Fundargerð Stjórnar- og nefnda 5. febrúar 2020

Korpúlfar, samtök eldriborgara í Grafarvogi

Fundargerð

Stjórnar- og nefndafundar 5. febrúar 2020

Mætt voru: Mikkalína Pálmadóttir, Bára Aðalsteinsdóttir, Guðlaugur Þorgeirsson, Páll Steinar Hrólfsson, Eggert Sigfússon, Sigrún Bjarnadóttir, Ísidór Hermannsson, Ingibjörg Friðbertsdóttir, Egill Sigurðsson, Páll Bjarnason, Steinar Gunnarsson, Amalía Pálsdóttir, Jóhann Helgason, Sveinbjörn Bjarnason, Birna Róbertsdóttir.

Formaður setti fund kl. 10:03

Dagskrá fundarins:

1. Lesin fundargerð síðasta fundar

2. Aðalfundur 26. febrúar 2020

3. Þorrablót

4. Stofnun leiklistarhóps Korpúlfa

5. Upplýsingar frá nefndum

6. Önnur mál

1. Fundargerð síðasta fundar

Í fjarveru ritara las Sveinbjörn Bjarnason fundargerð síðasta fundar – hún var samþykkt.

Formaður dreifði samþykktum Korpúlfa ásamt verklagsreglum nefnda meðal fundarmanna og hvatti fólk til að kynna sér hvorutveggja því einhvers misskilnings virðist gæta með einhver atriði sem þar koma fram.

2. Aðalfundur 26. febrúar 2020

Formaður sagði að Haraldur Sumarliðason yrði fundarstjóri á fundinum.

Hann vísaði til félagsfundar s.l. miðvikudag 29. janúar þar sem Hilmar Guðlaugsson lagði fram tillögu að breytingum á samþykktum Korpúlfa hvað varðaði uppstillinganefnd fyrir samtökin.

Formaður benti á að í núgildandi samþykktum stæði: “Tillögur að breytingum á samþykktum Korpúlfa skulu berast stjórninni fyrir 15. janúar … “. Það væri því ljóst að tillaga Hilmars, sem borin var fram 29. janúar, mun ekki ná inn á fyrirhugaðan aðalfund þann 26. febrúar n.k.

Formaður ítrekaði að hvergi í samþykktum samtakanna væri minnst á uppstillinganefnd og því væri ekki verið að fara á svig við neinar reglur þó slík nefnd yrði ekki fyrir komandi aðalfund. Þá lýsti hann þeirri reynslu sinni að oftar en ekki hefði verið erfitt að fá fólk til að starfa í uppstillinganefnd og einnig að erfitt hefði verið að fá fólk til starfa í stjórn eða nefndum.

Í máli fundarmanna komu fram sjónarmið þar sem telja mætti að lýðræðislegra væri að hafa uppstillinganefnd.

Nú yrði farin sú leið að senda félagsmönnum póst og þeim sem vildu gefinn kostur á að bjóða sig fram til starfa í stjórn eða nefndum Korpúlfa. Áhugasamir tjái sig um það við Birnu annað hvort persónulega eða með tölvupósti.

Formaður óskaði eftir við viðstadda að þeir gæfu Birnu upp hvort þeir vilji halda áfram þeim störfum sem þeir nú hafa með höndum. Það muni einfalda mjög alla undirbúningsvinnu.

Formaður las upp 4. og 5. grein samþykktanna um stjórnarkosningar og nefndakosningar.

3. Þorrablót

Þorrablót Korpúlfa fer fram í kvöld. Opnað verður inn í salinn kl. 18:00 og borðhald hefst kl. 19:00. Lofað er skemmtilegu þorrablóti þó ekki verði upplýst um dagskrá þess í smáatriðum. Þó kom fram að Níels Árni Lund verður veislustjóri, Haraldur Sumarliðason muni flytja minni kvenna og Kristín Guðmundsdóttir flytji minni karla. Dansparið Rakel og Jósavin Hlífar Helgason munu sýna dans og mæðginin Jóhanna Kristín Þórisdóttir og Valur Þór munu koma fram með tónlist.

