Minni þátttaka eldra fólks á vinnumarkaði

Minni þátttaka eldra fólks á vinnumarkaði

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherrra ætlar að leggja fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði á vorþingi.  Verði frumvarpið samþykkt mega fyrirtæki og stofnanir ekki mismuna fólki  á grundvelli aldurs, kyns, fötlunar, skertrar starfsgetu, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífs­skoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta.

67 prósent eldra fólks á vinnumarkaði

Skýrsla nefndar, sem ráðherrann skipaði,  um mótun tillögu að vinnumarkaðsstefnu og skipulagi vinnumarkaðsmála á Íslandi  kom út í júní. Í skýrslunni er að finna tölur um atvinnuþátttöku fólks á aldrinum 55 til 74 ára. Þar kemur fram að atvinnuþátttaka þessa hóps var um 67 prósent á síðasta ári, samanborið við um 80 prósent í öðrum aldurshópum. Í skýrslunni segir: „Ljóst er að aldurssamsetning þeirra sem búa hér á landi er að breytast og hlutfall þeirra sem eldri eru eykst smám saman. Þá gefur bætt heilsufar, auknar ævilíkur og vilji til virkrar þátttöku í atvinnulífinu möguleika á aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks. Í því sambandi þarf að tryggja gott starfsumhverfi til lengri tíma litið, bæði í því skyni að stuðla að betri líðan og heilsu starfsmanna sem og að auka vilja og möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína. Er þar undirstrikað mikilvægi þess að innlendur vinnumarkaður geti sem lengst notið þekkingar og færni þeirra. Er í því sambandi meðal annars átt við möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri eða seinni stigum starfsævinnar. Aðstæður einstaklinga eru misjafnar og því mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar.“

Frumvarpið lengi í smíðum

Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði hefur verið nokkuð lengi i smíðum í félagsmálaráðuneytinu.  Það átti að leggja frumvarpið fram á síðasta þingi en ekki tókst að ljúka vinnu við það þá. Eygló sagði  í fyrravor  að hún stefndi að því að leggja frumvarpið fram á haustþingi en samkvæmt þingmálamálaskrá ríkisstjórnarinnar verður það ekki lagt fram fyrr en á vorþinginu. Ráðherrann hefur sagt að hann telji að það séu vísbendingar um að fólki hér á land sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs. „Það er ástæðan fyrir því að ég hef lagt áherslu á að það verði innleitt hér í lög bann við mismunun á meðal annars á grundvelli aldurs,“ sagði Eygló á ráðstefnu sem haldin var um sveigjanleg starfslok í nóvember í fyrra.

Eldra fólk dýrmætt á vinnumarkaði

Eldra fólk dýrmætt á vinnumakaði

Sigrún Stefánsdóttir tók fyrir ári við starfi forseta hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri en hún er nú 67 ára. Áður hafði hún sagt upp starfi sínu sem dagskrárstjóri sjónvarps og útvarps í Ríkisútvarpinu. Sigrún á að baki langan starfsferil í fjölmiðlum, sem fréttamaður og dagskrárstjóri. Þegar hún stóð á fimmtugu réði hún sig rektor Norræna blaðamannaháskólans í Árósum og síðan sem deildarstjóra hjá Norrænu ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn. Þegar hún var orðin sextug réðst hún sem dagskrárstjóri hjá RÚV. Það kemur ekki heim og saman við reynslu margra kvenna sem eru komnar yfir miðjan aldur, um að það sé auðvelt fyrir eldri konur að fá starf aftur, ef þær missa vinnuna á annað borð eða vilja skipta um starf.

Uppgjöf og þú verður fórnarlamb

„Ég held að margir upplifi það þannig, að þeir muni ekki fá vinnu aftur ef þeir eru komnir á ákveðin aldur, en ég held að margir gengisfelli sjálfa sig líka.  Ég varð vör við þetta þar sem ég hef unnið, bæði hér og í Kaupmannahöfn.  Ég man eftir finnskri konu, sem var orðin rúmlega fimmtug og sló því föstu að hún myndi aldrei fá vinnu framar.  Um leið og þú gefst upp ertu orðin fórnarlamb“, segir Sigrún.

