Eru eldri borgarar gamlir nöldurseggir?

SIGURÐUR JÓNSSON SKRIFAR

Þjóðin er að eldast. Heilsufar er betra almennt séð hjá eldri borgurum. Stundum hefur maður það á tilfinningunni að þetta sé eitt helsta vandamálið í huga sumra stjórnmálamanna. Þessi staðreynd eykur útgjöld ríkisins hvað varðar greiðslur frá Tryggingastofnun og kallar á frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila svo eitthvað sé nefnt.

Þetta birtist mörgum eldri borgaranum þannig að þessi stóri hópur sé verulegt vandamál. Sé hreinlega baggi á þjóðfélaginu. Nú er það svo að margir eldri borgarar eru mjög virkir í þjóðfélaginu. Eru á fleygiferð alla daga við að aðstoða, t.d. að skutla barnabörnum í skólann, á íþróttaæfingar o.s.frv. Nú eða aðstoða á margan annan hátt.

Þetta gleymist oft í umræðunni. Það myndi örugglega hiksta þjóðfélagið ef þessi stóri hópur sem eldri borgarar eru tæki sig saman og legði niður þessa vinnu. Ráðamenn þjóðarinnar þurfa aðeins að hugsa þessi mál þegar þeir eru að ákveða kjör eldri borgara. Framlag eldri borgara til þjóðarbúsins til aðstoðar hefur ekki verið reiknað til fjár.

Sem betur fer er nú mikil uppbygging í þjóðfélaginu, sem kallar á vinnuafl. Stjórnmálamenn hafa hvatt til þess að eldri borgarar taki þátt í atvinnulífinu og taki að sér vinnu, t.d. í hlutastarfi. Allt er það gott og blessað. Ener það ekki ansi mikill tvískynningur að hvetja til atvinnuþátttöku, en hafa kerfið þannig að sáralítið sitji eftir í veski eldri borgarans. Frítekjumark er aðeins 25 þúsund á mánuði. Eftir það skerðast greiðslur frá Tryggingastofnun. Það getur ekki verið glóra í því að eldri borgarar séu látnir greiða hátekjuskatt þótt þeir vinni sér inn nokkrar aukakrónur.

Ekki nóg að það standi á blaði
Nýja ríkisstjórnin segist ætla að hækka frítekjumarkið. Það er ekki nóg að það standi á blaði. Það verður að gerast strax. Það hljóta allir að sjá óréttlætið og þá verður að laga hlutina strax.

Margir hafa í gegnum tíðina verið að byggja upp sinn lífeyrissjóð. Þetta var eins og að leggja peningana sína í banka til að nota síðar. Það er því ósanngjarnt að ríkið skuli skerða þessa eign þótt fólk vinni sér inn nokkrar aukakrónur.

Eldri borgarar landsins eru um 40 þúsund og fer fjölgandi. Þetta er stór hópur sem á að standa saman og gera kröfur á sína sveitarstjórn, alþingismenn og ráðherra. Eldri borgarar hafa lagt grunninn að þessu góða þjóðfélagi sem við búum í. Það er ekki réttlátt að stór hópur eldri borgara þurfi að búa við kjör sem eru langt undir meðaltekjum launafólks.

Eldri borgarar. Stöndum saman í baráttunni fyrir sómasamlegum launum til eldri borgara. Stöndum saman til að berjast fyrir að ríkisvaldið hætti að skerða atvinnutekjur eldri borgara.

Boltinn er hjá velferðarráðuneytinu.

Boltinn er hjá velferðarráðuneytinu

 

SKOÐUN

07:00 08. MARS 2016

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.
Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.
PÉTUR MAGNÚSSON SKRIFAR

Í Fréttablaðinu 25. febrúar sl. birtist grein eftir formann kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni þar sem fram kemur að þegar eldri borgari fari á hjúkrunarheimili taki Tryggingastofnun ríkisins lífeyri hans til greiðslu kostnaðar við dvölina á hjúkrunarheimilinu. Sé það líkast eignaupptöku. Jafnframt segir í greininni að stjórnvöld íhugi að breyta fyrirkomulaginu en hjúkrunarheimilin leggist gegn því. Þetta er alrangt. Undirrituðum er ekki kunnugt um hjúkrunarheimili sem er fylgjandi núverandi fyrirkomulagi enda hafa þau verið sett í hlutverk innheimtufulltrúa fyrir ríkisvaldið, hlutverk sem þau hafa aldrei beðið um að fá að taka að sér.

