Fróðleikur um sykursýki höfundur : Guðbjörg H. Birgisdóttir, hjúkrunarfræðingur.

Fróðleikur um sykursýki

Guðbjörg H. Birgisdóttir, hjúkrunarfræðingur.

Frodleikur-um-sykursyki

Við sykursýki kemst hluti fæðunnar, þ.e. sykurinn, ekki inn í frumurnar, annaðhvort vegna skorts á insúlíni eða vegna þess að frumurnar eiga erfitt með að nýta sér insúlínið.

Orsök
Það leiðir til þess að sykurinn helst í blóðrásinni og því mælist stöðugt hækkaður blóðsykur hjá sykursjúkum sem ekki eru komnir á meðferð. Þegar sykurmagnið er of hátt skilst hluti þess út í þvaginu.

Blóðsykurstjórnun er flókið ferli þar sem margir þættir hafa áhrif, s.s. líkamsáreynsla, fæði, geta lifrar til framleiðslu á blóðsykri og ýmis hormón t.d.insúlín. Sykur er brennsluefni líkamans. Blóðsykurinn (glúkósi) er öllum frumum líkamans nauðsynlegur sem orkugjafi líkt og bensín á bíl. Til að blóðsykurinn nýtist sem orkugjafi þarf hann að fara úr blóðinu inn í frumur líkamans fyrir tilstuðlan insúlíns, sem framleitt er í beta frumum briskirtilsins.

Allar frumur líkamans þarfnast insúlíns meðal annars til að taka til sín glúkósa úr blóðinu og til að örva uppbyggingu á frumum og vefjum líkamans. Blóðrásin flytur insúlín út um allan líkamann. Insúlínið sem framleitt er í briskirtilinum er því lykillinn sem hleypir sykrinum inn í frumurnar.

Sykursýki er talin orsakast af samspili erfða og umhverfisþátta.

Afbrigði
Insúlínháð (týpa 1) er algengust hjá ungu fólki og börnum. Hér er um algjöran insúlínskort í brisinu að ræða. Líkaminn notar insúlín til að taka glúkósa úr blóðinu og flytja inn í frumur. Ef frumur sem framleiða insúlín í briskirtlinum verða ónýtar af einhverjum orsökum þ.e. briskirtillinn framleiðir ekki insúlín, hækkar blóðsykurinn og glúkósi fer jafnvel að skiljast út með þvagi. Þegar insúlínframleiðsla er of lítil eða jafnvel engin geta frumur líkamans ekki tekið upp sykur úr blóðinu. Það verður til þess að þær svelta og blóðsykurinn verður stöðugt of hár. Eyðilegging á frumunum, sem framleiða insúlín, má meðal annars rekja til ónæmiskerfisins en ekki er vitað með vissu hver orsökin er. Erfðafræðilegir þættir virðast hafa áhrif án þess þó að sjúkdómurinn gangi beint í erfðir.

Insúlínóháð (týpa 2) er algengust hjá eldra fólki og er stundum kölluð fullorðins sykursýki, eða áunnin sykursýki. Hér er briskirtillinn búinn að hægja á starfsemi sinni, hann framleiðir insúlín en ekki nægjanlega mikið, eða frumur líkamans hafa minnkað næmi fyrir insúlíni og það nýtist ekki. Við það hækkar blóðsykurinn (glúkósi). Ef blóðsykurinn er mjög hár, ná nýrun ekki að losa glúkósan og skilst hann því út með þvagi. Insúlínóháð sykursýki er erfðatengdur sjúkdómur sem oft leysist úr læðingi vegna óæskilegra lifnaðarhátta. Það getur verið offita eða hreyfingarleysi, eða bæði.

Þá er til svokölluð meðgöngusykursýki sem kemur í kjölfar þungunar og hverfur yfirleitt eftir fæðingu. Hún er algengari hjá konum sem eiga ættingja með sykursýki eða eru of þungar. Á meðgöngu er insúlínþörf líkamans meiri en venjulega og ef briskirtillinn getur ekki svarað þeirri þörf þróast sykursýki. Eftir fæðinguna verður insúlínþörfin eðlileg á ný og sjúkdómurinn hverfur.

Báðar tegundir sykursýki eru ættgengar. Þó eru meiri líkur á að skyldmenni einstaklings með týpu 2 fái einnig sykursýki heldur en skyldmenni týpu 1. Fjöldi einstaklinga með insúlínóháða sykursýki fer vaxandi. Litið er á sjúkdóminn sem lífstíðarsjúkdóm.