Eldra fólk dýrmætt á vinnumarkaði

Það er mikilvægt fyrir fólk að trúa að það sé eftirsóttur vinnukraftur“, segir hún og bendir á að margir haldi því fram að fólk, sem er komið á efri ár, sé besti vinnukrafturinn ef heilsan er góð. Þá eru börnin farin að heiman og fjárhagurinn orðinn betri.  „Það er enginn dýrmætari á vinnumarkaðinum en þeir sem eru orðnir fimmtugir og eldri“, segir hún.  Sigrún talar um gildi þess að fólk í háskólaumhverfinu  fái að stunda rannsóknir þegar kennslustarfi ljúki. Það sé ekki skynsamlegt að henda fólki út 67 ára.

Sumir þrá að hætta að vinna

Sigrún segir að sumir þrái það að hætta að vinna og finnist þriðja æviskeiðið dásamlegt. Það er gott og gilt en það á ekki að setja þeim stólinn fyrir dyrnar sem vilji vinna lengur.  Heilsa fólks sé önnur en var fyrir nokkrum átatugum.  „Horfum á okkur og ömmur okkar“, segir hún.  „Við búum við svo miklu betra atlæti og gætum verið 20 árum yngri en ömmur okkar þegar þær voru á sama aldri. Við erum líka betur á okkur komnar en mæður okkar voru þegar þær voru á okkar aldri. Þegar mamma varð sextug snerust hlutverkin við og við fórum að „vernda“ hana, til dæmis ef farið var til útlanda. Ég fer enn til útlanda á eigin vegum og held utanum allt mitt og stundum vel það. Ég er ekki komin í pössun“, segir hún og hlær.

Þarna liggja tækifæri fyrir eldra fólk

En það er misjafnt hvernig menn vilja hafa hlutina þegar þeir eldast. „Ef ég væri ekki að vinna, myndi ég búa mér til einhvers konar vinnu“, segir Sigrún.  Hún segist hafa hlustað á viðtal við frumkvöðla og segir að þarna liggi svo mikil tækifæri fyrir eldra fólk.  Það hafi reynslu og menntun og þarna liggi kannski tækifærin fyrir þá sem vinumarkaðurinn vill ekki. Sigrún segist hafa rætt við konu sem finnist dásamlegt að vera hætt að vinna og geta gert það sem hana langar til. Sjálf hafi hún prófað það í eitt ár að vera ekki í fastri vinnu og ekki þótt það dásamlegt. „Ég er svo mikil félagsvera, hef gaman af fólki og nenni ekki að vera pensionisti“ segir hún.

Fær ekkert nema maður sæki um

Ég geng út úr föstu starfi 65 ára“ segir Sigrún „ og gaf mér það að ég væri ekki hætt á  vinnumarkaðinum“.  Hún segist hafa farið að sækja um störf og hafi verið númer 2-3 á lokasprettinum í umsóknarferli um annað starf, þegar hún fékk starfið sem hún er núna í.„Maður fær ekkert ef maður sækir ekki um“, segir hún.

Annars missir maður kjarkinn

Sigrún segir það vafasamt að vera á sama  vinnustað í 40 ár.  Unga fólkið geri það ekki, það skipti reglulega um störf.  Sjálf segist Sigrún hafa skipt um störf á átta ára fresti.  „Annars missir maður kjarkinn“, segir hún.  Það er alltaf átak að ganga inná nýjan vinnustað“.  Hún segir líka að fjölbreytt reynsla sé dýrmæt.  „Ég er að upplifa það hér að ég kann ýmislegt sem aðrir kunna ekki, ég hef annan bakgrunn, önnur sambönd,  annars konar reynslu og hef ekki verið í háskólaumhverfinu allt mitt líf. Sigrún segir einnig að það sé mikilvægt að fylgjast vel með. Það sé líka spurning hvernig menn klæði sig og að þeir séu almennt í takt við tímann.

Góð heilsa er undirstaðan

En góð heilsa er undirstaða alls annars, segir hún.  Maður ráði ýmsu sjálfur í þeim efnum, að minnsta kosti því hvernig maður fer með sig. „Ég tel að grunnurinn að því að ég er við góða heilsu sé að ég hreyfi mig mikið.  Fólk er að vorkenna mér vegna þess að ég geng í vinnuna með bakpokann minn, 45 mínútna gang til og frá vinnu. Og þetta er ekki bara tími sem ég geng í vinnuna, ég get hugsað á leiðinni, skipulagt daginn og undirbúið fyrirlestra.  Ég nýti þennan tíma vel og þarf ekki í Worldclass.

