Ætla að slá í gegn í Slóveníu

DEILA

Ætla að slá í gegn í Slóveníu

Í tæp þrjátíu ár hefur hópur karla hist í hverri viku til að stunda leikfimi saman. Nú æfa þeir dansatriði af kappi undir listamannsnafninu The Sóley’s boys og stefna ótrauðir á Hátíð gullna aldursins, The Golden age festival, sem verður haldin í Slóveníu þetta árið.

Inn með magann og halda stöðunni,“ kallar Sóley Jóhannsdóttir danskennari yfir hóp 12 karlmanna á besta aldri sem liggja löðursveittir í armbeygjustöðu á gólfi Kramhússins. Undir dynur Eurovision-lagið Everybody, framlag Eistlands árið 2001, og stemningin er rafmögnuð.

Við næsta takt stökkva karlarnir á fætur og taka létta sveiflu við sjálfa sig, rétta hendur upp til himins og klappa í takt. Klukkan er rétt rúmlega sjö á þriðjudagsmorgni en hópurinn heldur áfram að hoppa og snúast hring eftir hring eins og enginn sé morgundagurinn. Þetta eru Strákarnir hennar Sóleyjar, eða The Sóley’s boys, eins og þeir munu heita þegar þeir verða kallaðir upp á svið á The Golden age festival í Portoroz í Slóveníu í næsta mánuði. Það er ekkert gefið eftir enda til mikils að vinna. Strákarnir stefna á að skáka ókrýndum sigurvegurum síðustu hátíðar gullna aldursins, þýsku stálkroppunum sem allir eru komnir yfir nírætt en komu sáu og sigruðu með tvísláaratriði sínu.

„Þýski aginn fær ekki að vinna okkur,“ grínast Guðni Kolbeinsson og strákarnir hennar Sóleyjar skella allir upp úr. Það er óneitanlega góð stemning í hópnum enda hefur kjarni hans æft leikfimi með Sóleyju í tuttugu og sex ár. Sá yngsti er 59 ára en sá elsti er að nálgast áttrætt og allir eru þeir í toppformi.

Click here

Vinnubúðir og áfengisbann

„Upphaflega áttu þetta að vera leikfimitímar í hádeginu en svo breyttist þetta einhverra hluta vegna í danstíma,“ segir Guðni og aftur skella allir upp úr.
„Þegar ég bar þá hugmynd undir strákana fyrir fjórum árum síðan að fara út á þetta „festival“ og dansa uppi á sviði þá var ekki tekið mjög vel í hugmyndina, það var bara „general“ hlátur í sturtuklefanum,“ segir Rúnar Gunnarsson og aftur hljómar hláturinn um salinn.
Hópurinn ákvað þó að fara út fyrir þægindarammann og taka þátt í The golden age festival. Hátíðin er haldin annað hvert ár á einhverjum fallegum og sólríkum stað í Evrópu og þar mætist fólk sem er komið yfir fimmtugt til að skemmta sér saman, dansa og stunda allskyns hreyfingu. „Þetta áttu nú upphaflega bara að vera tvær sýningar sem eru 3 mínútur hvor og svo restin bara frí og afslöppun. En svo voru allt í einu eilífar æfingar bæði kvölds og morgna og áfengisbann í þokkabót. Þetta voru bara vinnubúðir,“ segir Guðni.
„Enda slógum við algjörlega í gegn!,“ er þá kallað innan úr hópnum.

Auðvelt að sleppa sér á þessum aldri

„Í fyrstu ætluðu strákarnir ekkert að vera með í sýningu á „festivali“ þar sem 95% þátttakenda eru konur. Þannig að ég tók konurnar þeirra með í atriðið og það sló algjörlega í gegn, sérstaklega vegna þess hvað það skein mikil gleði af hópnum. Ég hef aldrei hlegið eða haft jafn mikið gaman að nokkru verkefni og við vöktum mikla athygli,“ segir Sóley. Eiginkonur strákana munu einnig vera með í „comebackinu“ í Slóveníu því í lok dansatriðisins munu þær svífa inn á svið og taka nokkur dansspor með strákunum. „Það góða við að komast á þennan aldur er hversu auðvelt er að sleppa sér,“ segir Sóley.
„Við erum að þessu til að skemmta okkur,“ skýtur þá eiginmaður Sóleyjar inn, Ólafur Jón Briem, en hann er einn af strákunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *