Ætla að slá í gegn í Slóveníu

DEILA

Ætla að slá í gegn í Slóveníu

Í tæp þrjátíu ár hefur hópur karla hist í hverri viku til að stunda leikfimi saman. Nú æfa þeir dansatriði af kappi undir listamannsnafninu The Sóley’s boys og stefna ótrauðir á Hátíð gullna aldursins, The Golden age festival, sem verður haldin í Slóveníu þetta árið.

Inn með magann og halda stöðunni,“ kallar Sóley Jóhannsdóttir danskennari yfir hóp 12 karlmanna á besta aldri sem liggja löðursveittir í armbeygjustöðu á gólfi Kramhússins. Undir dynur Eurovision-lagið Everybody, framlag Eistlands árið 2001, og stemningin er rafmögnuð.

Við næsta takt stökkva karlarnir á fætur og taka létta sveiflu við sjálfa sig, rétta hendur upp til himins og klappa í takt. Klukkan er rétt rúmlega sjö á þriðjudagsmorgni en hópurinn heldur áfram að hoppa og snúast hring eftir hring eins og enginn sé morgundagurinn. Þetta eru Strákarnir hennar Sóleyjar, eða The Sóley’s boys, eins og þeir munu heita þegar þeir verða kallaðir upp á svið á The Golden age festival í Portoroz í Slóveníu í næsta mánuði. Það er ekkert gefið eftir enda til mikils að vinna. Strákarnir stefna á að skáka ókrýndum sigurvegurum síðustu hátíðar gullna aldursins, þýsku stálkroppunum sem allir eru komnir yfir nírætt en komu sáu og sigruðu með tvísláaratriði sínu.

„Þýski aginn fær ekki að vinna okkur,“ grínast Guðni Kolbeinsson og strákarnir hennar Sóleyjar skella allir upp úr. Það er óneitanlega góð stemning í hópnum enda hefur kjarni hans æft leikfimi með Sóleyju í tuttugu og sex ár. Sá yngsti er 59 ára en sá elsti er að nálgast áttrætt og allir eru þeir í toppformi.

Click here

Vinnubúðir og áfengisbann

„Upphaflega áttu þetta að vera leikfimitímar í hádeginu en svo breyttist þetta einhverra hluta vegna í danstíma,“ segir Guðni og aftur skella allir upp úr.
„Þegar ég bar þá hugmynd undir strákana fyrir fjórum árum síðan að fara út á þetta „festival“ og dansa uppi á sviði þá var ekki tekið mjög vel í hugmyndina, það var bara „general“ hlátur í sturtuklefanum,“ segir Rúnar Gunnarsson og aftur hljómar hláturinn um salinn.
Hópurinn ákvað þó að fara út fyrir þægindarammann og taka þátt í The golden age festival. Hátíðin er haldin annað hvert ár á einhverjum fallegum og sólríkum stað í Evrópu og þar mætist fólk sem er komið yfir fimmtugt til að skemmta sér saman, dansa og stunda allskyns hreyfingu. „Þetta áttu nú upphaflega bara að vera tvær sýningar sem eru 3 mínútur hvor og svo restin bara frí og afslöppun. En svo voru allt í einu eilífar æfingar bæði kvölds og morgna og áfengisbann í þokkabót. Þetta voru bara vinnubúðir,“ segir Guðni.
„Enda slógum við algjörlega í gegn!,“ er þá kallað innan úr hópnum.

Auðvelt að sleppa sér á þessum aldri

„Í fyrstu ætluðu strákarnir ekkert að vera með í sýningu á „festivali“ þar sem 95% þátttakenda eru konur. Þannig að ég tók konurnar þeirra með í atriðið og það sló algjörlega í gegn, sérstaklega vegna þess hvað það skein mikil gleði af hópnum. Ég hef aldrei hlegið eða haft jafn mikið gaman að nokkru verkefni og við vöktum mikla athygli,“ segir Sóley. Eiginkonur strákana munu einnig vera með í „comebackinu“ í Slóveníu því í lok dansatriðisins munu þær svífa inn á svið og taka nokkur dansspor með strákunum. „Það góða við að komast á þennan aldur er hversu auðvelt er að sleppa sér,“ segir Sóley.
„Við erum að þessu til að skemmta okkur,“ skýtur þá eiginmaður Sóleyjar inn, Ólafur Jón Briem, en hann er einn af strákunum.

Elstu borgararnir skildir eftir fyrir utan heiminn.

FRIÐRIKA BENÓNÝSDÓTTIR hjá Fréttatímanum skrifar:

Sífellt fleiri stofnanir og fyrirtæki hafa hætt að senda frá sér upplýsingar á prenti, þær verður allar að sækja á netið. Þessi þróun bitnar á eldri borgurum sem margir hverjir upplifa sig afskrifaða af samfélaginu. Brýnt að skoða leiðir til að koma til móts við þarfir þess hóps, segir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.

Stór hluti af elsta hópnum í Félagi eldri borgara í Reykjavík stendur alveg fyrir utan netvæðinguna,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður félagsins. „Það er fólk sem vill ennþá prentað mál og á rétt á því að fá þær upplýsingar sem það þarf eins og aðrir. Við höfum af þessu áhyggjur og það er ljóst að við þessu hefði þurft að bregðast miklu fyrr.“
Sífellt fleiri stofnanir og fyrirtæki eru hætt eða um það bil að hætta að senda frá sér prentað efni, hætt verður að prenta símaskrá, leiðabók Strætó verður eingöngu á netinu á nýju ári og verið er að ljúka netvæðingu skattskila, svo dæmi séu tekin. Þórunn segir Félag eldri borgara hafa reynt að bregðast við þessari þróun með námskeiðahaldi í notkun tölva og snjalltölva og muni halda því áfram en það muni aldrei koma öllum þeim sem á þurfa að halda til góða. „Við héldum í fyrra námskeið, meðal annars á iPad, sem hundrað manns sóttu yfir veturinn og munum halda því áfram auk þess sem við hvetjum fólk til að sækja námskeið fyrir eldri borgara hjá tölvufyrirtækjum. En réttur fólks til að hafa aðgengi að hlutunum er brýnt mál og það þarf að fara að skoða gaumgæfilega hvernig hægt er að koma til móts við þarfir þessa hóps.“
Horft hefur verið til Danmerkur um fyrirmyndir að því hvernig hægt er að tryggja réttindi elsta hópsins til aðgengis að upplýsingum og Þórunn segir ljóst að þessi mál hefði átt að skoða miklu fyrr. Í Danmörku séu til dæmis tölvuver í öllum félagsmiðstöðvum eldri borgara og mikið lagt upp úr því að fólk tileinki sér tæknina. Hins vegar sé töluvert stór hópur sem ekki treysti sér til þess og skoða þurfi úrræði fyrir hann. „Auðvitað náum við aldrei öllum,“ segir hún. „Það er alveg ljóst. Og enn er það þannig að í flestum tilfellum er hægt að fá útprent á pappír hjá stofnunum, en um það þarf að biðja sérstaklega og það ruglar fólk mjög í ríminu að eiga að sækja launaseðla, til dæmis, inn á netið og um leið og fólk kinokar sér við því þá minnkar eftirlitið með því hvort allar greiðslur séu réttar.“
Í Félagi eldri borgara er fólk frá sextíu ára aldri og Þórunn segir netvæðinguna ekki vera vandamál fyrir yngri hóp félagsmanna. Sé horft til eldri hópsins hins vegar fari málin að versna. „Elsti hópurinn, fólk um og yfir áttrætt, er að mínu viti skilinn eftir fyrir utan heiminn með þessari netvæðingu sem eykst ár frá ári. Það er bara sanngirnismál að svona mikil breyting taki einhvern tíma og fólk nái að aðlagast. Þessi þróun eykur á einangrun eldra fólks og ég hef upplifað að mörgum finnst að þjóðfélagið sé búið að afskrifa þá. Það má ekki gerast.“