Vill setja á laggirnar vísindaskóla

Ég finn aldrei fyrir því að ég sé með þeim elstu á vinnustaðnum. Þetta er kannski þessi dásamlega sjálfsblekking en ég verð heldur ekki vör við að aðrir umgangist mig eins og ég sé elst. Ég er svo forvitin, sem ég held að sé gott.  Það var ekki tilviljun að ég valdi mér blaðamennsku að lífsstarfi.  Mér finnst nauðsynlegt að fylgjast vel með og vera skapandi. Ég fékk nýlega hugmynd að vísindaskóla fyrir unga Akureyringa og er nú að þróa þá hugmynd áfram.  Það er bara svo skemmtilegt og ævintýrin eru á hverju horni !!

Hérna fyrir neðan eru myndir frá starfsferli Sigrúnar í sjónvarpinu og gönguferðum á Ströndum og á Grænlandi.  Neðst t.v. er mynd af henni með sambýlismanninum Yngvari Björshol  og með sonunum tveimur, Þorleifi Stefáni og Héðni Björnssonum.

 

 

Eftirlaunin hækkuðu um 26 prósent

Eftirlaunin hækkuðu um 26 prósent

„Öryrkjar og eldri borgarar kölluðu á bætt kjör fyrir áramótin þegar við vorum að ljúka vinnslu fjárlagafrumvarpsins og nú birtast okkur tvær fréttir sem geta ekki talist til þess fallnar að gera þennan hóp sérstaklega sáttan,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vg á Alþingi, undir liðnum störf þingsins. Annars vegar gerði Bjarkey að umtalsefni frétt þess efnis að Glitnir HoldCo skipti á milli þriggja manna 170 milljónum á ársgrundvelli í laun.

„Þetta er hreint ótrúlegt og það er ekki að ósekju að fólk velti fyrir sér hvort við séum á sömu leið og fyrir hrun. Síðan kemur frétt um að fyrrverandi dómarar fái 26% hækkun á eftirlaun sín eða eftirlifandi makar þeirra. Þetta gera 44 milljónir á ársgrundvelli fyrir 29 manns,“ sagði Bjarkey. Hún sagði að rökstuðningurinn fyrir hækkun launa dómara nú síðast hafa meðal annars verið aukið vinnuálag. Bjarkey gerði hins vegar athugasemdir við að dómarar á eftirlaunum fái sömu hækkun og starfandi dómarar svo og eftirlifandi makar.  Bjarkey spurði því: „En af hverju á hækkunin að fara til þessa sérstaka hóps eftirlaunaþega meðan allir aðrir sem fá eftirlaun sitja eftir, sem og öryrkjar? Ríkið virðist alltaf eiga fjármuni fyrir sérstaka hópa sem hafa það betra en þeir sem minnst hafa.“

Óánægja með að matsalnum verði lokað um helgar

Óánægja með að matsalnum verði lokað um helgar

„Ég legg til að við förum í verkfall og látum ekki sjá okkur hér“, sagði reiður íbúi í Eirborgum í Grafarvogi á fundi þar sem fulltrúar frá velferðarsviði borgarinnar greindu frá því að hætt yrði að bjóða uppá mat í matsal félagsmiðstöðvarinnar Borga um helgar. Þess í stað yrði fólki boðið að fá heimsendan mat á laugardögum og sunnudögum. Yfir 100 manns hafa skrifað undir mótmæli gegn þessum breytingum. Undirskriftarlistinn hefur verið afhentur borgarráði.

70 til 100 manns í mat

Eirborgir eru öryggisíbúðir fyrir eldra fólk, sem eru reknar af hjúkrunarheimilinu Eir. Reykjavíkurborg rekur hins vegar félagsmiðstöðina Borgir sem er í áföstu húsi við Eirborgir. Þar er matsalur þar sem boðið hefur verið uppá mat í hádeginu alla daga vikunnar og þar borða um 70 manns á hverjum degi og stundum fleiri.