Greiðslufyrirkomulag á hjúkrunarheimilum er ákvarðað af stjórnvöldum einum og hjúkrunarheimilin hafa ekkert um málið að segja. Tryggingastofnun reiknar greiðsluþátttöku hvers og eins út frá skattframtali viðkomandi, fjárhagslegum eigum og fleiri atriðum sem hjúkrunarheimilin hafa enga vitneskju um. Að loknum útreikningi fá hjúkrunarheimilin greidda upphæð sem ekki svarar til raunkostnaðar og hefur ekki gert um árabil. Frádregin er svo sú upphæð sem viðkomandi einstaklingur á að greiða til heimilisins. Því þurfa hjúkrunarheimilin að innheimta hjá heimilisfólki það sem upp á vantar og það er staða sem við erum mjög mótfallin.

Jaðrar við mannréttindabrot
Að mínu mati mati jaðrar núverandi kerfi við mannréttindabrot. Líkt og Landssamband eldri borgara hefur ályktað um, höfum við á Hrafnistuheimilunum hvatt stjórnvöld til að breyta fyrirkomulaginu til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Sem framlag til þeirrar nauðsynlegu undirbúningsvinnu sem þarf að eiga sér stað sendi Hrafnista erindi til velferðarráðuneytisins á síðasta ári þar sem ráðuneytið var hvatt til dáða í þessum efnum. Hrafnista bauð ráðuneytinu jafnframt fulltrúa í vinnuhóp til þess að vinna að málinu og að nýtt kerfi yrði prufukeyrt á einu til tveimur Hrafnistuheimilum í tilraunarskyni.

Í stuttu máli felst hugmynd um nýtt fyrirkomulag í því að hver íbúi hjúkrunarheimilis haldi fjárhagslegu sjálfstæði, ólíkt því sem er í dag. Viðkomandi greiddi þá fyrir fæði, húsnæði, þvott og þrif, allt eftir því hvaða þjónustu viðkomandi kysi að notfæra sér. Þá myndi viðkomandi jafnframt greiða húsaleigu í samræmi við fermetrafjölda og gæði húsnæðisins. Önnur þjónusta væri valfrjáls. Kostnaður vegna umönnunar, þjónustu læknis- og hjúkrunar yrði greiddur af stjórnvöldum. Fulltrúi velferðarráðuneytisins kynnti þessa hugmynd á félagsfundi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu fyrir nokkrum árum. Þar var henni vel tekið og hvatt til þess að hugmyndinni yrði hrint í framkvæmd. Boltinn er því hjá velferðarráðuneytinu sem vonandi kemst í þetta mikilvæga mál sem allra fyrst.

Þess má geta hér í lokin að á síðasta ári var gerð könnun meðal 600 íbúa á Hrafnistuheimilunum sem sýndi að 42% þátttakenda greiddu ekkert fyrir búsetu á Hrafnistu. Um 21% greiddi innan við 49 þúsund krónur á mánuði. Samtals greiða því rúmlega 60% íbúa á Hrafnistu lítið eða ekkert fyrir dvölina. Rétt er að taka fram að þessar upphæðir eru ekki viðbót við framlag ríkisins til starfseminnar heldur skerðir ríkið framlag sitt sem þessu nemur.

Eldra fólki á vinnumarkaði fjölgar.

Eldra fólki á vinnumarkaði fjölgar

 

SKOÐUN

07:00 08. MARS 2016

Þorseinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorseinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
ÞORSTEINN SÆMUNDSSON SKRIFAR

Það er ánægjulegt að sjá að sífellt hærra hlutfall eldra fólks starfar á íslenskum vinnumarkaði. Mikilvægt er að hæfileika þeirra sem eldri eru njóti við þegar yngri kynslóðir eru að koma nýjar inn á vinnumarkaðinn. Í Félagsvísum 2015, sem gefnir eru út af velferðarráðuneytinu, kemur fram að atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 55-74 ára var 67,2% árið 2014 en tíu árum áður var hlutfallið 63,3%.

