarnar eru grænar upp undir eggjar, en sunnan megin leikur mosinn sína litasinfóníu í samspili ljóss og skugga. Úti fyrir er blátt hafið með ósýnilegum röstum eins og böndum undan ystu nesjum og fjölda miða, þeirra á meðal Glöggvur. Um miðja 20. öld stóð hvert hús í Kirkjubólsþorpi í grænu túni upp frá höfn og fiskiðjuveri, en byggðin hefur síðan orðið þéttari og kallast nú Stöðvarfjörður.

Verslun hófst þar 1896. Íbúar voru 197 1. janúar 2016. Aðalatvinnuvegir eru sjávarútvegur, fiskiðnaður og verslun.

Á Stöðvarfirði er rekið eitt fullkomnasta grafíksetur landsins ásamt gallerý Særós. Þar er veitingahús, tvö gistihús og sundlaug. Þar er einnig mikið steinasafn Petru Sveinsdóttur (1922 – 2012), opið almenningi. Þangað koma um 25 þúsund gestir á ári. Þúsundum steina og mörgum dýrgripum er haganlega fyrir komið í lystigarði og híbýlum Petru. Í gömlu Stöðvarfjarðarkirkjunni er nú rekin alhliða gisti- og ferðaþjónusta og er ekki vitað um annað kirkjuhús hérlendir sem hýsir slíka starfsemi.

                                Steinasafn Petru á Stöðvarfirði  

Faldir fjársjóðir úr firðinum
Þetta sérstaka safn, sem er það stærsta sinnar tegundar í heiminum, ætti enginn að láta fram hjá sér fara sem á leið um Austfirði.  Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir  fæddist árið 1922 og var frá barnæsku náttúrubarn af guðs náð. Allt frá blautu barnsbeini hafði hún áhuga á steinum, en hóf ekki að safna þeim af alvöru fyrr en árið 1946 þegar hún og eiginmaður hennar fluttu í

Sunnuhlíð, þar sem safnið er staðsett í dag

 

Við flutninginn fékk Petra svigrúm til að geyma alla fjársjóðina og hina fegurstu steina sem hún hafði rekist á í gegnum tíðina. Það var þó aldrei sérstaklega á dagskránni að opna safn. Á sjötta áratugnum hóf Petra að raða steinum í garðinum umhverfis hús sitt sökum plássleysis innandyra og til að punta garðinn.  Steinasafnið dró að sér athygli ferðamanna sem gjarnan bönkuðu uppá og vildu fá að skoða fjársjóð náttúrunnar og var það ætið auðsótt mál.

Gestunum fór æ fjölgandi og í fjörutíu ár tók Petra á móti þúsundum gesta á heimili sínu og leyfði þeim að skoða steinana án endurgjalds. Margir þeirra töldu sig vera að skoða safn þegar þeir voru í raun staddir á heimili þessarar gjafmildu konu. Í fjöldamörg ár var Petra hvött til þess að þiggja greiðslu af gestum sínum, en hún hafnaði því ávallt með þeim rökum að steinarnir væru ekki hennar eign frekar en annarra Íslendinga. Hún lét þó um síðir tilleiðast og hóf að þiggja aðgangseyri af gestum sínum til að standa straum af kostnaði við gestakomurnar. 

Steinarnir á safninu skipta þúsundum og eru í öllum stærðum og gerðum.

 

Stórir, littlir, oddhvassir og sléttir. Allar helstu steinatengundir landsins má finna í safninu svo sem jaspis, silfurberg, geislasteina og hrafntinnu og undirtegundirnar skipta tugum.  Því er óhætt að segja að litadýrðin í safni Petru spanni allt litróf regnbogans.  Athygli vekur að langstærsti hluti safnsins eru steinar af Austfjörðum og þá helst Stöðvarfirði. Það er nær ótrúlegt að allir þessir fjölbreyttu og fallegu steinar sem Petra hefur af alúð safnað saman skuli koma frá litlum firði á Austfjörðum, en ekki úr ævintýralandi. Steinasafnið er skýr vitnisburður um alla þá leyndu og dýrmætu fjársjóði sem leynast alls staðar í kringum okkur, en fæst okkar gefa gaum í amstri hversdagsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fáskrúðsfjörður (oftast áður Búðir) er þorp á Austfjörðum og stendur við samnefndan fjörð. Íbúar þar voru 672 hinn 1. janúar 2016