Átti ekki að vera opið í matsal um helgar

Það stóð ekki til að vera með mat um helgar á Borgum þegar aðstaðan þar var byggð upp enda hefur það ekki tíðkast í öðrum félagsmiðstöðvum sem Reykjavíkurborg rekur.  Almennt er miðað við að matsalir séu opnir alla virka daga, en að fólk geti fengið sendan mat heim um helgar. Undantekning frá þessu er félagsmiðstöðin á Vitatorgi, þar sem maturinn er eldaður. Þangað geta allir eftirlaunamenn komið og keypt sér mat um helgar. Á örfáum öðrum stöðum þar sem menn þurfa mikla umönnun, hefur fólk fengið mat í í matsal um helgar. Þrátt fyrir þetta var ráðist í að hafa matsalinn í Borgum opinn um helgar.

Fjármagn fylgdi ekki með

Það var Ingibjörg Sigurþórsdóttir framkvæmdastjóri Miðgarðs sem greindi frá því á fundinum með íbúum Borga að velferðarráð hefði samþykkt að hætta með sameiginlegan mat í matsalnum um helgar, en bjóða þess í stað uppá heimsendan mat. Hún sagði að þó það hefði verið ákveðið að bjóða uppá mat í matsalnum á sínum tíma, hefði aldrei verið veitt til þess fjármagni. Fjárhagsstaða borgarinnar væri ekki góð frekar en hjá öðrum sveitarfélögum og þess vegna væri ekki hægt að halda þessari þjónustu áfram. Hún sagði að breytingar væru alltaf erfiðar og það væri mikilvægt að koma saman og ræða þær.

Féllu í grýttan jarðveg

Fundurinn í Borgum

Fundurinn í Borgum

Breytingarnar féllu í grýttan jarðveg hjá íbúum Eirborga og Ásta Jónsdóttir, benti á að þegar byrjað hefði verið með mat í salnum um helgar, hefðu engin tímamörk verið sett. „Borgin er því að ganga á bak orða sinna og ef hún getur ekki rekið þetta ætti hún að láta öðrum það eftir“, sagði hún. Hún sagði jafnframt að maturinn væri félagslegt atriði og heimsendingarþjónusta gæti ekki komið í staðinn fyrir hann. „Margir eru á áttræðis, níræðis og tíræðisaldri og geta ekki annast þetta. Ég veit að þá er bent á aðstandendur til aðstoðar, en sumir eiga fáa aðstandendur og aðrir enga“, sagði hún.

Fá aðstoð með heimsenda matinn

Ingibjörg greindi frá því að allir sem ættu erfitt með að taka á móti heimsenda matnum, fengju aðstoð við það. Þeir ættu að hafa samband við matsfulltrúa sem færi í gegnum ferlið með þeim. Hún sagði líka í bígerð að koma upp föstum hittingi um helgar og það væru einnig messur í Borgum á sunnudögum þar sem fólk kæmi saman. „Við gerum ekki lítið úr því að þetta er góður félagsskapur í kringum matinn, en reynum að lágmarka skaðann eins og hægt er“, sagði hún.

6 milljónir sparast

Spurt var um hversu mikið myndi sparast á því að senda matinn heim í stað þess að framreiða hann í matsal. Fjármálastjóri Miðgarðs sagði að þar sem fé hefði ekki fylgt matnum um helgar, hefði þurft að spara annars staðar til að halda honum úti. Sá rammi sem Miðgarður hefði fengið væri að bjóða uppá matarþjónustu í sal 5 daga vikunnar og með því að breyta þessu um helgar myndu sparast hátt í 6 milljónir króna. „Eins og tímarnir eru, eru allir að reyna að ná sínum markmiðum í fjármálunum. Við erum einnig að samræma þjónustuna, þannig að ekki sé verið að mismuna fólki, eftir því hvar það býr“, sagði hann.

Hvað kosta plastumbúðirnar?

„Hvað kostar að bera þetta fram í plastumbúðum og hefur einhver reiknað út mengunina sem af því hlýst að keyra matinn heim? “ spurði einn íbúanna, fyrrverandi hússtjórnarkennari. Sjálf sagðist hún aldrei myndu bera matinn fram í plasti, það væri óboðlegt. Henni var þakkað fyrir góða ábendingu og umræða spannst um umhverfismál sem þessu tengjast.

Ingibjörg sagðist í lok fundarins óska þess að þetta gengi sem best fyrir sig og að hún myndi gera sitt besta til að svo yrði. Breytingarnar eiga að taka gildi 1. Janúar 2016.

 

Bjarga sjálfboðaliðar helgarmatnum?

Bjarga sjálfboðaliðar helgarmatnum?