Bætt starfsumhverfi
Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar, sem og annars staðar á Vesturlöndum, er að breytast og hlutfall þeirra sem eldri eru eykst smám saman. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar er til að mynda gert ráð fyrir því að hlutfall Íslendinga 60 ára og eldri verði komið yfir 30% árið 2060. Á sama tíma erum við heilsuhraustari og ævilíkur að lengjast, sem leiðir af sér aukinn vilja og getu til virkrar þátttöku í atvinnulífinu hjá þeim sem eldri eru. Hér á Íslandi er stærstur hluti vinnumarkaðarins blessunarlega meðvitaður um mikilvægi þess að tryggja starfsfólki sínu starfsumhverfi sem stuðlar að betri líðan og heilsu. Gott og vandað starfsumhverfi skilar sér í betri anda á vinnustaðnum og ánægðara starfsfólki, sem skilar sér í auknum afköstum.

Jöfn meðferð á vinnumarkaði
Það er ljóst að við erum á réttri leið. Mikilvægt er að auka möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína svo að vinnumarkaðurinn geti notið þeirrar miklu þekkingar og færni sem þessi aldurshópur býr yfir, sem lengst. Þar má meðal annars nefna möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri starfsævinnar eða seinni stigum hennar. Einnig er mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar. Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.

Til stendur að félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði nú í vor. Í frumvarpinu felst að fyrirtæki og stofnanir megi ekki mismuna fólki, meðal annars á grundvelli aldurs. Samþykkt slíks frumvarps er mikilvægt skref í að styðja enn betur við eldra fólk á vinnumarkaði og mun ég glaður greiða atkvæði mitt með því.
KVÓT: Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.

Uppnám vegna matarleysis um helgar

Uppnám vegna matarleysis um helgar

 

INNLENT

07:00 14. JANÚAR 2016

Jón Gunnar segir hádegismatinn vera mikilvægan þátt í rútínu íbúanna og rjúfa félagslega einangrun.
Jón Gunnar segir hádegismatinn vera mikilvægan þátt í rútínu íbúanna og rjúfa félagslega einangrun.FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Borgin rekur mötuneyti í Eirborgum þar sem öryggisíbúðir eru fyrir aldraða. Þar er framreiddur heitur matur í hádeginu en nú um áramótin varð sú breyting á að maturinn er ekki lengur í boði um helgar og á helgidögum.

Jón Gunnar Ásgeirsson, sem býr í Eirborgum, segir hádegismatinn mikilvægan þátt í rútínu fólks. Hann segir íbúana æfa vegna breytinganna. „Við fáum engan mat 110 daga á ári. Það eru margir sem geta ekki eldað sér mat eða farið í búð, hvað þá í þessu færi. Dóttir mín hefur stundum komið og eldað fyrir mig en það eru ekki allir svo heppnir að eiga góða að. Félagslegi þátturinn er þó mikilvægastur.“

Jón bendir á að heldur ætti að hækka verðið á máltíðinni sem er nú 660 krónur. „Ég held að flestir væru tilbúnir að borga hundrað krónum meira og halda þjónustunni um helgar inni. Við reyndum að segja stjórnendum það en það er enginn vilji til að hlusta. Þetta er bara stjórnunarofbeldi.“

Ragnheiður Gunnarsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri í Eirborgum, segir íbúa geta fengið matarbakka senda til sín um helgar og því muni enginn svelta. „En félagsleg einangrun aldraðra er stórt vandamál og fólki líður vel í notalegum matsalnum með framúrskarandi starfsfólki. Borgin telur sig þurfa að spara en gerir sér kannski ekki grein fyrir hversu dýrmæt þessi þjónusta er.“

Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir kostnað við helgarþjónustu í Eirborgum vera sex milljónir króna á ári. Eirborgir ásamt einni annarri félagsmiðstöð voru með mat um helgar á síðasta ári en nú er aðeins opið á Vitatorgi um helgar, þar sem matarbakkar eru útbúnir.
Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs, segir erfitt að svara spurningunni um hvort helgarmáltíðir á félagsmiðstöðvum borgarinnar verði endurskoðaðar í ljósi uppnáms íbúanna. „Við höfum ekki fengið útreiknaðan kostnað við það og eins og flestir vita eru fjármunir af skornum skammti,“ segir hún. Ráðið hefur þó ekki lokað málinu, skoðaður verður möguleikinn á sjálfboðaliðum í matarþjónustunni og eftir söfnun gagna um félagsstarf og matarþjónustu verður málið tekið upp að nýju.

Verið að níðast á öldruðum og öryrkjum

Verið að níðast á öldruðum og öryrkjum

 

SKOÐUN

09:14 16. DESEMBER 2015

Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
BJÖRGVIN GUÐMUNDSSON SKRIFAR

Svo virðist sem ríkisstjórn og Alþingi ætli að bregðast öldruðum algerlega á þessu ári. Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir 2015 var tillaga um kjarabætur lífeyrisþega felld. Sýnt hefur verið fram á með mörgum dæmum, að ekki er unnt að lifa af lægsta lífeyri aldraðra frá TR. Þessi lífeyrir dugar ekki fyrir framfærslukostnaði út mánuðinn. Lyf eða læknishjálp mæta því afgangi. Og stundum eru matarkaup látin sitja á hakanum. Þetta er mjög gróft mannréttindabrot og stríðir gegn 76. grein stjórnarskrárinnar. En þetta virðist ekki skipta meirihluta Alþingis neinu máli. Ríkisstjórnin hreyfir sig ekki í þessu máli og ekki meirihluti Alþingis heldur. Til þess að kóróna ranglætið og misréttið í þjóðfélaginu gerist það nú fyrir skömmu, að hálaunamenn, ráðherrar, alþingismenn og embættismenn ríkisins fá mjög miklar kjarabætur, ekki frá 1. janúar n.k. eins og eldri borgarar og ekki frá 1. maí sl. eins og verkafólk, nei frá 1. mars sl.! Ráðherrar og alþingismenn hafa verið taldir svo illa haldnir, að þeir yrðu að fá góða summu í vasann strax! Ráðherrarnir fengu rúmar 900 þúsund greiddar nú þegar! En um leið og þeir taka við þessum upphæðum segja þeir nei við aldraða og öryrkja!

Aldraðir fái sömu hækkun og verkafólk og frá sama tíma
Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fyrir Alþingi til annarrar umræðu, var ekki að sjá í því neinar lagfæringar á kjörum aldraðra og öryrkja umfram þá hungurlús, sem var boðuð í upphafi og á ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári. Það er ófrávíkjanleg krafa kjaranefndar eldri borgara (og LEB) að eldri borgarar fái nákvæmlega jafn mikla hækkun á sínum lífeyri og verkafólk fékk á sínum launum (14,5%).Og það hefur verið ófrávíkjanleg krafa eldri borgara, að aldraðir fengju þessa hækkun frá sama tíma og verkafólk, þ.e. frá 1. maí sl. Nú væri réttlætismál, að aldraðir fengju þessa hækkun frá 1. mars eins og ráðherrar, alþingismenn og embættismenn. Það er meiri þörf á að hækkun á lífeyri aldraðra og öryrkja frá TR gildi frá 1. mars heldur en hækkun á launum þessara hátekjumanna.

