
Vita ekki, að lægsti lífeyrir er undir 200 þúsund á mánuði!
Mér finnst ótrúlegt hvað almennt er lítið vitað um bág kjör þeirra, sem verst eru staddir meðal aldraðra og öryrkja.Jafnvel finnast alþingismenn, sem vita ekki, að hópur aldraðra og öryrkja býr við skort.
Einhverju sinni hafði ég skrifað grein um kjaramál aldraðra og öryrkja og nefndi tölur um lægsta lífeyrinn.Ég sagði, að þeir sem ekki hefðu greiðslur úr lífeyrissjóði eða af atvinnutekjum væru með 185 þúsund krónur á mánuði eftir skatt, ef þeir væru í sambúð eða hjónabandi. Og einhleypir hefðu 207 þúsund eftir skatt.Blaðamanninum,sem tók við greininni frá mér, þóttu þessar tölur svo ótrúlegar,að hann sendi mér tölvupóst og spurði hvort tölurnar voru réttar, hélt að þetta væri prentvilla eða pennaglöp. En tölurnar voru réttar og eru réttar. En þær eru ótrúlegar. En ennþá ótrúlegra er þó það, að fyrir alþingi skuli liggja lagafrumvarp um að þessar lágu upphæðir verði lögfestar óbreyttar.Og sumir þingmenn telja, að frumvarpið bæti kjör allra og þar á meðal þeirra, sem hafa lægsta lífeyrinn!
Þeir, sem hafa 500-600 þúsund á mánuði í laun og jafnvel 7-800 þúsund á mánuði eiga erfitt með að skilja,að einhver hafi í kringum 200 þúsund og eigi að lifa af því; eigi þar af að greiða öll útgjöld sín, þar á meðal húsaleigu eða afborgun og vexti af íbúðarlánum, rafmagn og hita,matvæli,fatnað, rekstur bíls eða annan samgöngukostnað, afnotagjöld af síma, sjónvarpi og tölvu, afþreyingu, gjafir til barnabarna, lyf og lækniskostnað. Það er engin leið að láta þessa hungurlús,sem ríkisstjórnin skammtar til aldraðra og öryrkja duga fyrir öllum þessum útgjöldum (þá sem eru á lægsta lífeyrinum).Enda hefur Félag eldri borgara í Reykjavík margoft upplýst, að vissir eldri borgarar hringi til félagsins í lok mánaðar og segi frá því, að þeir eigi ekki fyrir lyfjum, læknishjálp eða jafnvel mat. Þetta er í velferðarþjóðfélaginu,Íslandi, þar sem ráðherrar guma af því nær daglega, að ástandið í þjóðfélaginu sé mjög gott!
Alþingi heldur ekki þingfundi næstu daga, ekki fyrr en á mánudag. Það verða nefndafundir.Það styttist því enn sá tími sem ráðherrar og stjórnarliðar hafa til þess að efna stóru kosningaloforðin, sem þeir gáfu öldruðum og öryrkjum 2013.Það eru aðeins 7 þingfundardagar eftir. En ef vilji er fyrir hendi dugar það.Stjórnarliðar ættu að taka rögg á sig og efna loforðin á þessum 7 dögum og ganga til kosninga með hreint borð.Ef þeir gera það ekki er hinn kosturinn þessi: Að hætta við framboð og draga sig i hlé vegna þess að þeir hafa svikið kjósendur.Þeirra er valið.
Björgvin Guðmundsson