„Ákvörðun velferðarráðs um að hætta um áramót með mat um helgar í matsal Borga í Grafarvogi, stendur óhögguð“, segir Ilmur Kristjánsdóttir formaður ráðsins, enda hafi hún verið samþykkt samhljóða í velferðarráði, einkum á þeim forsendum að þetta væri þjónusta sem væri ekki í boði annars staðar í borginni. „En málið þarf ekki að stranda þar“, segir Ilmur „heldur ætlum við að leita lausna sem auka lífsgæði fólks, rjúfa félagslega einangrun og eru hagkvæmar. Þess vegna viljum við fá til liðs við okkur nýstofnað öldungaráð og jafnvel félag eldri borgara“.

Lifðu núna sagði frá fundinum sem haldinn var í nóvember, þegar fólki var kynnt þessi ákvörðun velferðarráðs. Gert er ráð fyrir að sex milljónir króna sparist, við það að hætta með helgarmatinn í matsalnum og senda fólki þess í stað matinn heim. Sjá greininahér.

Sjá ekki hvað sparast

Ásta Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og íbúi í Eirborgum, segir málið í biðstöðu. Hún segir að heimsending matar leysi ekki vandann og spari heldur enga peninga, eða þau sjái ekki hvað sparist. Sérstaklega ekki þar sem þessu þurfi að fylgja fólk sem kemur til að aðstoða íbúa við að útbúa heimsenda matinn heima hjá sér, eins og boðið sé uppá. Hún segir að maturinn verði hækkaður um áramót og íbúarnir hafi rætt það í sinn hóp, hvort ekki megi hafa verðið eitthvað hærra um helgar, ef það gæti orðið til að leysa málið.

Sameiginlegur fundur í febrúar

Velferðarráð fjallaði um málið á fundi fyrir jólin og hefur óskað eftir ítarlegu yfirliti yfir allt tómstundaframboð borgarinnar, starfsmannahald og kostnað við hverja starfseiningu. Í bókun sem gerð var á fundi ráðsins kemur fram að auk þess er óskað eftir heildaryfirliti yfir þá matarþjónustu sem borgin heldur úti. Í bókuninni segir orðrétt.

Einnig óskar ráðið eftir að sviðið skoði möguleika á notkun sjálfboðaliða í matarþjónustunni. Velferðarráð mun taka upp málið að nýju þegar umbeðin gögn liggja fyrir. Það er ósk ráðsins að ræða bæði opið félagsstarf og matarþjónustu á sameiginlegum fundi velferðarráðs og öldungarráðs sem haldin verður í febrúar nk.

Framboð eða sérframboð eldra fólks

Framboð eða sérframboð eldra fólks

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar

Ég fór í óperuna eitt laugardagskvöldið, sem ekki er til sérstakrar frásagnar hér, nema það var mjög gaman. En í hléi, þegar ég stóð frammi með glasið mitt og hafði góða yfirsýn yfir fólkið sem streymdi framhjá tók ég eftir að margar konur voru haltar eða gengu þannig að augljóslega var eitthvað að þeim í fótunum. Líklega veitti ég þessu athygli þarna í fyrsta sinn því undanfarið hef ég sjálf verið í vandræðum með skó vegna tábergssigs í vinstri fæti. Og þegar ég stóð þarna í fínu skónum mínum, og fann fyrir því, sá ég skyndilega vanda hinna kvennanna. Horft til baka þá man ég eftir fleiri konum sem tipluðu eins og til að þurfa ekki að stíga í fótinn. Merkilegt að upplifa þetta með eldinn sem á brennur svona sterkt, þó í smáu sé. Þegar maður er sjálfur kominn í tilteknar aðstæður þá kemur maður betur auga á ýmislegt sem áður fór framhjá og er því tilbúnari til að leita leiða til breytinga ef þarf. Því er svo mikilvægt að þeir sem eldurinn brennur á hverju sinni séu með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um kjör þeirra og stöðu. Slagorð Öryrkjabandalagsins ,,Ekkert um okkur án okkar“ segir nákvæmlega það sem segja þarf um það mál.

