Hvað er þunglyndi? Sjúkdómar og kvillar

Hvað er þunglyndi?

Sorg, vonbrigði og tilfallandi geðsveiflur eða geðbrigði eru hluti af eðlilegri líðan mannsins. Langvinn vanlíðan með viðvarandi depurð, vonleysi og þeirri hugsun að flest eða allt sé tilgangslaust eru hins vegar einkenni um sjúklegt þunglyndi.

Sé vanlíðanin svo alvarleg að hún skerði námsgetu eða vinnuþrek og valdi truflun á einkalífi er um að ræða alvarlegt þunglyndi. Margir eiga erfitt með að horfast í augu við að þeir séu veikir með þessum hætti sem er slæmt því þeir leita þá síður meðferðar og verða af stuðningi ættingja, vina og starfsfélaga. Fordómar eru því miður enn til staðar í samfélaginu og hindra eðlilega umræðu um þessi mál. Þótt þunglyndi sé algengt er það því miður oft falið. Talið er að ekki greinist nema um það bil helmingur þeirra sem veikjast af sjúklegu þunglyndi. Það er slæmt að fólk þjáist án þess að leita sér aðstoðar þar sem áhrifarík meðferð er til.

Læknisfræðilega er þunglyndi flokkað sem sjúkdómur sem veldur ekki eingöngu sálrænum einkennum, heldur margvíslegum áhrifum á mörg líffærakerfi líkamans. Orsaka er að leita í flóknu samspili arfgengra áhættuþátta, áfalla og viðvarandi álags sem móta viðbrögð einstaklingsins gegn streitu og áföllum og auka líkur á sjúklegu þunglyndi. Allir geta orðið fyrir því að veikjast af þunglyndi.

Þunglyndi er algengur sjúkdómur
Talið er að á hverjum tíma séu um 4-6% þjóðarinnar með sjúklegt þunglyndi, þ.e. 12-18 þúsund manns. Samkvæmt rannsóknum er margt sem bendir til þess að algengi sjúklegs þunglyndis hafi aukist undanfarna áratugi. Vísindaleg skýring á þessu liggur ekki fyrir en erfitt er að skýra þetta eingöngu með líffræðilegum þáttum og því er talið að félagslegir þættir skipti miklu máli. Aukningin er þó fyrst og fremst í mildum og meðaldjúpum tegundum þunglyndis en alvarlegt þunglyndi virðist lítið hafa aukist undanfarin ár og áratugi. Áhættan á að fá þunglyndi einhvern tíma á ævinni er um einn á móti tíu hjá körlum en um einn á móti fimm hjá konum.

Margar tegundir þunglyndis
Til eru margskonar tegundir þunglyndis þótt megineinkennin séu alltaf hin sömu. Stundum hefst þunglyndið í kjölfar augljósra ástæðna, svo sem áfalla. Það getur þó einnig komið hægt og sígandi með minna áberandi hætti svo erfiðara er að átta sig á því hvenær það hófst og hvaða tengsl eru við einstaka atburði. Í læknisfræðinni er þunglyndið flokkað fyrst og fremst eftir tveimur leiðum; í fyrsta lagi eftir orsökum og í öðru lagi eftir sjúkdómsferli. Dæmi um hinar ýmsu tegundir þunglyndis eru: Skammdegisþunglyndi, þunglyndi á meðgöngu, fæðingarþunglyndi, álagsdepurð tengd streitu, áfalladepurð í kjölfar áfalls, þunglyndi tengt geðhvörfum og óyndi. Algengast er að þunglyndi standi í nokkra mánuði en sumar tegundir þunglyndis hafa tilhneigingu til að verða langvinnar og endurtaka sig.
Helstu einkenni þunglyndis
1. Tilfinningafátækt og vonleysi – depurð eða lækkað geðslag – kvíði og órói – lágt sjálfsmat og sjálfsásakanir – hugsanlegar ranghugmyndir – tilgangsleysi, lífsleiði og sjálfsvígshugsanir

2. Hömlun – minnkuð virkni – tregða í hugsun – einbeitingarskerðing – minnistruflun – áhugaleysi – framtaksleysi – óákveðni

3. Líkamleg einkenni – þreyta – minnkuð eða aukin matarlyst – munnþurrkur – hægðatregða – svefntruflanir, sérstaklega árvökur – stirðleiki og verkir.