Einkenni
Insúlínháð (týpa 1); tíð þvaglát, þorsti, óhófleg löngun í mat, þyngdartap, titrandi pirringur, sýking í húð, munni eða kynfærum, stöðnun á þroska barna/unglinga, sjúklingur fellur í dá, sykur (glúkósi) mælist í þvagi og magn sykurs í blóði verður of hátt, í blóði verður gjarnan mikið af ketonsýrum.

Insúlínóháð (týpa 2); slappleiki, þreyta, tíð þvaglát um nætur, stöðugur þorsti, lystarleysi og þyngdartap, kláði umhverfis kynfæri, sýking í húð, munni eða leggöngum, starfsemi betafruma briskirtils skert sem og næmi líkamsvefja gagnvart insúlíni.

Einkenni insúlínháðrar sykursýki koma fram á nokkrum vikum en þróun insúlínóháðrar sykursýki á sér yfirleitt lengri aðdraganda (allt upp í 10 ár) og sjúklingurinn getur verið einkennalaus eða einkennalítill mjög lengi.

Hvað er til ráða?

 • Sjúklingurinn verður að hafa sjúkdóminn hugfastan og læra að fylgjast með einkennum hækkaðs og lækkaðs blóðsykurs.
 • Læra að mæla blóðsykurinn og gera það reglulega.
 • Læra að sprauta sig því það þarf að gera það daglega ævilangt (týpa 1).
 • Hafa alltaf sykur á sér til að bregðast við of lágum blóð sykri (blóðsykurfall).
 • Fara reglulega til læknis, rétt er að fylgjast sérstaklega vel með fótum, augum, blóðfitu, hjarta- og nýrnarstarfsemi.
 • Leita læknis ef annar sjúkdómur lætur á sér kræla.
 • Halda kjörþyngd.
 • Hætta að reykja.  

Hugsanlegir fylgikvillar
Léleg blóðsykurstjórnun hvorrar tegundarinnar sem er, leiðir til fylgikvilla.

Bráðir

 • Blóðsykurfall vegna rangrar meðferðar, hætta á yfirliði.
 • Ketónblóðsýring (ketoacidosis) hjá einstaklingum með týpu 1, lífshættulegt ástand.
 • Sýkingar vegna þess að bakteríur nærast vel á blóði sem er ríkt af glúkósa.

Aðrir

 • Augnsjúkdómar (tap á sjón vegna hrörnunar sjónhimnunnar).
 • Taugabólgur (hnignun á starfsemi tauga).
 • Nýrnasjúkdómar (hnignun á starfsemi nýrna).
 • Æðakölkun og meðfylgjandi hætta á t.d. heilablóðfalli og hjartasjúkdómum (tap á eðlilegri hringrás blóðs til hjarta).
 • Stöðvun á eðlilegu blóðflæði til fóta.

Þessir fylgikvillar koma yfirleitt ekki fram fyrr en nokkrum árum eftir greiningu sjúkdómsins. Einstaklingar með insúlínóháða sykursýki eiga frekar á hættu að vera komnir með ýmsa fylgikvilla við greiningu þar sem slík sykursýki greinist oft seint vegna vægra einkenna. Margar rannsóknir hafa sýnt að með góðri blóðsykursstjórn má að mestu koma í veg fyrir þessa fylgikvilla.

Meðferð
Mataræði
Rétt mataræði er undirstaðan í meðferð á sykursýki. Margir sem eru með sykursýki af týpu 2 eru meðhöndlaðir eingöngu með breyttu mataræði. Reglubundnar 5-6 máltíðir á dag hjálpar til við að halda blóðsykrinum sem stöðugustum. Lögð er áhersla á ríkulega neyslu á kolvetnum og trefjum, lágmarksneyslu á sætindum og takmarkaða fituneyslu. Æskilegt er að borða magurt kjöt, alifugla, fisk, egg og magra osta. Borða gróft brauð, hrísgrjón, pasta og kartöflur, borða mikið af grænmeti á hverjum degi, velja fitulitlar mjólkurafurðir, ferska ávexti og forðast sykur í daglegri fæðu. Þá þarf að fara varlega í áfengi. Mikilvægt er að ná þyngd niður ef yfir kjörþyngd.