[endif]Verslun hófst á Búðum upp úr 1880 og tók fljótlega að myndast kauptún sem byggt er í landi jarðarinnar Búða. Fyrsti kaupmaður sem verslaði hér, hét Friðrik Wathne, en árið 1888 setti Carl D. C. Tulinius, kaupmaður á Eskifirði, upp útibú á staðnum.                                                           

Fyrir aldamótin 1900 og fram undir 1935 voru Búðir helsta bækistöð franskrar skútuútgerðar á Austfjörðum. Þar var franskur konsúll, franskt sjúkrahús og frönsk kapella. Sjúkrahúsið stendur enn í upprunalegri mynd. Franskur grafreitur er út með ströndinni norðanverðri, nokkru utan við bæinn, er ” Álverið við Reyðarfjörð”

Hölknalækjum. Þar er stór kristróða með nöfnum þeirra sem þar hvíla. Götumerkingar eru bæði á íslensku og frönsku. Franskir dagar eru haldnir á hverju sumri á Fáskrúðsfirði helgina fyrir verslunarmannahelgi. Á frönskum dögum 1999 var afhjúpuð afsteypa af listaverki Einars Jónssonar um dr. Charcot.

  1. september 2005 var lokið við gerð jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Þetta hefur orðið til þess að mikið af nýjum húsum hefur verið reist í bænum og mætti helst rekja það við álversframkvæmdir Alcoa hinum megin fjalls.

 

 

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði var reistur árið 1903 og tekinn í notkun árið 1904. Hann var einn af þremur spítölum sem byggðir voru á Íslandi af franska ríkinu til að þjóna frönskum fiskimönnum sem stunduðu veiðar við landið. Húsið er mjög merkilegt hús og ekki síður sú sagan sem tengist því. Húsið var tekið og flutt út á Hafnarnes 1939. Þá var veiðum franskra fiskiskipa lokið á Íslandsmiðum, en vísir kominn að útræðisþorpi þar. Húsið var notað þar sem íbúðarhús og skóli. Þegar flestir voru þar, bjuggu milli 50 og 60 manns í húsinu og var búið í því fram um 1964. Síðan var það ekki neitt notað og stóð í eyði í nær 50 ár, fékk nánast ekkert viðhald allan þann tíma sem það stóð á Hafnarnesi. Húsið var því orðið mjög illa farið og að hruni komið. Minjavernd hf. tók 2008 ákvörðun um að endurbyggja húsið. Það var flutt í hlutum inn að Búðum og komið fyrir á hafnarsvæðinu þar. Því næst var því fundinn staður við Hafnargötu, neðan við Læknishúsið sem Frakkar reistu 1907. Hafa þessi tvö hús verið tengd saman með göngum undir Hafnargötuna. Kapella Frakka sem byggð var 1898 var keypt, en hún var afhelguð 1923, flutt upp í plássið og gerð að íbúðarhúsi og ljósabúð. Hún hefur nú verið flutt niður að Hafnargötu á ný og endurbyggð við hlið Sjúkraskýlisins, endurgerðs fyrsta húss sem Frakkar reistu á Fáskrúðsfirði 1896. Enn fremur hefur Líkhúsið verið endurgert, en það stóð upphaflega aðeins ofan og austan Spítalans. Saman standa þar því nú öll þau hús eða endurgerðir þeirra, sem Frakkar reistu á sínum tíma, á árabilinu 1896 til 1907.

Fosshótel hafa leigt hótelhluta húsanna fyrir sérstakt og gott hótel og Fjarðabyggð hefur leigt hluta þeirra fyrir sýningu um veiðar Frakka. Húsin verða öll tekin í notkun fyrir hótel, sýningu og kapellu vorið 2014. Verkefnið hefur verið unnið í góðu samstarfi við Fjarðabyggð og fleiri aðila. ARGOS ehf. Arkitektastofa Grétars og Stefáns hafa verið aðalhönnuðir að verkefninu, en Mannvit hf. og Efla hf. hafa sinnt verkfræðiþáttum. Starfsmenn Minjaverndar hafa sinnt stærstum hluta verksins, en jafnframt hefur komið að því fjöldi verktaka og stærstan hlut þar á Tré og steypa ehf. á Fáskrúðsfirði.                                                                                                            

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði reyndist mun verr farinn en talið var áður en endurbygging hófst.