Þetta er orðið nokkuð langt tilhlaup að því að fjalla um framboð eldri borgara, en undanfarið hefur komið upp í umræðunni að aldraðir ættu að fara í sérframboð til að treysta stöðu sína. Eldra fólk á endilega að vera í framboði og taka þátt í pólitísku starfi og tryggja það með öllum ráðum að fulltrúar þeirra séu á vettvangi þegar vélað er um þau mál sem sérstaklega brenna á þeim. Þetta á við um Alþingi, og ekki síður um sveitarstjórnir því félagsleg þjónusta við aldraða heyrir undir þær. Mér finnst hinsvegar mikið vafamál að sérframboð standi undir væntingum. Framboðshreyfingar eru krafðar um afstöðu til ýmissa þjóðmála, enda verða kjörnir fulltrúar þeirra að greiða atkvæði um ýmis önnur mál en réttinda- og framfaramál fyrir viðkomandi framboð ef þeir ná kjöri. Þar á meðal eru mál sem talin eru skipa fólki í hefðbundnar pólitískar fylkingar; hægri eða vinstri. Um leið og reyndi á í öðrum heitum pólitískum málum en þeim sem varða viðkomandi framboð er hætt við að baklandið færi að riðlast. Eða af hverju ættu viðhorf okkar til umhverfismála, opinberra afskipta, einkavæðingar og skattastefnu að breytast þó við eldumst?

Á næstu árum þarf að gera ráð fyrir stórauknum fjölda eldri borgara á Íslandi. Stóru kynslóðir eftirstríðsáranna eru óðum að komast á lífeyrisaldur og við því þarf þjóðfélagið að bregðast. Þær ráðstafanir sem gera þarf til að bregðast við þessum þjóðfélagsbreytingum hljóta að verða ofarlega á verkefnalistum stjórnmálaflokkanna og áherslur þá í samræmi við grundvallarhugmyndir í hverjum flokki. Árangursríkast væri ugglaust að eldra fólk starfaði í staðbundnum félögum eldri borgara sem gætu verið mun beittari í hinni þröngu hagsmunabaráttu, í landssamtökum eldri borgara, og tækju síðan virkan þátt í starfi stjórnmálaflokkanna í samræmi við grundvallarskoðun sína í pólitík og gætu þá brýnt fyrir félögunum að þegar fólk er komið í tilteknar aðstæður, og finnur verkinn, er því best treystandi til að leita lausnanna og fylgja þeim eftir. Stjórnmálaflokkarnir eru með eldriborgarahreyfingar og í gegnum þær ættu hinir eldri að gera ríkari kröfur um meiri völd í samræmi við fjölda sinn, möguleg áhrif í kosningum og síðast en ekki síst, vaxandi mikilvægi þeirra málefna sem á þeim brenna. Þar mun enginn pólitískur flokkur geta skilað auðu.

Ömmur á leið í atvinnuviðtal

Ömmur á leið í atvinnuviðtal

Gísli Matthías Auðunsson

„Viðbrögðin við auglýsingunni hafa verið mjög góð. Það hafa nokkrar konur haft samaband og þær fyrstu eru að koma í atvinnuviðtal í dag, föstudag,“ segir Gísli Matthías Auðunsson eigandi Matar og drykkjar. Það er ekki oft sem að fyrirtæki auglýsa eftir starfsfólki sem komið er yfir sextugt , það gerðist þó í vikunni þegar Matur og drykkur auglýsti á fésbók eftir tveimur eldri konum til starfa. „Skilyrðin eru að þær séu konur eldri en 60 ára, hafi gaman að íslenskum mat og drykk og geta unnið aðra hverja helgi frá 10.30 – 14.30. Þekkir þú hressa ömmu sem vantar örlitla aukavinnu og langar að hafa gaman,“ segir í auglýsingunni. „Við erum hátt í tuttugu sem vinnum hjá Mat og drykk, meiri hlutinn yngra fólk. Okkur langar að fá eldra fólk til starfa til að breikka aldursbilið. Það er nauðsynlegt að hafa eldra og reynslumeira fólk í hópnum,“ segir hann og bætir við. „Hér starfa góðir fagmenn. Við erum að fara af stað með dögurð eða brunch. Svo það er ýmislegt skemmtilegt í bígerð hjá okkur.“ Fyrir áhugasama má geta þess að enn er tekið við umsóknum.