Hækkun lífeyris ekki í samræmi við launaþróun
Ríkisstjórnin boðaði 9,4% hækkun á lífeyri aldraðra, sem tæki gildi næsta ár. Þetta eru rúmar 10 þús. kr á mánuði eftir skatt. Þessi hungurlús er það, sem forsætisráðherra kallar mestu hækkun á lífeyri aldraðra og öryrkja í sögunni! Á sama tíma hækka laun ráðherranna um meira en 100 þúsund krónur á mánuð og afturvirkt frá 1. mars eða um meira en 900 þúsund kr. strax. Ríkisstjórninni er gjarnt að tala um met. Þetta er áreiðanlega met í ranglæti og misrétti. Á þessu ári hafa laun margra stétta hækkað óvenju mikið. Meðaltalshækkun á þessu ári hefur verið í kringum 14% en einstaka stéttir hafa hækkað um 18%, aðrar um 25% og fiskvinnslufólk, sem er að byrja störf, hækkar um 30%. Samkvæmt lögum á lífeyrir að taka mið af launaþróun. Það er alveg ljóst, að það er verið að brjóta lögin með því að ákvarða hækkun lífeyris langt fyrir neðan hækkun launa flestra stétta. Það er verið að níðast á öldruðum og öryrkjum.

Jólagjöfin í ár

Jólagjöfin í ár

 

SKOÐUN

07:00 12. DESEMBER 2015

Ellert B. Schram í stjórn Félags eldri borgara
Ellert B. Schram í stjórn Félags eldri borgara
ELLERT B. SCHRAM SKRIFAR

Meirihluti þingmanna felldi fyrr í vikunni tillögu stjórnarandstöðunnar um hækkun lífeyrisbóta til aldraðra. Raunar gekk tillagan, sem felld var, út á það að hækkun bótanna næði frá þeim tíma í vor, sem launþegar sömdu um og fengu, auk þess sem kjararáð hækkaði laun þingmanna og ráðherra átta mánuði aftur fyrir sig eins og allur þorri vinnumarkaðarins fékk.

Rökstuðningur meirihlutans var í aðalatriðum sá, að vel hafi verið gert við ellilífeyrisþega, frá því að núverandi ríkisstjórn tók við, að lög kveði á um, hvernig reiknaðar skulu út tryggingabætur og ellilífeyrir hafi hækkað um 3%, um síðustu áramót, umfram það sem aðrir fengu.

Þetta er löðurmannlegur málflutningur, fyrirsláttur og afneitun gagnvart þeirri einföldu staðreynd, að samfélagið er með þessari afgreiðslu Alþingis að horfast í augu við þá niðurstöðu, að eldra fólk eigi ekki annað skilið en að glíma við fátækt.
Upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu og Almannatryggingum hafa leitt í ljós að fjögur þúsund eldri borgarar hafa minna en tvö hundruð þúsund krónur á mánuði til að framfleyta sér. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að ellilífeyrir hækki um 9,6% frá næstu áramótum, ca tuttugu þúsund krónur, mínus skattur. Við það stendur. Við þá skömm stendur.

Þegar Almannatryggingar voru stofnaðar, var tilgangurinn sá, að samfélagið rétti öldruðu fólki hjálparhönd til að halda reisn sinni og geta lifað mannsæmandi lífi, þegar það væri ekki lengur á vinnumarkaði. Hugsunin var sú að útrýma fátækt hjá fólki, sem hefði fram að því lagt sinn skerf til þjóðfélagsins. Ætti það inni og verðskuldaði aðstoð. Þetta var ekki ölmusa, þetta var endurgjald, þakkir og viðurkenning samfélagsins um tilvist ellinnar.

Ég leyfi mér enn að trúa því að það sé ekki mannvonska sem veldur því að meirihluti Alþingis fellir tillögu um útborgun lífeyrisbóta. Það er hins vegar pólitík af verstu sort. Á bak við þetta er fólk sem hefur allt sitt vit úr Excel-skjölum, prósentureikningi og pólitískum samanburði. Og svo kemur hjörðin á eftir og réttir upp hendurnar þegar henni er skipað. Það hafði enginn alþingismaður úr stjórnarliðinu manndóm í sér til að greiða atkvæði með réttlætinu. Þetta er sorgleg staðreynd, hinn aumi blettur stjórnmálanna. Lýsandi dæmi um ósjálfbjarga og hollustusjúka meðreiðarsveina valdsins. Meira gæti ég sagt.

Þessi hörmulega epísóda er áminning til okkar allra, á hvaða aldri sem við erum, að jafnrétti og jöfnuður, samkennd og mannúð eiga enn erindi inn á hinn pólitíska vettvang. Og þar er verk að vinna.