 Djúpivogur og Búlandstindur

Djúpivogur er þorp í Djúpavogshreppi sem stendur á Búlandsnesi, milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Í Djúpavogshreppi voru íbúar 354 hinn 1. janúar 2016

Hinn formfagri Búlandstindur er þekktasta kennileitið í Djúpavogshreppi. Safna- og menningarhúsið Langabúð, byggt árið 1790, setur einnig mikinn svip á bæjarmynd Djúpavogs. Í Löngubúð er meðal annars safn Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara.

Saga  Fljótlega eftir að landnám hófst á Íslandi munu norræn skip hafa komið af hafi til Berufjarðar til þess meðal annars að eiga viðskipti við fólk sem hafði tekið sér bólfestu um sunnanverða Austfirði. Bæði í Njálu og Fljótsdæla sögu er sagt frá verslunarstaðnum Gautavík við innanverðan Berufjörð. Þar versluðu Þjóðverjar á tímum Hansakaupmanna þar til þeir fluttu bækistöð sína suður yfir fjörðinn til Fýluvogs (Fúluvíkur) upp úr 1500. Rústir í Gautavík eru friðaðar og hefur hluti þeirra verið kannaður með fornleifauppgreftri.                            

Verslunin í Fýluvík var í höndum kaupmanna frá Bremen og starfaði í um 80 ár. Brimarar kölluðu staðinn Ostfiordt in Ostfiordt-süssel. Höfnin þar er nú lokuð vegna sandburðar og ekki sést lengur til verslunarhúsa. Kaupmenn í Hamborg fengu verslunarleyfi á Djúpavogi þann 20. júní árið 1589, með leyfisbréfi gefnu út af Friðriki 2. Danakonungi, og til þess tíma er rakið upphaf búsetu þar.

Einokun komst á 1602 þegar Kristján 4. konungur Dana veitti borgurum í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri einkarétt til verslunar á Íslandi. Austurlandi var skipt niður í þrjú verslunarumdæmi. Kaupstaðir voru á Vopnafirði, í Reyðarfirði og á Djúpavogi, en þar var jafnframt eina verslunarhöfnin á öllu suðausturhorni landsins. Einokun var aflétt 1787 og öllum dönskum þegnum varð heimilt að stunda verslun við Íslendinga. Seinna var verslun gefin frjáls hverjum sem stunda vildi.

Danski kaupmaðurinn J.L. Busch rak verslun á Djúpavogi frá 1788-1818 en þá kom Verslunarfélagið Örum & Wulff til skjalanna og sá um Djúpavogsverslun í rúma öld, frá 1818 allt til 1920. Fyrirtækið hafði aðsetur í Danmörku og á þess vegum komu verslunarstjórar til Djúpavogs til að hafa umsjón með kaupskapnum. Árið 1920 var Kaupfélag Berufjarðar stofnað og keypti það eignir dönsku kaupmannanna. Þeirra á meðal voru verslunarhúsin sem enn standa við höfnina. Elst þeirra er Langabúð, bjálkahús frá öndverðri 19. öld, og er til vitnis um verslunarsögu sem hófst við landnám.

Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hefur fólk við Berufjörð vafalaust dregið fisk úr sjó á sama hátt og lýst er í Íslendingasögum, og lifað af því sem land og sjór gaf. Frá miðöldum íslenskrar byggðar eru til sagnir um erlenda fiskimenn við Berufjörð, danska, hollenska og e.t.v. frá fleiri þjóðum. Á síðari hluta 19. aldar var blómleg útgerð frá Djúpavogi. Þaðan sigldu til veiða all stór þilskip (skútur) og veiddu hákarl, þorsk o.fl. Laust fyrir aldamót 1900 lagðist þessi útgerð niður og um skeið voru fiskiveiðar mest stundaðar á árabátum á grunnmiðum. Árið 1905 er talið að fyrsti vélbáturinn hafi komið til Djúpavogs og næstu árin komu svo fleiri litlir vélbátar, mest svokallaðar trillur.                                                                               

Á árunum 1920-30 voru bátar frá Seyðisfirði, Norðfirði og Eskifirði gerðir út frá Djúpavogi. Upp úr 1940 eru keyptir stærri bátar til Djúpavogs, m.a. Papey o.fl. og um 1950 er keyptur 100 tonna bátur, Víðir frá Akranesi, síðar nefndur Mánatindur. Með komu hans var fiskur sóttur lengra og landað með nokkrra daga millibili, (útilegubátur). Um og upp úr 1960 bætast fleiri stór og góð skip við flotann og voru þá stundaðar togveiðar, netaveiðar og síldveiðar með hringnót. Árið 1981 er skuttogarinn Sunnutindur keyptur frá Noregi, einnig önnur togskip og nótaskip um svipað leyti. Á árunum 1970-80 var talsverð rækjuveiði í Berufirði. Handfæra- línu- og netaveiðar hafa verið stundaðar á minni bátum í áratugi og síðustu árin mest á hraðskreiðum vélbátum (hraðfiskibátum).