Hreyfing
Líkamsþjálfun gegnir veigamiklu hlutverki í meðhöndlun sykursýki, bæði með það að markmiði að fyrirbyggja fylgikvilla en einnig til að bæta líðan. Aukin hreyfing eykur virkni insúlíns í frumum líkamans og það auðveldar upptöku sykurs úr blóðinu til lungna, hjarta, blóðrásar, vöðva og liða. Þjálfunina verður að sníða að heilsu hvers og eins og kemur þar ýmislegt inn í s.s aldur viðkomandi, hversu lengi sjúkdómurinn hefur staðið og hvort viðkomandi hefur sykursýki af týpu 1 eða 2. Þess vegna er mikilvægt fyrir sykursjúka að byrja ekki líkamsþjálfun nema í samráði við sinn meðferðarlækni.

Lyf
Lyfjameðferð beinist að því að hafa áhrif á insúlínbúskap líkamans, sem svo stjórnar blóðsykrinum. Einnig má minnka upptöku á glúkósa í þörmum með töflum (typa2), þ.e. bæta virkni þess insúlíns sem sykursjúkir framleiða sjálfir og auka hæfni fruma líkamans til að nota það. Meðferðin felur í sér mikla sjálfshjálp, sem þýðir að lögð er áhersla á að sjúklingur geti annast sig sjálfur. Ítarleg kennsla í insúlínmeðhöndlun er nauðsynleg fyrir þá sem þurfa á insúlíni að halda. Mikilvægur þáttur í meðhöndluninni er sykursýkisdagbókin en í hana eru skráð blóðsykursgildin sem sjúklingur tekur sjálfur. Eftir þörfum fer sjúklingurinn í skoðun hjá innkirtlasérfræðingi, í eftirlit á göngudeild sykursjúkra eða til heimilislæknis, þar sem fylgst er með meðferðinni, líðan sjúklings og viðkomandi er skoðaður með tilliti til fylgikvilla.

Mikilvægasta tæki sjúklingsins er blóðsykurmælirinn sem gerir honum kleift að mæla blóðsykurinn og á einfaldan hátt stýra meðferðinni daglega.

Hvaða lyf eru í boði?
Insúlínháð sykursýki – Hér er notað insúlín í sprautuformi (hraðvirkt insúlín, meðal-langvirkt insúlín, meðal-langvirkt insúlín en fljótvirkt í upphafi). Allir með insúlínháða sykursýki eru meðhöndlaðir með insúlíni sem er þeim lífsnauðsynlegt lyf. Ef líkaminn fær ekki insúlín hækkar blóðsykursgildið og það ástand skapast að líkaminn bregst við með því að brenna fituefni sem á stuttum tíma (einum til fáeinum dögum) veldur lífshættulegu ástandi (sýrueitrun, ketoacidose). Á hinn bóginn veldur of mikið insúlín því að blóðsykurinn verður svo lágur að blóðsykurfall getur orðið (hypoglykemia), sem kemur fram sem fölvi, skjálfti, svengd, eirðarleysi, sjóntruflanir og sjúklingur getur misst meðvitund og hugsanlega fengið krampa.

Insúlínóháð sykursýki – Hér eru oftast notuð sykursýkislyf til inntöku í töfluformi sem draga úr upptöku á glúkósa úr fæðunni, minnka myndun glúkósa í líkamanum og/eða bæta insúlínnæmi en margir þeirra sem eru með insúlínóháða sykursýki eru meðhöndlaðir með insúlíni í sprautuformi. Nýjustu meðferðarúrræðin við insúlínóháða sykursýki stjórna blóðsýkrinum mjög sértækt þar sem þau örva seytun insúlíns þegar blóðsykurinn er hár en ekki ef hann er innan eðlilegra marka sem minnkar hættun á blóðsykrusfalli. Að auki minnka lyfin matarlyst með því að hamla ákveðið hormón í líkamanum sem veldur seddutilfinningu og hægir á magatæmingu. Nýju lyfin eru aðeins notuð þegar önnur úrræði duga ekki til.

Reglulegt eftirlit

 • Tekið blóðsýni til að athuga HbA1c (segir til um blóðsykurgildi sl.2-3 mánuði).
 • Farið yfir dagbók með blóðsykurgildum.
 • Matarvenjur ræddar.
 • Blóðþrýstingur mældur.
 • Líkamsþyngd athuguð.
 • Einstaklingsbundnar rannsóknir, því eftirlit verður alltaf að hluta einstaklingsbundið.

Batahorfur
Insúlínháð sykursýki er ólæknanleg en með réttri meðhöndlun, þ.e. insúlínmeðferð svo að blóðsykurinn haldist sem næst eðlilegur er hægt að forðast síðkomna fylgikvilla.