4. Stofnun leiklistarhóps Korpúlfa

Leiklistarhópur Korpúlfa verður formlega stofnaður á morgun, fimmtudag 6. febrúar 2020, kl. 14:00. 21 einstaklingur hefur þegar skráð sig til þátttöku og hefur Sigurður Skúlason leikari tekið að sér að vera hópnum til trausts og halds. Ákveðið hefur verið að taka fyrir leikverkið Maður í mislitum sokkum. Hann vill ekki taka mikið fyrir þá aðstoð og þó ekki gera þetta fyrir ekki neitt.

Engar tölur hafa enn verið nefndar í því sambandi.

5. Upplýsingar frá nefndum

Ferðanefnd:

Páll Bjarnason sagði að undirbúningur ferðarinnar á Vestfirði stæði yfir. Áætlað að milli 35 og 40. manns yrðu í ferðinni sem gæti kostað 130 – 140 þús kr. pr. mann. Ennþá væri þó verið að skoða gististaði.

Í skoðun væri að heimsækja Alþingi en tímasetning væri ekki komin. Eftir þá heimsókn væri möguleiki að fara í kaffi í Iðnó.

Egill Sigurðsson sagði að komið hefðu fram hugmyndir um utanlandsreisu og í því sambandi nefndar Færeyjar, Skotland og Baskaland. Hann dreifði yfirliti um Baskaland og sagðist hafa áhuga á að kanna með slíka ferð. Hann flutti einnig stutta framsögu um sögu Baska þar sem hann rekur í stuttu máli sögu Baska sem er um margt afar fróðleg en um leið raunaleg einkum fyrir móttökurnar sem þeir fengu á Vestfjörðum. Engin ákvörðun tekin í þessu máli en vissulega þess virði að skoða með áhuga glæsilega framsetningu á yfirlitinu sem Egill dreifði.

Fræðslunefnd:

Amalía Pálsdóttir sagði frá að hugað hefði verið að línudansi og nefndar voru sem mögulegir leiðbeinendur þar þær Guðrún Bergmann og Margrét Skarphéðinsdóttir.

6. Önnur mál

Ingibjörg Friðbertsdóttir setti fram þá tillögu hvort ekki mætti nota Facebook síðu Korpúlfa meira en gert er til að minna á hverjum tíma á viðburði framundan. Fundarmenn mjög jákvæðir gagnvart þessu. Rætt um hvernig best yrði að haga þeirri vinnu.

Einnig var rætt um vefsíðu Korpúlfa og notkun á henni. Þá var rætt um félagatal sem er búið að ræða frá síðasta vori og hvort ekki væri kominn tími til að taka ákvörðun um hvort félagatalið skuli vera á netinu eða ekki. Niðurstaða var að félagatalið skuli ekki vera á netinu en félögum, sem þess óska, verði afhent félagatalið útprentað eða þeim sent það í tölvupósti. Þá var samþykkt að Sveinbjörn Bjarnason skuli hafa umsjón með Facebook síðunni og vefsíðunni og sjá um innfærslur á síðurnar en umsjónarfólk hinna ýmsu viðburða eins og t.d. bridge, félagsvist og öðru þar sem ástæða væri til að upplýsa um viðburðina komi einnig að skráningu inn á Fb síðuna.

Birna sagði frá Hap+ en spurt var hvort áhugi væri meðal Korpúlfa að fá kynningu á vöru þeirra, sem er munnvatnsörvandi molar, íslenskt hugvit, þróað sem lausn við munnþurrki. Ekki reyndist áhugi meðal fundarmanna á þessu.

Þá nefndi Birna póst sem hún hefði fengið frá Ungmennaráði SOS barnaþorpanna en á vegum þeirra hafa verið haldnar kynningar meðal þátttakenda í félagsmiðstöðvum eldri borgara. Þetta unga fólk langar að koma í Borgir með kynningu og tónlist. Samþykkt var að þiggja þetta boð og munu þau koma miðvikudaginn 4. mars n.k. kl. 14:00.

Birna nefndi einnig Sigríði Dögg, Siggu Dögg kynfræðing. Hvort áhugi væri á að fá hana með erindi um kynlíf eldri borgara. Það samþykkt og kemur hún væntanlega í mars.

Fundi slitið með vinabandinu kl. 11:39

Sveinbjörn Bjarnason

settur fundarritari