Þá verð ég að fara á bæinn

Þá verð ég að fara á bæinn

Sólveig Adamsdóttir starfar tímabundið sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla. Það finnst henni dásamleg vinna

solveig

„Mér var sagt upp störfum sem móttökuritari hjá Atvinnurþróunarélagi Eyjafjarðar þegar ég var 62 ára nú er ég rúmlega 64 ára og ekki enn komin í fasta vinnu,“ segir Sólveig Adamsdóttir á Akureyri. Um þessar mundir  starfar Sólveig í afleysingum sem stuðningsfulltrúi í Giljaskóla, þá stöðu fékk hún um miðjan október og er ráðin þangað til sá sem hún leysir af snýr til baka úr veikindaleyfi. Hvað þá tekur við er ekki ljóst.

Farið að ganga á bótaréttinn

Sólveig segir að staða hennar hjá Atvinnuþróunarfélaginu hafi verið lögð niður haustið 2012. Við því hafi svo sem ekkert verið að segja, það hafi ekkert haft með hennar persónu eða frammistöðu að gera. Stjórn félagsins hafi ákveðið að gera breytingar á starfseminni og þetta hafi verið niðurstaðan. Hún segir að hún hafi fengið sex mánaða uppsagnafrest greiddan, auk orlofs og uppsafnaðs orlofs. Hún hafi því ekki farið atvinnuleysisbætur fyrr en  haustið 2013 og hafi verið á bótum þangað til í nú haust. Það sé því verulega farið að ganga á hennar bótarétt.

Hefur sótt um tugi starfa

Sólveig segir að hún hafi sótt um tugi starfa eftir að hún missti vinnuna en ekki fengið neitt. Hún segist hafa kveikt á perunni hvað væri í veginum þegar hún sótti um vinnu við bókhald hjá Akureyrarbæ. Bærinn hafi skrifað henni bréf  og tilgreint að umsækjendur væru á milli 30 og 40. Í  bréfinu hafi komið fram að þeir 5 hafi verið kallaðir í viðtal sem hafi haft mesta reynslu í bókhaldi.  Sólveig segir að sér hafi brugðið nokkuð við að lesa þetta og ákveðið að hringja í þann sem hafði með ráðninguna að gera og spyrja hvers vegna hún hafi ekki verið kölluð í viðtal þar sem hún hafi unnið við bókhald og launaútreikninga í  30 og  40 ár.  Þá hafi henni verið sagt að hún væri ekki með stúdentspróf. „Þá áttaði ég mig á því að það var kennitalan mín sem stóð í veginum en ekki skortur á þekkingu og reynslu,“ segir Sólveig og bætir við að stúdentsprófið hafi verið fyrirsláttur, það virðist bara vera þannig að fólk á hennar aldri fái ekki vinnu nema í gegnum kunningsskap.

Einkennilegt að hækka lífeyrisaldurinn

Ef að Sólveig fær ekki fasta stöðu þá er ekkert annað fyrir hana að gera en fara aftur á atvinnuleysisbætur en hún á ekki  nema nokkra mánuði eftir af bótatímanum áður en hún dettur út af skránni.„Þá verð ég að leita til sveitarfélagsins um framfærslu þangað til ég kemst á eftirlaun. Svo eru þeir að tala um að hækka lífeyrisaldurinn, sem er afar einkennilegt í ljósi þess hversu illa eldra fólki gengur að fá störf.  Stundum finnast manni þessir þingmenn „dáldið“ vitlausir,“ segir Sólveig og bætir við að það sé verið að ýta vandanum yfir á sveitarfélögin. „Þá er maður kominn á bæinn og það þótti nú ekki fínt þegar ég var ung,“ segir hún að lokum.

 

Þungt á vinnumarkaði fyrir sextuga

Þungt á vinnumarkaði fyrir sextuga

Friðbert Traustason

Starfsmönnum fjármálfyrirtækja hefur fækkað um rúmlega 2.300 frá því  að hrunið varð og þeim heldur áfram að fækka. Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) segir að  uppsagnir síðustu missera hafi einkum bitnað á konum á miðjum aldri eða eldri.

20 til 40 ár í sama banka

Friðbert segir að í fyrstu hrinu uppsagna, í hruninu sjálfu og dagana þar á eftir, hafi skipting milli karla og kvenna verið nokkuð jöfn og yngra fólkið hafi frekar misst vinnuna en þeir eldri. „Síðan hefur rúmlega þúsund verið sagt upp  hjá fjármálastofnunum. Um áttatíu prósent eru konur, meirihlutinn  um og yfir 50 ára,“ segir Friðbert. Hann segir að skýringin á því sé sú að á síðustu árum  hafi um 50 bankaútibúum verið lokað og nær allir eða 9 af hverjum 10 starfsmönnum í útibúunum hafi verið konur.  „Margar þessara kvenna voru búnar að vinna í tuttugu til fjörutíu ár í sama bankanum eða frá því þær luku grunnskólanámi eða stúdentsprófi,“ segir Friðbert.