Insúlínóháð sykursýki er að öllu jöfnu hægt að halda í skefjum með réttu mataræði og sykursýkislyfjum í töfluformi. Regluleg skoðun og eftirlit getur dregið úr hættu á fylgikvillum. Nauðsynlegt getur orðið að nota insúlín, þegar frá líður ef önnur meðferð dugar ekki.

Blóðsykurmælingar
Mikilvægt er að fylgjast vel með blóðsykrinum og halda honum innan eðlilegra viðmiðunarmarka. Það er margt sem bendir til að gott eftirlit með blóðsykrinum geti komið í veg fyrir eða frestað fylgikvillum sykursýki. Einstaklingur sem sjaldan eða aldrei mælir blóðsykurinn, getur verið í slæmri sykurstjórnun án þess að vita af því, vegna þess að einkennin eru ekki alltaf augljós.

Sykur í blóðinu er mældur í millimólum í lítra (mmól/l) sem gefur til kynna fjölda sykursameinda í hverjum lítra blóðs. Í blóðinu eru milljónir af þessum sykursameindum.Í heilbrigðum einstaklingi er eðlilegur blóðsykur í kringum 4-6 mmól/l. Stuttu eftir máltíð eykst sykurinn í u.þ.b.7-8 mmól/l. Ef viðkomandi hefur ekkert borðað í margar klukkustundir minnkar sykurinn en fer þó sjaldnast undir 3,5 mmól/l. Það getur verið erfitt að skilgreina nákvæmlega hvað gott eftirlit er, fyrir alla sem eru með sykursýki. Eðlilegur blóðsykur er auðvitað það allra besta en það er ekki raunhæf viðmiðun, sykursjúkir þurfa yfirleitt að sætta sig við eitthvað hærri blóðsykur en hjá heilbrigðum. Hins vegar getur verið hættulegt að missa tökin á blóðsykrinum. Tölurnar hér að neðan gefa hugmynd um (en í hverju einstöku tilfelli fyrir sig getur verið ástæða til að nefna þrengri eða rýmri mörk) raunhæf markmið blóðsykurs fyrir einstakling með sykursýki.

 • Fastandi og fyrir máltíðir 7,0 mmól/l
 • 1 klst. eftir máltíð 10,0 mmól/l
 • 2 klst. eftir máltíð 8,0 mmól/l
 • Á háttatíma 7-10 mmól/l

Blóðsykurmælingar eru notaðar til að ákvarða insúlínskammta og kolvetnaneyslu (sykur) viðkomandi. Sýni blóðsykurmæling að blóðsykurinn sé fyrir ofan eða neðan eðlileg gildi þarf að gera viðeigandi ráðstafanir strax. Til þess að reikna út insúlínskammt með tilliti til ákveðinnar máltíðar er nauðsynlegt að vita hvernig insúlín og næringarefni hafa áhrif á blóðsykurinn. Það er alltaf einstaklingsbundið.

Hversu oft á að mæla blóðsykurinn?
Sjúklingar með insúlín meðhöndlaða sykursýki eiga að mæla blóðsykurinn 1 sinni á dag annað hvort á morgnana, fastandi eða á háttatíma. Auk þess á að mæla 1-2 sinnum í viku sólarhringsmælingu, þ.e.blóðsykur fyrir máltíðir og blóðsykur við háttatíma. Kostirnir við daglega mælingu blóðsykursins á morgnana er að þeir geta þá gefið sér aðeins meira insúlín til að lækka blóðsykurinn aftur ef hann er of hár, og þar með minnkað hættuna á fylgikvillum síðar.

Sykursýkissjúklingar sem taka lyf í töfluformi eiga að mæla blóðsykurinn 1-2 sinnum í viku, annað hvort fastandi eða 1 klst. eða 2 klst. eftir máltíð, ásamt sólarhringsmælingu 1-2 sinnum í mánuði.

Auk þess á að mæla blóðsykurinn ef líðan er ekki góð, ef tilfinning er fyrir að blóðsykur sé annað hvort of lágur eða of hár.

Ef viðkomandi er með insúlínháða sykursýki og blóðsykurinn mælist >20 mmól/l og sykur er í þvagi á að mæla ketonefni í þvagi (með strimlum). Ef ketonefni er í þvaginu, er það hættumerki að um sýrueitrun (ketoacidose) sé að ræða, sem þarfnast tafarlausrar meðferðar hjá lækni.