4. Breyting á hegðun og samskiptum – pirringur – neikvæðni – óþolinmæði – aukin áfengisnotkun.

Sjúkdómsgreining
Sjúkdómsgreiningin er framkvæmd af lækni. Tekin er sjúkrasaga, gerð líkamsskoðun og stundum blóðrannsókn til að útiloka aðra sjúkdóma en engin blóðpróf eru til sem greina þunglyndi sérstaklega. Oft eru notaðir spurningalistar sem sjúklingurinn svarar sjálfur og læknirinn notar til að meta einkenni. Geðlæknir framkvæmir nánari greiningu með viðtali og geðskoðun ef þörf er á.
Meðferð
Markmið meðferðarinnar er ekki einungis að draga úr sjúkdómseinkennum, heldur einnig að aðstoða einstaklinginn við að vinna úr áföllum, vonbrigðum, óöryggiskennd og annarri innri vanlíðan og stuðla að því að hann nái fyrri getu og virkni. Samkvæmt árangursmælingum og reynslu er þetta raunhæft markmið ef beitt er þeim meðferðarúrræðum sem til eru í dag. Helstu þættir meðferðar gegn þunglyndi eru lyfjameðferð og samtalsmeðferð en fleiri atriði geta skipt miklu máli og um þau er fjallað hér á eftir. Margar rannsóknir benda til að samtalsmeðferð sé jafngóð lyfjameðferð gegn mildu þunglyndi en báðar aðferðirnar eru vel virkar. Við alvarlegu þunglyndi er lyfjameðferð hins vegar öflugasta úrræðið og oftast algjörlega nauðsynleg. Henni er þá beitt strax samtímis samtalsmeðferð. Yfirleitt hafa lyfin skjótari áhrif en samtalsmeðferð. Venjulega stendur þunglyndi í nokkra mánuði en ef meðferð er ekki farin að skila árangri eftir 3-6 m ánuði er þörf á frekari athugun og sérhæfari meðferð. Ef langan tíma hefur tekið að ná bata eða ef tilhneiging er til að þunglyndi endurtaki sig er lyfjameðferð og beitt í langan tíma í forvarnaskyni.
Líkamsþjálfun hefur góð áhrif á milt og meðaldjúpt þunglyndi en hefur því miður lítil eða engin áhrif á djúpt þunglyndi. Hollt mataræði og reglusemi skiptir miklu.

Reynsla lækna er að umræða og fræðsla sé afgerandi þáttur í meðferð þunglyndis. Mikilvægt er að sjúklingur þekki til sjúkdómseinkenna, hafi skilning á eðli og orsökum veikindanna og fræðist um horfur. Þetta eflir forvarnargildi meðferðarinnar og dregur úr hættu á endurtekningu sjúkdómanna og stuðlar að varanlegri bata.

Kvíðastillandi lyf og svefnlyf eru oft nauðsynleg, sérstaklega í dýpri tegundum þunglyndis. Við langtímanotkun slíkra lyfja ber að gæta mikillar varkárni þar sem þau geta haft í för með sér ávanahættu. Þeir sem átt hafa í erfiðleikum vegna fíknisjúkdóma ættu að forðast notkun slíkra lyfja. Náttúruefni sem unnið er úr Jóhannesarjurt/runna (Hypericum Perforatum) er talsvert rannsakað. Vitað er að efnið hefur virk áhrif á milt þunglyndi og veldur minni aukaverkunum en hefðbundin þunglyndislyf. Efnið hefur hins vegar engin áhrif á djúpt þunglyndi. Verkun efnisins er þó ekki nægilega ítarlega könnuð með vísindalegum hætti svo standist samanburð við rannsóknir á verkun lyfja. Önnur náttúruefni eru lítið eða ekkert rannsökuð vísindalega gegn þunglyndi.

Ljósameðferð hefur verið talsvert notuð við árstíðabundnu þunglyndi. Skiptar skoðanir eru um gagnsemi slíkrar meðferðar og ljóst að hún er mjög einstaklingsbundin.

Afleiðingar þunglyndis
Afleiðingar þunglyndis fyrir samfélagið eru umtalsverðar vegna tekjutaps einstaklinga og fyrirtækja enda er þunglyndi meðal algengustu ástæðna fjarveru frá vinnu. Að auki er mikill kostnaður vegna örorku í kjölfar alvarlegustu veikindanna og vinnutaps ættingja.
Afleiðingar sjúklegs þunglyndis geta verið margvíslegar og alvarlegar fyrir sjúklinginn og aðstandendur hans ef meðferð er ekki beitt. Vanlíðanin getur haft áhrif á námsgetu og starfsþrek vegna skerðingar á einbeitingu og úthaldi og margir eiga erfitt með að taka ákvarðanir. Daglegt líf er raskað, fjárhagslegt sjálfstæði getur verið í hættu og viðkomandi tapar hæfileikanum til að viðhalda persónutengslum sem getur leitt til einangrunar. Vonleysi getur náð yfirhöndinni og hætta er á uppgjöf. Slíkt ástand veldur að sjálfsögðu hugarangri hjá ættingjum og vinum.

En flestum batnar sem betur fer og margir ná sér að fullu.

Greinin fengin á vef Doktor.is