Hvetjum fólk til að taka hverju sem er

Mörgum kvennanna einkum þeim sem búa út á landi hefur reynst erfitt að fá aðra vinnu. Friðbert segir að SSF  hafi hvatt fólk til að taka hvaða vinnu sem væri. „Við höfum ráðlagt fólki að vera í vinnu við að sækja um aðra vinnu frekar en vera atvinnulaust.  Það er nánast útilokað fyrir fólk sem er fætt um 1960 að fá vinnu ef það hefur verið atvinnulaust í ár eða lengur. Það er okkar reynsla,“ segir hann og bætir við að sé fólk orðið sextugt sé orðið mjög þungt fyrir á vinnumarkaði.

Mikill mannauður

Hann segir að fólk hafi verið duglegt að ganga í hvaða störf sem er, séu þau á annað borð í boði.  Fyrrverandi banakstarfsmenn hafi farið að vinna í verslunum, við ummönnun og á skrifstofum.  „Ég held að sumir atvinnurekendur hafi áttað sig á hvaða mannauður býr í þessu fólki. Þetta er fólkið sem mætir alltaf í vinnuna er nákvæmt í vinnubrögðum og skilar sínu,“ segir Friðbert.

Ekki fá þér of mikið á diskinn

Ekki fá þér of mikið á diskinn

Óla Kallý Magnúsdóttir

„Næringarefnaþörf okkar, það er þörf okkar fyrir vítamín, steinefni og trefjar, breytist lítið með aldrinum og er nánast sú sama út lífið. Orkuþörfin minnkar aftur á móti með aldrinum. Þetta þýðir að öll næringarefni þurfa að vera til staðar í minni fæðuskömmtum og þá er ekki mikið pláss fyrir sætindi og næringarsnauðan mat. Þörfin fyrir mjög góðan og næringarríkan mat er aftur á móti meiri“, segir Óla Kallý Magnúsdóttir næringarfræðingur hjá Heilsuborg þegar hún er spurð á hvort næringarþörf fólks breytist með hækkandi aldri.

Aldraðir þurfa minni skammta

Óla Kallý hefur sérhæft sig í næringarmeðferð fyrir einstaklinga með sykursýki en hún hefur líka unnið mikið með öldruðum og fólki sem er of feitt eða of þungt. Hún lauk meistaraprófi í næringafræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2014. Óla Kallý segir að orkuþörf fólks minnki með aldrinum, um 2,5-5% á hverjum áratug eftir 50 ára. „Ástæðan er vöðvarýrnun, minni hreyfing og fleira. Þetta þýðir að við þurfum minni, en næringarríkari skammta. Orkuþörf, þörfin fyrir hitaeiningar, er einstaklingsbundin,“ segir hún.

Allir ættu að taka D-vítamín

„En það verður að hafa í huga að að öll vítamín og steinefni þurfa að vera til staðar í minni fæðuskömmtum. Það vítamín sem helst skortir í fæði Íslendinga er D vítamín en auk þess virðist D-vítamín þörf aldraðra meiri en þeirra sem yngri eru. Ráðlagður dagsskammtur fyrir D vítamín er því hærri fyrir aldraða, eða 20 µg á dag. Því er mikilvægt fyrir aldraða, sem og aðra, að taka D vítamín daglega. Meltingarkerfið getur einnig misst getuna með aldrinum til þess að nýta ýmis vítamín og steinefni. Sem dæmi um það er B12 vítamín. Lystarleysi sem stundum fylgir hækkandi aldri og breytingum á högum aldraðra getur leitt til þess að erfitt er að fullnægja þörf á næringarefnum og þá þarf að gera sérstakar og oft einstaklingsbundnar ráðstafanir,“ segir hún og bætir við að  að D vítamín og sé í  raun  eina bætiefnið sem aldraðir þurfa að taka ef þeir geta borðað fjölbreytta fæðu og engin önnur undirliggjandi vandamál hafa áhrif á fæðuinntöku og meltingu.

 

1 2