Mæling á blóðrauðu (HbA1c) eða svokölluðum langtímablóðsykri. Þetta próf er venjulega tekið hjá lækni sem blóðprufa úr handlegg og er vísbending um meðaltalsblóðsykur undanfarna 2-3 mánuði.

Blóðsykurinn er mældur á einfaldan og fljótlegan hátt, með mismunandi útgáfum af blóðsykursáhöldum. Öll virka með hjálp lítils mælis, strimils og fingurstings (til að stinga sig með í fingurinn til að fá fram blóðdropa).

Blóðsykurfall (hypoglykemia)
Ástand sem getur myndast verði blóðsykur of lágur og á sér yfirleitt skamman aðdraganda. Helstu orsakir blóðsykursfalls eru t.d. of mikið insúlín, of lítil næring eða rangt mataræði eða eftir mikla líkamlega áreynslu. Einkenni sykurfalls er mismunandi frá einum einstakling til annars, en hver og einn lærir inn á sjálfan sig og orsök sykurfallsins og getur þannig komið í veg fyrir það. Einkenni um sykurfall líkjast mjög stresseinkennum og taugaveiklun og því er hætt við að ekki sé gerður greinarmunur þar á. Fyrstu hættumerkin hjá flestum sykursjúkum eru sviti, skjálfti en einnig er algengt að fá tilfinningu fyrir hungri, kulda, pirringi, þreytu og sljóleika. Ef ekki er neytt sykurs eða einhverra sætinda, sem skila sér hratt inn í blóðrásina, þegar svona er komið getur viðkomandi misst meðvitund.

Þegar um væg sykurföll er að ræða geta þau hjálpað til við stjórnun blóðsykursins, það segir sjúklingnum að hann þurfi að minnka insúlínskammtinn. Fái sjúklingur hins vegar aldrei sykurfall er það merki um háan blóðsykur og að endurskoða þurfi meðferðina. Séu sykurföllin hins vegar tíð og fari blóðsykurinn mikið niður fyrir 3 mmól/l þá geta þau verið skaðleg fyrir heilastarfssemina, yfirleitt er hættan þó lítil vegna þess að viðbrögð líkamans við sykurfalli eru að útskilja hormón í miklu magni. Þessi hormón verka á lifrina og losa glúkósuforða hennar inn í blóðrásina. Við meðvitundarleysi reynir líkaminn á þennan hátt að ná meðvitund aftur. Þrátt fyrir það er rétt að bregðast við um leið og einkenna verður vart.

Fróðleiksmolar um insúlín
Insúlín er hormón sem hjálpar til við efnaskipti líkamans. Efnafræðilega séð er insúlín eggjahvítuefni og er sameindin samsett úr 51 amínósýru. Hver einstök insúlínsameind er örsmá og ósýnileg með berum augum. Insúlín var fyrst framleitt sem lyf við sykursýki árið 1921.

Insúlín er aðallega tvennskonar. Annars vegar er stuttverkandi insúlín, upplausn af tæru insúlíni sem verkar fljótlega eftir inndælingu, en verkunin varir stutt. Hins vegar er langverkandi insúlín, þá er insúlínið bundið við efni sem hefur þau áhrif að það fer hægar inn í blóðrásina og verkun þess varir lengur. Þá er einnig til blanda af þessum tveimur fyrrnefndu insúlínum, sem samanstendur af hraðvirku og meðallangvirku insúlíni.

Frásog insúlíns er mismunandi frá einum einstaklingi til annars og þar með verkun insúlínsins. Þess vegna getur einn þurft að fá meira insúlín en annar til að fá sömu verkun.

Insúlín er gefið undir húð, þaðan frásogast það inn í blóðrásina. Þegar insúlíni er sprautað inn er húðfellingu lyft upp og sprautunni haldið skáhallt þegar stungið er. Nálin þarf að fara það djúpt að hún fari undir húðina, en ekki svo djúpt að hún fari í vöðva.

Algengir stungustaðir eru t.d. læri og kviður. Ekki má nota sama svæðið of oft, hver ný sprauta á að vera á nýjum stað, þetta er mikilvægt til að fá reglubundið frásog og til að verja vefinn undir húðinni.

Insúlín geymist a.m.k. fram að þeim degi sem gefinn er upp sem fyrningardagur, ef það er geymt á réttan hátt. Eftir fyrningardaginn brotnar insúlínið niður smátt og smátt og tapar styrkleika sínum.