Góð náttúruleg höfn er á Djúpavogi. Verulegar hafnarframkvæmdir hófust ekki fyrr en 1947 er byggð var hafskipabryggja en áður voru þar nokkrar smábryggjur í eigu einstaklinga.

Allmikill landbúnaður var áður stundaður á Djúpavogi en nú hefur dregið nokkuð úr honum. Landsímastöð hefur verið á Djúpavogi frá 1915, sjálfvirk símstöð frá 1976 og póstafgreiðsla frá 1873

Sýslumaður sat á Djúpavogi um hríð. Læknir settist þar að upp úr aldamótunum 1900. Kirkja var flutt til Djúpavogs frá Hálsi í Hamarsfirði árið 1894 og prestur hefur setið þar frá 1905. Til Djúpavogsprestakalls heyra kirkjur á Djúpavogi, í Berufirði, á Berunesi og Hofi í Álftafirði.

Almenn barnakennsla hófst á Djúpavogi 1888 og var fyrst kennt í Hótel Lundi. Skólahús var byggt 1912 og nýtt skólahús 1953. Þar starfar nú grunnskóli til og með 10. bekk.                                

Félagslíf hefur verið nokkuð blómlegt á Djúpavogi. Ungmennafélagið Neisti var stofnað 1919 og hefur meðal annars staðið fyrir íþrótta- og leikstarfsemi, einkum fyrr á árum. Kvenfélagið Vaka hefur starfað alllengi. Á Djúpavogi starfa Lionsklúbbur Djúpavogs, Slysavarnafélagið Bára, Skógræktarfélag Djúpavogs og fleiri félög. Skammt innan við Djúpavog er viti, á Æðarsteini, reistur 1926.

Fyrrum var talið að á Djúpavogi væru að meðaltali 212 þokudagar á ári og komst það í bækur. Þetta reyndist þó síðar á misskilningi byggt, en þokusamt er þar eigi að síður.                                      

Þekktir einstaklingar frá Djúpavogi eru Ríkarður Jónsson, Stefán Jónsson  og Eysteinn Jónsson.

   

                           Langabúð

Langabúð og verslunarstjórahúsið eru elstu hús Djúpavogs. Þau eru reist á grunnum

eldri húsa og þar sem þau standa hefur verslunarstaðurinn verið frá árinu 1589, þegar

þýskir kaupmenn hófu verslunarrekstur á Djúpavogi. Langabúð er orðin ómissandi

þáttur í menningarlífi Djúpavogs.

Í Löngubúð er sýning um líf og starf Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og myndskera,

minngarstofa um Eystein Jónsson, stjórnmálamann frá Djúpavogi og konu hans,

Sólveigu Eyjólfsdóttur. Á Löngubúðarloftinu hefur nú verið komið fyrir minjasafni.

Auk þess er kaffihús í suðurenda hússins með heimabökuðum kökum.

 

Þórbergssetur var opnað 1. júlí 2006. Þar er nú veitingasala, gestamóttaka, salerni, og tveir sýningasalir. Í eystri sýningarsal er ljósmyndasýning úr Suðursveit, gamlar ljósmyndir frá árunum 1930 – 1960 sem varpa ljósi á atvinnuhætti og mannlíf í Suðursveit á þeim tímum er beljandi jökulfljót hömluðu samgöngum og afkoma fólks byggði á sjálfsþurftabúskap og sjósókn frá hafnlausri strönd. Einnig eru þar einstaka munir í sýningarstöndum, flestir tengdir Þórbergi og verkum hans. Í vestri sýningarsal er fjölbreytt sýning er tengist ævi og verkum Þórbergs Þórðarsonar, en einnig sögu þjóðarinnar á hinum ýmsu æviskeiðum skáldsins. Sýningin er sambland af fræðsluspjöldum og safni og hægt er að ganga inn í leikmyndir þar sem reynt er að ná andblæ liðinna ára og njóta um leið stórbrotinna lýsinga meistarans sem leiðsögn um svæðið.

 

                                   Opið alla daga allan ársins hring frá 8-21

Höfundur texta: Egill Sigurðsson

Myndir: flestar af netinu.

Gerð síðu: R.Ben